22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Forsætisráðherra (SE):

Það mun ekki líða á löngu áður en stjórnin sendir þinginu öll skjöl, er snerta kjöttollsmálið, og er þá fyrst tímabært fyrir Framsóknarflokkinn og aðra að fella dóm um aðgerðir stjórnarinnar í því máli. Jeg legg þau skjöl með góðri samvisku fyrir þingið og þá stjett, bændurna, sem hv. flm. (TrÞ) talaði fyrir. Jeg veit ekki til þess, að jeg hafi látið nokkurs ófreistað til að koma málinu í rjett horf.

Þá skal jeg víkja nokkuð að ákæruatriði hv. flm. (TrÞ). Hann skýrði frá skeyti því, sem sendiherrann í Kaupmannahöfn sendi í desember. Jeg skal nú láta þess getið, að skeytið var þess eðlis, að það mátti alls ekki birtast í opinberu blaði, og mun það stafa af misskilningi, að svo var gert. Þar var einungis látið uppi, hvað sendiherrann og aðrir höfðu hlerað um þetta mál.

Það er rjett, að þá er jeg var í Kaupmannahöfn í desembermánuði, horfði málið svo við, að þess var vænst, að því yrði fljótlega ráðið til góðra lykta. En nokkru eftir að jeg kom heim um miðjan þann mánuð, kom fregn um, að dráttur myndi verða á því.

Í janúarmánuði kom stjórn Framsóknarflokksins til stjórnarinnar í þeim erindum að fá hana til þess að senda nefnd manna til Noregs til kjöttollssamninga. Áður en þesari málaleitum var svarað, sendi stjórnin skeyti sendiherra sínum í Kaupmannahöfn og bað hann að reyna nú að komast að nýju eftir því, hvernig málið stæði hjá norsku stjórninni, og óskaði stjórnin einnig að heyra tillögur hans um málið. Sendi hann þá stjórninni skeyti og óskaði, að ekkert yrði gert í málinu fyr en hann hefði færi á að senda stjórninni skriflegar tillögur sínar. Fjelst stjórnin á, að rjett væri að bíða eftir þessum tillögum, og var svo gert. Nokkru eftir að tillögur sendiherrans voru komnar, kom svo nefndin á ný á fund stjórnarinnar og lagði fast að stjórninni að senda nefnd til samninganna. Kom okkur ráðherrunum þá saman um, að rjett væri að leita álits sendiherra vors, sem þá var í London, um nefndarsendinguna, og trúnaðarmanni vorum í utanríkisráðuneytinu, Jóni Krabbe. Virtust þeir báðir fremur vera á móti sendingunni. Og þar sem svo var, og aðeins voru fáir dagar til þings, þá ákvað stjórnin að bíða þingsins og gera engar ráðstafanir til nefndarsendingar fyr en það væri komið saman.

Nú sem stendur er íslenski sendiherrann í Kaupmannahöfn, Sveinn Björnsson, í Kristjaníu, og er fult útlit til þess, að stórþingið muni veita stjórninni norsku fult umboð til að semja um málið. Jeg er þess fullviss, þegar öll gögn koma á borðið, að ekki verður hægt að lá stjórninni neitt í þessu máli. Sendiherra vor og umboðsmaður Dana í Kristjaníu hafa gert alt, sem hægt var að gera í málinu. Og með rjettu er ekki hægt að víta það, þó stjórnin, fáum dögum fyrir þing, sendi ekki nefnd til samninga. Sendiförin er að sjálfsögðu þingsins mál.