06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3100)

150. mál, sundlaug í Reykjavík

Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er rjett skilið hjá hæstv. forseta (HSteins), að till. þessi, sem mentmn. deildarinnar ber fram, sje orðuð eins og raun ber vitni um, af því, að ekki sje ætlunin, að ríkisstjórnin eyði neinu fje í framkvæmdir hennar. Munu vegamálastjóri og húsameistari ríkisins vart vera svo önnum kafnir á næstunni, að þeim vinnist ekki tími til að athuga þetta mál og gera kostnaðaráætlanir.

Það mun vera talsverður áhugi fyrir þessu hjá íþróttamönnum hjer í bænum, og hafa leiðandi menn þeirra sagt mjer, að þeir hafi hugsað sjer að haga fjársöfnun til þessa fyrirtækis á líkan hátt og konur hafa hugsað sjer um landsspítalann. Það eru viss atriði í brjefi því, sem íþróttamenn hafa sent þinginu, sem ekki mun vera hægt að taka tillit til, þar á meðal tilmælin um að fá lóð í miðjum bænum. Hefir borgarstjórinn þegar hugsað sjer heppilegan stað í þessu skyni í útjaðri bæjarins, og býst jeg við, að sá staður verði valinn. Fleiri atriði eru í brjefi íþróttamanna, sem ekki verður fallist á, en meginatriðið er þó á rjettum rökum bygt, og er það engum efa bundið, að rannsókn og síðar framkvæmd þessa máls yrði til mikils gagns fyrir íþróttalíf hjer í Rvík og jafnvel á öllu landinu.

Með því að jeg hefi áður talað um nauðsyn þessa máls, þá mun jeg nú ekki halda lengri ræðu að sinni, en vil aðeins óska þess, að till. verði samþykt og skilyrðin sem fyrst athuguð.