22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jón Þorláksson:

Jeg vil byrja á því, að með tilliti til þingstarfanna væri æskilegt, að sem fæstar aukanefndir væru kosnar. Það hefir oft komið greinilega í ljós, að starf aukanefndanna rekur sig mjög óþægilega á störf fastanefndanna, svo að ekki hefir verið unt að ætla þeim eins langan tíma og nauðsyn hefði krafið. Nú eru líka komin fram frv., sem fara fram á breytingar á stjórnarskránni, svo þess má vænta, að skipuð verði stjórnarskrárnefnd. Hefir stjórnarskránni jafnan verið sú virðing sýnd, og verður þá víst ekki heldur út af því brugðið nú. Það er því mín skoðun, að sjerstaka viðskiftanefnd beri helst ekki að kjósa, nema nauðsyn beri til þess, sökum þess, að mál komi fyrir, sem eru þess eðlis, að þau falla ekki undir neina aðra nefnd. Og hvað niðurfærslu kjöttollsins snertir, þá fellur það mál algerlega undir landbúnaðarnefnd. Sú nefnd fjallaði um það mál á síðasta þingi og kom með tillögur um það, sem jeg hygg að hæstv. stjórn hafi vel og röggsamlega framfylgt. Annars hygg jeg, að þessu kjöttollsmáli verði svo best stýrt, að sem minstur hávaði verði gerður um það, og get jeg ekki betur sjeð en að hæstv. stjórn hafi tekið rjetta stefnu í því. Hún hefir, eins og jeg gat um áður, hagað sjer samkvæmt tillögum landbúnaðarnefndar, en hún óskaði þess, að sendiherra vorum í Kaupmannahöfn yrði falið málið. Málið sýnist líka vera á vænlegri braut, þar sem stórþingið norska er að útbúa umboð til handa stjórninni til að semja um tollinn. Geta allir sjeð það, hversu mikill munur er á því að semja við stjórn vingjarnlegrar þjóðar eða eiga undir högg að sækja við löggjafarsamkomuna sjálfa. Það væri því allra hluta vegna óskynsamlegt nú, þegar málið er komið á rjetta braut, að fara að grípa til lítt hugsaðra ráða, eins og það yrði að teljast að fara nú í dag að senda nefnd manna til Noregs, einum tveim tímum eftir að málið er til umræðu í þinginu. Enda verður ekki annað sagt en að landbúnaðarnefnd sje bæði fullfær og rjettbær til þess að vera ráðunautur stjórnarinnar í þessu máli. Og fari svo — sem jeg ekki vona — að inn í þetta mál blandist önnur mál ósamkynja, þá er ekki nema rjett að bíða með að skipa nefndina, þangað til tilefni gefst til þess. Ef það kæmi t. d. til athugunar í sambandi við það, nauðsyn á að útbúa kælirúm í skipi til að flytja út kjöt í, þá kæmi það líka til kasta fjárhagsnefndar. Það er því ástæða til að ætla, að kjöttollsmálið hafi ekki gefið neitt tilefni til, að kosin verði sjerstök viðskiftamálanefnd.

Þær aðrar ástæður, sem hv. flm. (TrÞ) kom með í ræðu sinni, eru allar þess eðlis, að þær rjettlæta á engan veg kosningu nefndarinnar, því þau mál önnur, sem hún ætti að fjalla um, eru öll svo samtvinnuð þeim efnum, sem hljóta að heyra undir hinar ýmsu fastanefndir. Viðskiftabönn eða viðskiftahömlur eru t. d. svo nátengdar tollhækkun, að óhjákvæmilegt er að athuga þær hliðar báðar í sömu nefndinni, því þessar tvær leiðir má fara til að draga úr innflutningi, að hækka tollinn á óþarfavarningnum eða banna hann. Þannig verður þetta öðrum þræði fjárhagsmál, sem fjhn. væri sjálfkjörin til að fara með. Sama má segja um verslunarrekstur ríkisins. Það hefir sýnt sig, að það mál er svo samtvinnað fjárhag ríkissjóðs, að ekki er annað hugsanlegt, en að þær nefndir, sem gera till. um fjárhaginn, geri einnig till. um verslunarreksturinn, því af þrem greinum verslunarrekstursins er nú tveim haldið uppi nær eingöngu með tilliti til þess að afla ríkissjóði tekna með þeim.

Mjer þótti leitt að heyra, að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki hafa kosið í nefndir með hliðsjón af því, að mál eins og þessi yrðu borin undir þær. En jeg veit nú satt að segja ekki, hverra manna annara flokkurinn á völ, því jeg veit ekki betur en allir þm. hans sjeu þegar kosnir í einhverja fastanefnd. En þó er ein leið fær til að bæta úr þessu ennþá, sem sje sú, að auka mönnum í þær nefndir, sem sjerstaklega væri þörf á sökum þessara mála. Jeg fyrir mitt leyti myndi ekki hafa neitt á móti því, að samkomulag yrði um það, og treysti því, að hægt væri að koma því svo fyrir, að það ræki sig ekki á störf annara nefnda, sem þeir ættu sæti í, sem bætt yrði í nefndina.

Að lokum skal jeg svo taka það fram, að það er einungis af hagkvæmnisástæðum, að jeg er því mótfallinn, að farið sje að skipa sjerstaka viðskiftanefnd. Og jeg vona, að þegar jeg hefi komið með þessa till. um viðauka í nefndirnar, þá skoði Framsóknarflokkurinn það ekki sem nokkurn illvilja frá minni hlið, að jeg hefi valið aðrar leiðir í þessu máli.

Vil jeg svo ljúka máli mínu með því að koma fram með svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Með því að deildin telur heppilegast, að fjárhagsnefndin hafi viðskiftamálin til meðferðar, og sje aukið við nefndina tveim mönnum í því skyni, ef þörf þykir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Þá skal jeg geta þess, að þar sem viðskiftamálin heyra undir aðrar nefndir, þá er auðvitað ekki ætlast til að draga þau undan þeim nefndum.