30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Auðunn Jónsson:

Það kendi nokkurs misskilnings hjá háttv. frsm. fjvn., er hann talaði um skipulagsuppdrættina, og skal jeg skýra þetta með fáum orðum að því leyti, sem það snerti uppdrættina frá Bolungarvík; en yfir höfuð virtist mjer hv. frsm. gera mjög lítið úr störfum skipulagsnefndarinnar. En þannig liggur í þessu máli, að ýmsum mönnum í Bolungarvík hafði dottið í hug, að þar mætti gera sæmilegustu höfn án þess að leggja mjög mikið í kostnað. Mál þetta er ennþá alveg órannsakað og jeg býst ekki við, að í náinni framtíð verði gert annað í þessa átt en að fá það rannsakað nánar, hvort þetta mundi vera framkvæmanlegt. Þegar bygginganefnd þorpsins átti tal við hreppsnefndina um þetta mál, varð það að samkomulagi, að gerðir skyldu skipulagsuppdrættir með tilliti til þessarar hafnargerðar, og þar sem nefndin sá, að mjög óverulegar breytingar þurfti að gera á skipulagi þorpsins í sambandi við þetta hafnarstæði, var afráðið, að gerðir skyldu tveir uppdrættir. Var fyrri uppdrátturinn fremur gerður til þess að sýna, að nefndin hefði nákvæmlega gengið frá þessu verki, en hann var sýndur fjvn. án þess að málið væri skýrt fyrir henni á annan hátt. En þó gerðir væru tveir uppdrættir af þessu, var þó sýnt, að ekki þurfti að breyta nema einni götu í þorpinu, ef þetta hafnarstæði verður notað, eins og fyrirhugað er í framtíðinni. Þess vegna var ákveðið að ráðast ekki í neitt, sem riðið gæti í bág við þessar framkvæmdir síðar meir.

Það er og víst, að hreppsnefndir í kauptúnum og flest slík bæjarfjelög bíða eftir skipulagsuppdráttum hjá sjer. Það er mjög erfitt að byggja í þröngbýlum bæjum, eins og t. d. á Ísafirði, án slíkra uppdrátta, því menn vilja ógjarnan brjóta í bág við þá. Ef ekki á alveg að fella þetta verk niður, hygg jeg, að það verði nauðsynlegt að áætla eitthvert fje í fjárlögum til þess að unnið verði að þessum uppdráttum. Þetta er sjerstaklega nauðsynlegt fyrir Ísafjarðarkaupstað, sem hefir lítið af byggingarlóðum, og væri það bænum mjög bagalegt, ef það yrði að fresta því um fleiri ára skeið að leyfa mönnum afi byggja.

Ýmsir háttv. þingdeildarmenn hafa lagt á móti því, að bygð verði fangahús í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. En jeg held það sje illverjandi að draga svo úr rjettarörygginu í landinu, að lamaðar verði framkvæmdir lögregluliðsins t. d. með því, ef fangahús brenna, að leyfa ekki, að þau verði bygð upp aftur. Einkum getur það orðið tilfinnanlegt að hafa ekki fangahús í bæjum, þar sem mikið er um útlenda sjómenn, sem oft gera ýms spell og usla í bænum. Jeg vil annars spyrja hæstv. stjórn, hverjir það eru, sem eiga að líta eftir vátryggingu opinberra bygginga, hvort það er stjórnin sjálf, sem á að sjá um slíkt, eða bæjarfógetar og sýslumenn. Jeg tel það óforsvaranlegt, að þar sem er skylduvátrygging á hverjum kofa í bæjunum, að opinberar byggingar skuli geta brunnið óvátrygðar. Hefðu þeir, sem þessa hafa átt að gæta, gert skyldu sína, hvort heldur það er stjórnin sjálf eða bæjarfógetinn á Ísafirði, hefði þessi fjárbeiðni aldrei þurft að koma hjer fram, því það er enginn vafi á því, að fangahúsið á Ísafirði hefði mátt endurbyggja fyrir vátryggingarupphæðina, eins og flest önnur hús, sem brenna vátrygð.