30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

1. mál, fjárlög 1925

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get þess fyrst, að fyrir stuttu hafði hæstv. fjrh. kvatt sjer hljóðs, en nú hefir hann síðan látið strika sig út af ræðumannalistanum. Jeg get þess næst, að jeg hafði borið fram ákveðna fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort það væri tilgangur stjórnarinnar að láta þingið setjast á frv. um sendiherrann og veita fje utan fjárlaga til þessa óþarfa embættis. Jeg get þess loks, að ef jeg hefði ekki kvatt mjer hljóðs nú, þá hefði umræðu verið slitið. Er því deginum ljósara, að stjórnin hefir ætlað að láta hjá líða að svara fyrirspurninni og hæstv. fjrh. beinlínis stekkur frá því. Jeg get ekki dregið aðra ályktun af þessu en þá, að hann vilji komast hjá því að svara. En jeg endurtek þessa fyrirspurn mína hjer með og bæti við: Er hjer um kaupskap að ræða milli stjórnarinnar og hv. þm. Dala. (BJ)? Jeg gæti hugsað mjer, að um slík hrossakaup væri að ræða milli þessara tveggja stuðningsflokka stjórnarinnar, Íhaldsflokksins og flokks hv. þm. Dala., að jeg tel líklegt, að hv. þm. Dala. hafi leyft stjórninni að sitja áfram við völdin, en að stjórnin hafi lofað þm. Dala. að láta sendiherrann vera óhreyfðan í Kaupmannahöfn. (BJ: Jeg er ekki svo verslunarfróður, að jeg skilji, hvað hv. þm. Str. á við; líklega þarf til þess samvinnuskólaþekkingu). Aðrir munu skilja, þótt hv. þm. Dala. þykist ekki skilja.