04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Jón Sigurðsson:

Það er margt búið að tala um þetta mál, og þó ennþá fleira, sem ekkert kemur till. við. Skal jeg lofa því að lengja ekki þær umræður mikið, enda munu nú flestir orðnir þreyttir á þeim.

Þeim, sem setið hafa á undanförnum þingum, er það kunnugt, að miklar tilraunir hafa verið gerðar til þess að takmarka aðsóknina að mentaskólanum, og að þeir, sem hafa viljað koma á auknu latínunámi í skóla, hafa jafnan rökstutt þá till. sína með því, að það væri besta ráðið til að stöðva þetta hóflausa aðstreymi að skólanum. Á móti þessu hafa flokksmenn hv. flm. (JJ) beitt sjer af öllu afli. Nú hefir hv. 5. landsk. (JJ) valið aðra leið að sama marki. Er auðvitað ekkert nema gott um það að segja, að vilja finna einhver ráð til að draga úr hinni alt of miklu stúdentaframleiðslu. En jeg get ekki greitt þessari till. atkvæði mitt. Liggja til þess sömu rök og færð hafa verið fram gegn þessari tillögu af þeim, sem talað hafa á undan mjer, og því óþarft að endurtaka þau. En þareð það er sannfæring mín, að nú þegar verði að gera eitthvað verulegt í þessu efni, þá vil jeg leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá, sem — með leyfi hæstv. forseta — er á þessa leið:

Í því trausti, að stjórnin taki reglugerð mentaskólans til gagngerðrar endurskoðunar, með það fyrir augum að takmarka aðstreymi nemenda að skólanum og kostnað ríkissjóðs af skólahaldinu, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.