22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jón Baldvinsson:

Jeg sje ekki betur en að rjett sje að skipa þá nefnd, sem hjer er um að ræða. Má vel koma henni að án allra óþæginda, þar sem ekki er ennþá búið að raða niður vinnutíma fastanefnda. Væri alt öðru máli að gegna, ef henni væri varpað inn á miðju þingi. Þar sem menn úr öllum öðrum flokkum þingsins hafa lýst afstöðu sinni til þessarar nefndarskipunar, þykir mjer hlýða að gera það einnig fyrir hönd míns flokks.

Annars finst mjer ekki ástæða til að fara út í langar umr. í þessu máli, allra síst, ef svo mikið liggur á, sem hv. flm. (TrÞ) lætur í veðri vaka.

Jeg verð þó að segja, að heldur fanst mjer það hjákátlegt hjá hv. flm. (TrÞ), er hann er að mælast til þess, að tillagan verði samþykt, vegna þess góða samkomulags, sem ríkt hefði um ýmislegt hjá þingflokkunum. Á þetta hefði hann ekki átt að minnast. því að það „samkomulag“, sem hann hjer á við, var alið í synd.