28.03.1924
Efri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

106. mál, Landsbókasafnið

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. er sprottin upp af gröf frv. í þessari hv. deild. Mjer datt þá í hug, að deildin kynni að vilja athuga þetta mál frá öðru sjónarmiði. Þess vegna leyfi jeg mjer að fara þess á leit, að þessu máli verði skotið til mentamálanefndar. Vona jeg, að það þyki ekki ófyrirsynju, þótt málinu sje hreyft.

Eru nú liðin nálega fimm ár síðan eftirlitsnefnd landsbókasafnsins neitaði að taka nokkurn þátt í stjórn þess. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa brjef það, sem nefndin sendi landsstjórninni þ. 10. apríl árið 1919. Þetta brjef var þá lagt fyrir mentamálanefnd Nd. Er í því allfreklega að orði kveðið, en höfundar þess eru meðal þektustu manna við háskólann, þeir próf. Lárus H. Bjarnason, próf. Haraldur Níelsson og próf. Guðmundur Hannesson. Þykist jeg fullviss um, að dómur þeirra þyki nokkurs virði. Í brjefinu segir svo:

„Tvennskonar fyrirkomulag hefir nú verið reynt á stjórn landsbókasafnsins, fyrst nefndarstjórn og síðan eins manns stjórn, frá því er lögin nr. 56 1907 gengu í gildi. Vjer skulum engan dóm á það leggja, hvort stjórnarfyrirkomulagið er betra. En hitt vita allir sem nokkuð þekkja safnið, að nýja fyrirkomulagið hefir eigi komið að viðunanlegu haldi.

Meðal annars hefir bókaeign safnsins tekið of litlum bótum. Er það að vísu nokkuð því að kenna, að fje til bókakaupa hefir verið numið um of við neglur. En hitt veldur og miklu, að handahóf virðist ráða of miklu um bókakaupin, enda vantar árum saman meira eða minna í ýms nýtileg verk. Er sýnilegt, að meira er lagt upp úr bókatölu en bókavali. Er þetta sennilega meðfram því að kenna, að landsbókavörður hefir eigi notað aðstoð nefndar þeirrar, er sett var honum til aðstoðar um kaup bóka og handrita. Samvinnan hefir eigi náð lengra en það, að nokkrum hundruðum króna hefir verið skift árlega — þó eigi síðustu árin — milli fjögra nefndarmanna, og þeim eftir látið hverjum fyrir sig að ráða pöntunum fyrir það fje, sem í hlut hvers hefir komið, og að nefndarmönnum hefir verið send „Dansk Bogfortegnelse“, stundum gömul, svo sem nú, og þeim gefinn kostur á að merkja við þær bækur, sem þeir kynnu að kjósa.

Lítum vjer svo á, sem bæði 5. gr. Landsbókasafnslaganna og erindisbrjef landsbókavarðar nr. 53/1910 hafi ætlast til annarar samvinnu.

Þá viljum vjer og benda á það, að það úir og grúir á safninu af bókum, sem þar ættu eigi að vera, jafnmikið og kvartað er undan þrengslum þar. Fer nú að vísu að vonum, svo mikið sem safninu hefir gefist af bókum, að allmikið af bókunum er óeigulegt. En þær bækur ættu að víkja fyrir betri bókum.

Enn má geta þess, að spjaldskráin í útlánssalnum er eigi áreiðanleg, enda hefir hún eigi verið borin saman við bókaeignina.

Loks verður að geta þess, að betra skipulag og hirða mætti vera bæði á lestrar- og útlánssal.

Bæði þessa galla og aðra hjer ótalda teljum vjer að kenna megi og eigi landsbókaverði, og eigi síst drykkjuskap hans, sem að vísu virtist rjena um nokkurra vikna tíma eftir að nefndin hafði talað við forsætisráðherra 21. janúar þ. á., en nú virðist sækja í sama horf og áður, enda ástríðan orðin svo gömul og mögnuð, að vonlaust má heita um nokkurn verulegan bata.

Eina áreiðanlega leiðin, safninu til viðreisnar, er að vorum dómi sú, að skifta um landsbókavörð. Ráðgjafarnefnd kemur að engu liði með núverandi landsbókaverði, enda óskum vjer, fulltrúar háskólans, eigi að eiga þar sæti, verði lengur liðið það ástand, sem verið hefir og er á stjórn safnsins. Bjarni adjunkt Sæmundsson, fulltrúi mentaskólans, hefir þegar gengið úr nefndinni, og þjóðskjalavörður, dr. Jón Þorkelsson, hefir lengi eigi sótt fundi.

Liggur sennilega eigi fjarri að geta þess til, að sömu ástæður liggi undir hjá öllum, þó að misjafnlega komi út.

Reykjavík, 10. apríl 1919.

Virðingarfylst

Lárus H. Bjarnason. Haraldur Níelsson. Guðm. Hannesson.“

Svo mörg eru þessi orð. Þessi kæra var send stjórnarráðinu 1919. En eins og hæstv. forsrh. (JM) gat um fyrir stuttu hjer í deildinni, gerði hann ekkert sjálfur í þessu máli, en lagði það fyrir mentmn. Nd. ásamt svari landsbókavarðar. Virðist hún ekkert hafa gert í þessu máli, eða a. m. k. verður það ekki sjeð af þingtíðindunum.

Hefir alt málið verið í reiðileysi nú í mörg ár, þar til í vetur, að þáv. forsrh. (SE) sendi háskólaráðinu ítrekaða beiðni um að skipa 3 menn í eftirlitsnefnd. Neitaði háskólaráðið að verða við þessu. Það kemur ekki málinu við, hvort háskólaráðið gerði það rjettilega eða ranglega. En meðal þeirra manna, sem skrifuðu undir neitun háskólaráðsins í vetur, eru, að jeg hygg, próf. Guðm. Magnússon, próf. Guðm. Hannesson og próf. Ólafur Lárusson. Lítur helst út fyrir, að samtök sjeu meðal háskólakennaranna um að koma hvergi nærri stjórn landsbókasafnsins á meðan svo stendur sem nú er. Nafn háskólans og hinar virðulegu stöður þessara manna eru full trygging fyrir því, að ekki hefði skyldustarfi verið neitað, ef ekki hefði verið ástæða til.

Ef till. verður samþykt, vona jeg, að nefndinni gefist færi á að rannsaka alt þetta mál nánar, athuga svar landsbókavarðar og jafnvel hafa tal af háskólakennurunum. Einnig má vænta aðstoðar og upplýsinga frá hv. 1. landsk. (SE), sem einnig á sæti í mentmn.