22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg álít þýðingarlaust að hafa langar umræður um þetta mál nú, enda erfitt um það að fjalla, þar sem svo lítið er hægt að segja af því, sem í raun og veru þyrfti að taka fram. Hæstv. forsrh. (SE) varði aðgerðaleysi sitt í þessu máli á þeim grundvelli, að um svo fárra daga bið hefði verið að ræða uns þingið sjálft gat tekið ákvörðun í málinu. Jeg hefi nú rannsakað skipaferðirnar og hefi komist að raun um það, að ef ferðin, sem fellur í dag, verður ekki notuð, þá komast nefndarmenn ekki fyrr en 8. mars. Á þetta benti jeg hæstv. stjórn í morgun, og jeg er ennþá á þeirri skoðun, að mikið geti verið í húfi, ef för sendimanna er frestað lengur.

Hæstv. forsrh. (SE) kvartaði yfir því, að við vildum ganga fram hjá sendiherra vorum í Kaupmannahöfn.

En það er ekki rjett. Við töldum það alveg sjálfsagt, að hann aðstoðaði þá menn, sem sendir yrðu, og færi með þeim, en við töldum heppilegt, að með honum yrðu valdir þeir menn, sem sjerþekkingu hefðu á tveim aðalatvinnuvegum vorum. Og þar sem því verður trauðla neitað, að Norðmenn hafi leikið oss grátt í þessu máli, þá fanst oss það eðlilegt, að vjer sýndum þeim fram á, hvað vjer gætum gert á móti. En hvað því viðvíkur, að hæstv. stjórn hafi ekki sjeð sjer fært að senda menn út í þessum erindagerðum rjett fyrir þingið, þá má minna á það, að 1922, skömmu fyrir þing, sendi stjórnin mann til Kaupmannahafnar, til þess að vera viðbúinn að fara sendiför til Spánar, til samninga viðvíkjandi Spánartollinum. Það var maður, sem þjóðin treysti, og þessari ráðstöfun stjórnarinnar var vel tekið. Líkt stendur á nú. Og jeg verð að segja, að þegar sú stofnun, sem þetta kjöttollsmál kemur svo þunglega niður á, óskar þess, að stjórnin sendi menn út til að greiða úr málum þessum, þá verða að vera miklar ástæður, sem mæla á móti því, ef henni er synjað.

Jeg skal í þessu sambandi víkja að orðum hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), þeim, að þessum málum væri svo best komið, að þeim væri stýrt með sem minstum hávaða. En jeg vil spyrja: Hversu lengi á að níðast á þolinmæði vorri? Það eru um tvö ár síðan kjöttollurinn var settur á, í full tvö ár höfum vjer beðið, í tvö ár höfum vjer stýrt málum þessum „með sem minstum hávaða“, svo jeg noti orð hv. þm. sjálfs. (JÞ: Stundum hefir Tíminn þó að minsta kosti verið hávær út af þessu máli). Fyrir þeim ummælum stend jeg sjálfur og ber einn ábyrgð á þeim hávaða. Og kanske hefir mjer verið meiri alvara með þessi mál en hæstv. forsrh. (SE). Fyrir það ber jeg engan kinnroða. Og sje því nú borið við, að undirbúningur undir förina hefði verið lítill, ef sendimennirnir hefðu farið í dag, þá tel jeg víst, að fá hefði mátt skipið til að bíða.

Hinn liðurinn er vitanlega smávægilegri, þ. e., hvort það á að fást, að nefnd verði skipuð, og hvernig. Jeg geri ráð fyrir, að hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) hafi talað af fleiri manna hálfu en sinni eigin, og að þessi till. hans til rökstuddrar dagskrár sje ekki hans eins verk. Allar mótástæður hans geta fallið fyrir því einu, að sá flokkur, sem hann tilheyrir, hefir skipað sínum mönnum í þær föstu nefndir, er kosnar hafa verið, svo sem fjhn.. Framsóknarflokkurinn kaus aftur á móti þannig til þeirra nefnda, að hann gerði ráð fyrir, að skipuð yrði sjerstök viðskiftanefnd.