30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JP):

Jeg skal gjarnan segja hv. þm. Str., hvers vegna jeg ljet strika mig út af ræðumannalistanum. Fyrirspurn hv. þm. Str. snerti sem sje alls ekki mig, heldur hæstv. forsrh., og því bar mjer ekki að svara þessu fremur en mjer sýndist. (TrÞ: Forsætisráðherra er hjer aldrei viðstaddur). Það er einmitt það; jeg hafði tekið trúanlegt það, sem hv. þm. Str. hafði sagt, um að hæstv. forsrh. væri þá ekki viðstaddur, og því ljet jeg rita nafn mitt á ræðumannalistann, en um leið og hv. þm. Str. var að enda ræðu sína, mætti jeg hæstv. forsrh. í dyrunum á herbergi stjórnarinnar hjer við hliðina á þingsalnum. Hafði því hæstv. forsrh. verið þar inni og heyrt á ræðu og fyrirspurn hv. þm. Str. Fann jeg því enga ástæðu til að fara að svara þessari fyrirspurn hv. þm. Str., er jeg varð þess var, að hæstv. forsrh. mundi hafa heyrt á ræðu þm. Str., og ljet því strika nafn mitt út, þar eð jeg taldi víst, að hæstv. forsrh. mundi svara þessu, er honum ynnist tími til. Annars álít jeg, að hv. þm. Str. hafi enga heimild til þess að bera fram spurningar til stjórnarinnar með það fyrir augum, að stjórnin svari þeim þegar í stað, um leið og spurningarnar eru bornar upp. Stjórnin getur haft alt öðru að sinna þá stundina, eða þarf máske að leita sjer einhverra upplýsinga áður. Jeg get t. d. vel hugsað mjer, að hæstv. forsrh, hafi nú alt öðru að sinna en að gegna hv. þm. Str. Enda mun svo vera; jeg sje, að hæstv. forsrh. er nú farinn hjeðan. En jeg skal gjarnan segja hv. þm. Str. það, sem jeg veit frekast. Jeg hefi t. d. enga hugmynd um það, hvort frv. hv. þm. Str. kemst klakklaust gegnum Ed. Jeg á ekki sæti í þeirri hv. deild, en hefi ærnum störfum að gegna hjer, til þess að jeg geti leyft mjer að eyða tíma í að grenslast eftir slíku, enda stendur það öðrum nær en mjer, t. d. hv. flm. frv. sjálfum, þm. Str. (TrÞ: Jeg veit um afstöðu míns flokks. — BJ: Á hv. þm. nokkurn flokk?). Jeg hefi yfir höfuð ekki grenslast neitt um þetta mál og veit ekkert um það, að það eigi að fara á bak við þingið í því að skipa mann í þessa stöðu, þó ekki sje fje veitt til þess í fjárlögum. Jeg þykist jafnvel mega fullyrða, að það sje alls ekki tilgangurinn að skipa mann í þessa stöðu, er Sveinn Björnsson verður leystur frá embætti, sem mun verða eftir liðlega einn mánuð, samkvæmt ósk Sv. B. sjálfs. Jeg hygg þvert á móti, að það sje fyrirhugað að rækja þessi mál á þann hátt, sem til er ætlast í fjárlögum fyrir næsta ár.