22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Tilviljunin ræður oft miklu í þessum heimi. Það var tilviljun ein, að kjöttollsmálið drógst inn í þessar umr. í dag. það var og tilviljun, að rætt var um, að hægt væri að senda þessa menn í dag. Jeg tek undir með hæstv. forsrh. (SE) í því, að jeg óska leynifundar um þetta mál.

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) spurði, hvort mjer hefði orðið mismæli. (JÞ: Jeg gekk út frá því sem sjálfsögðu, að svo hefði verið). Það er langt síðan þetta kom fram af hálfu Norðmanna. Það er um 1½ ár síðan ákveðin tilmæli komu fram hjá þeim um þetta, svo að það getur ekki verið neitt leyndarmál, hvað þeir ætla sjer í þessu efni. (BL: Já, þegar búið var að benda þeim á þetta, og það af mörgum hjeðan af landi). Jeg endurtek það, að það eru Norðmenn, sem hafa hafið máls á þessu, enda er það alviðurkent, að þegar tveir aðilar semja, þá gerist það ekki með þeim hætti, að annar láti alt í tje, en hinn ekkert.

Þá sný jeg mjer að því, sem hv. þm. Dala. (BJ) mælti til mín. Þingmaðurinn sagði, að jeg, sem ávalt hefði verið andvígur því að senda hjeðan út sendi- eða „tildurherra“, eins og hann hermir um mig, að jeg hafi nefnt þá, og getur vel verið, að jeg hafi einhverntíma talað um tildurherra — nú vilji jeg senda hjeðan eina 2–3 af því tæi. Ef nú hv. þm. Dala. (BJ) ekki les Tímann eins og „ein viss persóna“ les biblíuna, að sögn, veit hann vel, að jeg hefi ávalt gert greinarmun á venjulegum sendiherra, eins og þeim, sem erlend ríki senda hvert öðru, og þeim mönnum, sem sendir eru í sjerstökum tilfellum og í ákveðnum erindagerðum vegna atvinnuvega landsins, og getur þm. (BJ) aldrei með rjettu hermt það eftir mjer, að jeg telji þá menn óþarfa.

Þá vjek hv. þm. Dala. (BJ) að því, að fáir mundu kjósa menn í fjvn. án tillits til hagsmuna landsins; vitanlega kjósa menn þannig. En gæti það nú ekki einmitt hafa stafað af þeim orsökum, að hv. þm. Dala. (BJ) var ekki kosinn í fjvn. í þetta sinn? Jeg hygg, að þeir menn hafi nú ráðið mestu um kosningu til þessarar og annara fastra nefnda, sem annast er um hagsmuni ríkisins, og þessvegna hafi þm. Dala. ekki komist í neina nefnd, enda þótt hann gjarnan hefði viljað!