30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg ætla mjer ekki að lengja umræðurnar að þessu sinni. Að vísu hefði jeg haft gaman af að verja nokkrum tíma til þess að svara hv. þm. Dala. Hann fór allgeyst og var oft harðorður mjög; en jeg ætla ekki að fara til þess, en mun halda fram fornri venju og læt jeg vígin mætast, og legg því hvorttveggja að jöfnu; ætla jeg ekkert að metast um þetta við hv. þm. og mun ekki reyna að gera upp okkar í milli í þessum efnum. Hv. þm. Dala. hjelt því fram viðvíkjandi ummælum mínum um eina brtt., sem hann bar fyrir brjósti, að jeg hefði misskilið hann, en jeg held það hafi ekki verið svo. En jeg viðurkenni, að jeg hefði ekki átt að skýra frá orðum, sem hann hafði við mig mælt eitt sinn og ekki komu þessu beint við. Það er rjett, jeg hefði ekki átt að nefna þetta, en hv. þm. Dala. misvirti þetta ekki við mig, og kom þetta sjer því ekki eins illa og annars hefði mátt verða; enda erum við ekki vanir að gera mikið úr því, þótt stundum hrjóti eitthvert harðyrði okkar á milli í þingdeilum.

En hvað lánsheimildina til þessa sjúka manns í Dalasýslu snertir, þá er það rjett, að það var ekki tekið fram neitt um tveggja ára afborgunarfrest. (BJ: Og ekki heldur um 6% vöxtu). Það er nú víðar hægt að fá lán með þeim kjörum. (BJ: Hvar? Jeg vildi gjarnan fá að vita það!). Jú, t. d. hjá sparisjóð. Jeg veit, að það hefir tíðkast hjá Sparisjóð Húnavatnssýslna. (BJ: Vill hv. þm. veita mjer lán þaðan með þeim kjörum, ef jeg sæki um það?). Jeg hefi engin umráð yfir Sparisjóði Húnavatnssýslna, en jeg teldi það þó ekki ólíklegt, að þetta yrði látið falt gegn góðri tryggingu. (BJ: Jú, það svíkur engan þessi hjálpin). En jeg tók og aðrar ástæður fram gagnvart þessu. Fjvn. hefir áður sýnt fram á, að hjer er stofnað til talsverðrar óvissu. Það er mikil spurning um það, hvort ekki ætti að krefjast skýlauss læknisvottorðs um það, hvort ekki mundi geta átt sjer stað, að lækningatilraunirnar yrðu árangurslausar við þennan mann. (BJ: Læknirinn getur auðvitað ekkert fullyrt um þetta). En er þá fullreynt, að ekki megi lækna þennan mann hjer á landi? (BJ: Læknirinn hefir tjáð mjer, að líklegt hefði verið, að maðurinn fengi nokkra bót hjer, ef „diathermi“-áhaldið hefði verið keypt hingað til landsins). Hv. þm. talaði og um brigðmælgi þingsins við ýmsa menn, og þýðir ekki að vera að karpa um það, en að því er snertir safn dr. Jóns Aðils, er það engin sönnun fyrir þessu; þar var samið um jafnar afborganir, og er það alt annað en ýmsar fjárveitingar í fjárlögunum, sem enginn veit um, hve lengi eiga að standa þar.

Þá drap hv. þm. á einn stóran lið, sem jeg get ekki gengið fram hjá að nefna. Það er satt, fjvn. varð þar ekki sammála, og jeg viðurkenni, að hv. þm. Dala. hefði getað orðið þar fjvn. góður liðsmaður, ef lagt hefði verið til um það, að spara þennan stóra lið, og hefði þá orðið minna um ýmislegt það, sem hv. þm. kallar krukk, er nefndin hefir gert. Það er barnafræðslan, sem jeg á við. Eins og jeg hefi sagt, varð nefndin ekki sammála um það atriði, og töldu þeir í nefndinni, sem gjarnan hefðu viljað draga úr þessum gífurlega fræðslukostnaði, vonlaust um, að því yrði komið við eða fengist samþykt af þinginu. En þar munum við hv. þm. Dala. og jeg hafa verið sammála.

