04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Forsætisráðherra (JM):

Hv. flm. till. þessarar (JJ) taldi það sambærilegt að ætla sjer árlega að reka alt að helming nemenda frá skólanum við það, sem áður var, þegar ár liðu á milli þess, að nokkur nemandi fjell við próf í skólanum, og það var að skoða sem undantekning, að þeir, er undir inntökupróf gengu, næðu ekki prófinu. Annað er líka við þetta að athuga, það, að búast mætti við, að eitt árið yrði fjöldi nemenda rekinn frá, sem síst stæðu þeim að baki, sem inntöku hefðu fengið næsta ár áður. Gæti hið mesta ranglæti hlotist af þessu. Áður var það aftur á móti nokkurnveginn víst, að sá, sem kom sæmilega undirbúinn, fjekk inntöku í skólann.

Þá sagði sami hv. þm. (JJ), að mjer væri hin ólögmæltu kennaraembætti við mentaskólann mjög viðkvæmt mál. Veit jeg ekki, á hverju hann byggir það. Jeg hefi engin önnur afskifti haft af þeim önnur en þau, að semja við kennarann um kaupið, eftir að hv. þing hafði samþykt fjárveitingu til hans.

Hvað það snertir, að mönnum þyki óvirðing að því að vinna líkamlega vinnu þá nær það auðvitað ekki neinni átt, hvað oss Íslendingum viðvíkur. Til þess að ganga úr skugga um það þurfa menn ekki annað en að sjá, að hjer er það alsiða, að embættismennirnir kaupi fisk á götunni og beri hann heim.

Fleiru en þessu þarf jeg ekki að svara hv. 5. landsk. (JJ) að sinni.