02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3068)

142. mál, framhaldsnám í gagnfræðaskólanum á Akureyri

Sigurjón Jónsson:

Það hefir þegar ýmislegt komið fram af því, sem jeg vildi minnast á. Jeg skil það ekki, að ef ekki þarf nú að tvískifta bekkjum skólans, þá þurfi á að halda öllum þeim kenslukröftum, sem við hann hafa verið. Mjer skilst því, að hjer sje um að ræða að nota þær stundir af lögákveðnum kenslustundum fastra kennara, sem afgangs yrðu við gagnfræðakensluna. En það er auðsær kostnaður fyrir ríkissjóð, og mætti auðvitað fækka stundakennurum við skólann, þar sem jeg býst ekki við, að þeir sjeu ráðnir með föstum launum eða til langs tíma.

Eftir því sem mjer skilst af skólaskýrslunni 1922–23, hefir verið að minsta kosti 18 tíma stundakensla á viku við skólann þann vetur. Þessi stundakensla ætti að sjálfsögðu fyrst að falla niður. Þar næst tel jeg, að ganga ætti á aukakennarana, áður en fastakennarar hafa ekki fullan stundafjölda þetta vildi jeg gjarnan fá betur skýrt. Jeg skil þetta svo, að það sje ekki annað en vísir til fullkomins mentaskóla, sem seinna á að koma. Það á að fika sig áfram með þetta mál, sem menn hafa ekki treyst sjer til að bera fram á annan hátt á þessu þingi.

Jeg get tekið undir 2. lið till., um að lána húsrúm. Jeg tel sjálfsagt að lána húsið í þessu skyni, en það er óþarft að fara til þingsins með þá málaleitun. Það getur skólastjóri og yfirstjórn fræðslumálanna útkljáð sín á milli. En að ráðstafa stundakennurum og aukakennurum á þennan hátt eru bein útgjöld fyrir ríkissjóð, sem samþykki þingsins verður að sjálfsögðu að koma til, en það get jeg ekki fallist á að veita.