22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3144)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Bjarni Jónsson:

Það var nokkuð stórt af stað farið hjá hv. þm. Str. (TrÞ) og mörgu blandað þar inn í. Ætla jeg að drepa á sumt af því. Jeg tala fyrir sjálfan mig, en ekki af neins flokks hálfu, er jeg segi, að jeg get vel fallist á skoðun hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) um þessa nefndarskipun. Jeg sje ekki annað en að það sje beint verk fjárhagsnefndar þingsins að gera tillögur um og ráða fram úr fjárhagsmálum landsins. Jeg skil ekki í þeim flokki, sem kýs menn í fjárhagsnefnd án tillits til hagsmuna landsins. Ekki skil jeg það heldur, hvað hv. þm. þeirra Strandamanna vildi með því að vera að blanda kjöttollsmálinu inn í þessa nefndarskipun. Tollsamningar og þannig löguð viðskiftamál þurfa ekki við, að skipuð sje í þau sjerstök þingnefnd. þessháttar mál eiga, eins og hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði, að ganga hávaða- og hljóðalaust samningaleiðina milli viðkomandi stjórna eða stjórnafulltrúa. það er undarlegt, að heyra þennan ritstjóra — jeg minnist þess nú, að hv. þm. er líka ritstjóri — fara fram á að senda marga svokallaða tildurherra víðsvegar út í heiminn. Móti öllu þessháttar hefir hann skrifað hvern dálkinn á fætur öðrum í „Ótímann“ sinn. Nú vill hann einmitt láta senda út marga, líklega eina þrjá, tildurherra, og tildra þeim upp á kjöttollsmálið. Ætli nú þessir þrír nýju — sem auðvitað verða valdir af flokksfylgi með hlutfallskosningu — tildurherrar verði færari að semja eða vanari í öllu að umgangast erlendar stjórnir og stjórnmálamenn en núverandi sendiherra vor, sem er orðinn þaulvanur slíkum störfum. Á þetta að vera stefnan, að senda í hvert sinn óvalda menn, sem aðeins koma að þessum störfum eins og þegar kría sest á stein? Jeg er talsvert kunnugur í Noregi, og jeg veit, að þar hefir Norðmönnum verið boðið fyrirfram sem andvirði kjöttollsins það, sem vjer viljum ekki að látið verði af hendi. Svona fer, er þeir menn semja, er ekki kunna að þegja. Þessvegna er kjöttollsmálinu komið eins og komið er, af því það er búið að bjóða Norðmönnum í heimangetu svo eða svo mikinn afslátt af fiskveiðalöggjöf vorri í stað kjöttollsins. þetta hefi jeg sannfrjett frá Norðmönnum sjálfum. Hversvegna á að setja sjerstaka nefnd í þetta mál? Þarf sjerstaka búfræðinga eða fiskifræðinga til að greiða úr þessu? Er sendiherra vor ekki nógu kunnugur búnaðarháttum vorum eða útvegsmálum, að hann sje ekki fær um að hafa einn þessa samninga á hendi? Jeg segi jú! það var talað um, að stjórnin hefði gert rangt í því að senda ekki þessa nýju tildurherra þegar fyrir þetta þing; nú kveður eitthvað við annan tón en stundum áður. Þá hefir, og það ekki órjettilega, verið nefnt, að stjórnin þyrfti við heimildar þingsins um það, til hvers fje landsins skyldi notað. Mjer finst þetta vera hárrjett, og jeg get því ekki legið stjórninni á hálsi fyrir það, að hún ljet ekki undan kröfunum um þessa tildurherra. Jeg sje ekki, að hafi verið þörf að senda þá. Annað mál var, að þegar Spánarsamningarair voru á döfinni, komu fleiri mál til en atvinnuvegirnir einir. Þá var bindindishreyfingin hjer, sem vildi koma trúnaðarmanni sínum þar að, til þess að sjá stefnu sinni sem best borgið og ganga úr skugga um, að ekki væri verið með neina brennivínshrekki, og var það sjálfsagt, að þeim væri veitt þetta, enda gerði stjórnin það. Hjer var og að semja við ókunna stjórn, sem lítið eða ekkert þekti til vor, og auk þess voru samningarnir í upphafi faldir á hendur útlendum (dönskum) sendiherra, sem ekkert þekti til Íslands, og varð því að fá sjer til aðstoðar íslenska menn hjeðan.

Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði af miklum fjálgleik um, að íslenskir bændur hefðu beðið í tvö ár eftir lagfæringunni á kjöttollinum. Hefir hann, mjer er spurn, athugað, hvernig á stóð, þegar kjöttollurinn komst á? Það var alls ekki í hefndarskyni, að hann var lagður á, eins og Tíminn hefir sagt. Það hafa sagt mjer menn í Noregi, að þeim datt alls ekki Ísland í hug í því sambandi, og ef þeir hefðu vitað eitthvað um vilja vorn í þessu efni, hefði verið auðvelt að fá ákvæðum laganna breytt þegar í upphafi. Þetta var alls ekki stjórnarfrv., er það kom inn á þing þar, og enginn var þar, sem vissi, að þetta kæmi í bága við hagsmuni Íslands. En því rjeði sparnaðar-ósparnaðurinn um, að þar var enginn umboðsmaður af okkar hendi, er gæti á þetta bent, en danskir umboðsmenn ekki svo kunnugir, að not yrðu að þeim. Nú er tollurinn löngu kominn á, og er þá alt örðugra viðfangs, og ekki síst, þegar búið er að bjóða svo gott verð fyrir hann. Það getur stundum verið gott að hafa hátt, en þó er oft betra fyrir suma að hafa lágt um sig, ella getur athyglin leiðst um of að þeim.