30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Baldvinsson:

Mjer kom dálítið á óvart þessi gusa frá hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), því að jeg þóttist alls ekki í þessari síðustu ræðu minni hjer í kvöld hafa gefið tilefni til þess, að hv. þm. talaði eins og hann nú gerði. Í fyrsta lagi verð jeg, ef jeg nokkuð fer annars að athuga þessa ræðu hv. 1. þm. G.-K., að leiðrjetta herfilegan misskilning hans viðvíkjandi brtt. minni um hlutabrjefakaupin, þ. e., að ríkið kaupi hlutabrjef af Eimskipafjelagi Íslands. Einkum tel jeg nauðsynlegt að leiðrjetta þennan misskilning hv. þm., ef svo ólíklega skyldi hafa til tekist, að einhverjir aðrir hv. þingdeildarmanna hefðu skilið orð mín á sama veg og hann. Jeg hefi verið svo heppinn að vera búinn nú þegar að fá þessa ræðu mína í hendur, skrifaða af einum hinum ágætasta innanþingsskrifara deildarinnar, sem hefir ritað niður orðrjett ummæli þau, sem jeg viðhafði, er jeg mintist á þessi hlutabrjefakaup. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp þennan kafla úr ræðu minni eins og innanþingsritarinn hefir gengið frá honum, svo tekinn verði af allur vafi á því, hvernig mjer hafi farist orð um þetta efni:

„Einhver skaut því að mjer, er tilrætt varð um þetta, að rjettast væri, að ríkið tæki forgangshlutabrjef í fjelaginu, en jeg taldi það ekki eiga við. Jeg vil ekki líta svo svart á ástæður fjelagsins, að jeg örvænti um hag þess; en það liggur beint við, ef krafist er forgangshlutabrjefa.“

Þannig hljóða þá þau orð, sem innanþingsskrifari deildarinnar hefir tekið upp eftir mjer, en hv. 1. þm. G.-K. bölsótast móti þessari brtt. minni vegna þess, að þar sje aðeins átt við forgangshlutabrjef, með öðrum orðum, að jeg geri ráð fyrir því, að fjelagið sje að fara á höfuðið. Jeg hefi nú sýnt fram á, hversu miklar ástæður þessi háttv. þm. hafði til þess að ærast út af orðum mínum um forgangshlutabrjefin, en þá hafði hann ekki heldur meira fyrir sjer í því, sem hann mælti til mín út af atvinnuleysinu. Þau ummæli hans eru bygð á samskonar misskilningi og nú hefir verið skjalfest hjer í deildinni um hlutabrjefakaupin. Jeg hefi ekki tíma til þess að taka alt það til athugunar og andsvara, sem hv. þm. fór með, en það voru mestmegnis staðlausir stafir. Jeg vil aðeins segja hv. 1. þm. G.-K. það, að ef hann sjer fram á það með fullri vissu, að hann sjálfur þurfi ekki nema aðeins að mæla fram ein tvö orð eða þrjú til þess að öllu atvinnuleysi verði blásið á braut, þá er hvorki hann sjálfur nje almenningur yfir höfuð á flæðiskeri staddur. Jeg er þess fullviss, að hv. þm. yrði mjög eftirsóttur víðsvegar utan úr heimi. Menn eiga við mikið atvinnuleysi að stríða í ýmsum löndum, t. d. Englandi, Frakklandi, Danmörku og í óteljandi stöðum öðrum úti um allan heim, og mundi því mjög verða leitað á náðir þessa hv. þm. til þess að bæta úr atvinnuleysisbölinu, ef það yrði alment vitað, að hann rjeði svo auðveldlega við það. En jeg verð að skilja það sem algerðan skort á velvilja af hans hálfu til hinnar íslensku þjóðar, er hann ekki bætir neitt úr atvinnuleysinu hjer, ef hann veit jafnágætt ráð við því og hann lætur. En mjer fanst kenna allmikillar gremju og kulda hjá hv. þm. til verkalýðsfjelaganna hjer á landi. Jeg gaf enga ástæðu til þess í ræðu minni og viðhafði engin þau orð, sem hann eða aðrir atvinnurekendur þurftu að stökkva upp á nef sjer fyrir. Jeg gaf engum sökina sjerstaklega. Þá varð og vart nokkurrar mótsagnar í ræðulokin hjá þessum hv. þm., sem reyndar er ekki óvenjulegt um hann, er hann komst svo langt, að hann viðurkendi, að atvinnuleysið væri ekki eingöngu atvinnurekendum að kenna, en þá þó að nokkru. Þetta var þó dálítil viðurkenning algengra sanninda, og eina glóran í ræðu hans, því að öðru leyti stönguðust röksemdirnar hjá hv. þm. eins og hrútar á haustdegi.