Háttv. þm. átaldi það, sem jeg hafði látið mjer um munn fara viðvíkjandi vísindaritgerðum háskólakennaranna, t. d. að þær væru úr hófi langar. Mjer hafði skilist, að þeir fengju ritlaun sín greidd úr sáttmálasjóði, en nú hefir hæstv. fjrh. (JÞ) upplýst, að þau hafa verið greidd úr ríkissjóði. (Fjrh. JÞ: Jeg átti við Árbók háskólans). Annað var þá er þessi sjóður var stofnaður. Jeg minnist vel þeirra mörgu faguryrða, bæði háttv. þm. Dala. og annara, um, hversu mikið sáttmálasjóðurinn mundi geta sparað útgjöld úr ríkissjóði til styrktar stúdentum, og það er vitanlegt, að það mætti spara ríkissjóði ýmisleg útgjöld þar að lútandi með þessu fje. Tekjur sjóðsins eru engin smáupphæð; líklega nú um 60 þús. kr. árlega. Þá talaði hv. þm. um það, að hann hefði varað hina ungu námsmenn við að leggja upp á lærdómsbrautina. Jeg ætla alls ekki að efa það, en árangurinn hefir þá orðið sáralítill. (BJ: Veit hv. þm., hversu margir hafa hætt við fortölur mínar?). Nei, en hafi hv. þm. nefnt þetta við alla þá, sem hann hefir haft undir höndum sem kennari, er áreiðanlegt, að þeir eru margir, sem ekki hafa tekið mark á orðum hans. Hann segist og vera kunnur að því að rífast um þetta í hóp stúdenta, og eins um hitt, að hann hafi haldið bændastjettinni fram. Getur vel verið; en það sýnir aðeins, að það hafa verið fáir, sem hafa viljað taka orð hans til greina.

Þá mintist hv. þm. Dala. á hjúkrunarnemastyrkinn og bjóst við, að nefndin hefði misskilið þá till. Það má vel vera, því að nefndin gerði ráð fyrir, að það væri utanfararstyrkur. Það má því vera, að styrkur þessi eigi að vera handa hjúkrunarkonum, sem starfa innanlands. Hvernig nefndin lítur á þetta nú, get jeg ekki sagt, því að hún hefir ekki rætt málið á þessum grundvelli.

Þá mintist hv. 2. þm. Eyf. (BSt) á, út af ábyrgð ríkissjóðs fyrir Siglufjarðarkaupstað, að misskilningur hefði verið um eignir kaupstaðarins, því að þær væru 368 þús., en ekki 130 þús. Jeg tek þetta vitanlega trúanlegt, en jeg vil benda hv. þm. á, að það er annað, sem vantar í tillöguna, en það er, að hún ber ekki með sjer, að trygging sú, sem ríkissjóður þarf að fá fyrir ábyrgðinni, sje nægjanleg.

Þá var hv. þm. Mýra. (PÞ) gramur yfir því, að jeg hefði snúið út úr fyrir sjer. Þetta er ekki rjett hjá háttv. þm. Jeg sneri ekkert út úr fyrir honum. Þá gat hann líka þess, að það hefði verið fríður flokkur í hv. Ed., sem samþykt hefði tillögu þessa, og taldi upp forseta deildarinnar, forseta Sþ., núverandi forsrh. og fyrverandi forsrh. Það er satt, að þetta er fríður flokkur; jeg neita því ekki. En hv. þm. gat ekki sannað, að þetta væri ekki varhugavert fordæmi, en fyrir það eitt er nefndin á móti tillögunni, því að hún telur, að í sjálfu sjer sje það mikið mannúðarverk að styrkja slíkt fólk. Það er því hreinasti misskilningur að leggja þann skilning í ummæli mín, að jeg hefði verið að snúa út úr fyrir honum. Jeg taldi slíka fjárveitingu hættulegt fordæmi, sem sýndi sig líka fljótlega, er hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) kom strax með önnur hjón, er eins stæði á fyrir. Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) mintist á skipulagsuppdrættina. Sagði hann, að meðal annars væri búið að gera uppdrátt af Bolungarvík, og skildist mjer helst, að sá uppdráttur, sem nefndinni var sýndur, væri einn af fleirum, sem búið væri að gera, og helst nokkurskonar sýnishorn eða varauppdráttur. Býst jeg við, að seint verði bygt eftir þessum uppdrætti, og hefði því án efa vel mátt dragast að gera hann. Það er satt, að vegamálastjóri hefir þetta mjög á oddinum og sækir það fast. En jeg lít svo á, að ekki sje skaði skeður, þó að það dragist nú fyrst um sinn að gera þessa skipulagsuppdrætti. Enda held jeg, að nægir starfskraftar sjeu til þess, þótt ekki sje farið að veita fje sjerstaklega í þessu skyni.