02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

145. mál, hressingarhæli og starfsstöð fyrir berklaveikt fólk

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. er borin fram vegna þess, að landið hefir þegar tekið að sjer að styðja berklaveika sjúklinga í veikindum þeirra, og er kostnaður sá, sem ríkissjóður hefir af þessum stuðningi, nú um 300 þús. kr. árlega, og ekki fyrirsjáanlegt, að hann minki í bráð. En þó að þessi styrkur sje veittur fólki í veikindum þess, þá er enn óleyst hið mikla vandamál, hvað hægt er að gera við fjölda þess fólks, sem búið er að verja þúsundum króna til þess að lækna, en þó hefir ekki náð þeirri heilsu, að verða fært um að vinna erfiða vinnu, og getur jafnvel í mörgum tilfellum hvergi fengið inni, hvorki í sveitum nje bæjum, vegna hræðslu almennings við smitunarhættu, þó að sú hræðsla kunni oft ef til vill að vera ástæðulaus. Getur þá farið svo, að sá bati, sem fólk þetta hefir fengið í berklahælum, verði að engu, vegna þess, að eðlilegt áframhald vantar. Að vísu er till. á þskj. 311, sem samþ. var áðan hjer í hv. deild. spor í rjetta átt, en jeg geri ekki ráð fyrir, að kvenfjelagið „Hringurinn“, þó að það starfi af miklu kappi framvegis sem hingað til, geti náð til nema tiltölulega lítils hluta þess fólks, sem þannig er ástatt fyrir og þarf að bjarga. þess vegna verður hið opinbera að taka til sinna ráða og koma upp heimilum fyrir fólk þetta, þar sem landið og sýslufjelögin tækju höndum saman um þessi tvö atriði: að hjálpa fólkinu til þess að ná í algerðan bata, og um leið að gefa því tækifæri til þess að ljetta undir með kostnaðinn, með því að starfa eitthvað að ljettum verkum, eftir því sem heilsan leyfði.

Auk þess mundi fólk þetta þarna fá fast heimili og góða aðhjúkrun, sem það þarfnast mjög til þess að ná fullum bata.

Jeg vil leyfa mjer að nefna nokkra staði á landinu, sem fljótt á litið virðast vel til þess fallnir, að slík heimili sjeu reist þar. Á Austurlandi er Hallormsstaður mjög líklegur staður. Á Norðurlandi má t. d. nefna stað skamt frá Reykjahólum í Skagafirði. Þar er mikið af heitu vatni og mjög frjósamt land, þar sem sennilega mætti reka stórt kúabú og auk þess garðrækt í stærri stíl. Mundu sjúklingarnir þar geta unnið töluvert að ljettri vinnu. Hjer á Suðurlandi er slíka staði víða að finna, t. d. hjer uppi í Mosfellssveit og á mörgum stöðum í Árnessýslu, í Ölfusinu, uppi í Hreppum, Biskupstungum, Laugardal og víðar, staðir, þar sem mörg aðalskilyrðin fara saman, þar sem nóg er af heitu vatni og sæmilega gott land til ræktunar.

Það má nú kanske segja, að ekki sjeu miklar líkur til þess, að slík hæli verði bygð í bráð, og því sje ekki tímabært að ræða þetta mál nú. En það skiftir miklu máli, að þegar að því kemur, að bygð verði slík heimili, þá sjeu staðirnir heppilega valdir, bæði með það fyrir augum, að reksturinn geti orðið sem ódýrastur, og svo að þessum hálfgerðu sjúklingum verði gerð æfin sem þægilegust á allan hátt.