22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Forsætisráðherra (SE):

það getur vel verið, að hv. þm. Str. (TrÞ) takist að búa til árásarefni á mig úr þessu máli; en jeg hygg, að jafnvel hans eigin flokksmenn kunni að komast að annari niðurstöðu en hann, er þeir fá skjöl þau í hendur, sem jeg nefndi áðan. Sendiherra okkar, sem staddur var í Kristjaníu, símaði nýlega, að það þýddi ekki neitt að vera þar lengur, og að hann færi nú aftur til Kaupmannahafnar og biði eftir því, að stjórnin í Kristjaníu fengi umboð hjá þinginu þar til þess að semja um þetta mál, þá mundi hann fara aftur til Kristjaníu til þess að vera við samningana. (TrÞ: Hefir ekki forsætisráðherrann sagt, að það umboð væri fengið?). Jeg hefi sagt, að það fengist. Ef hið háa Alþingi vill senda þessa menn, er það á þess valdi að gera það. Jeg hefi ekki rannsakað neitt um skipaferðir hjeðan á næstunni, en jeg hygg, að það mætti takast að útvega mönnum far með togurum hjeðan til Englands, og svo mundi þeim kleift að komast þaðan til Noregs. Gætu þeir þá verið komnir til Kristjaníu upp úr miðjum marsmánuði, og gæti þetta haft sína þýðingu síðar, ef það yrði úr að senda menn hjeðan. En önnur spurning er það, hvort málefninu verður nokkuð betur borgið með því að senda þessa menn, heldur en að láta sendiherra vorn fást við málið, eins og hann hefir gert hingað til. Jeg er að minsta kosti í miklum vafa um það. Mjer er kunnugt um að minsta kosti annan þeirra manna, er hv. þm. Str. (TrÞ) ætlast til, að verði sendur í þessa för, og efast jeg mjög um, að honum muni takast að hafa nokkur bætandi áhrif á norsku stjórnina. Ef Alþingi vill senda þessa menn, getur það gert það. Þeir munu komast nógu snemma til Kristjaníu. En það er best að taka ekki ákvörðun um það fyr en Alþingi hefir fengið skjölin til athugunar, og getur það þá betur dæmt um það, hvort nokkuð muni vinnast við að senda þá. það mun auðvelt að sýna það skjallega, að stjórnin hefir ekkert vanrækt í þessu máli, þvert á móti hefir hún fylgt því fram með mikilli festu; þannig mun dómur óhlutdrægra falla í þessu máli, hvernig sem hv. þm. Str. annars kann að líta á það.