07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

64. mál, skrifstofur landsins í Reykjavík

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg skal geta þess, viðvíkjandi spurningu þeirri, sem hv. flm. (JJ) hefir beint til mín, að jeg hefi snúið mjer til stjórnarinnar, til að vita, hvort það væri meiningin að flytja bæjarfógetaskrifstofuna í Landsbankahúsið. Ástæðan var sú, að leigutími skrifstofunnar í núverandi húsnæði hennar er útrunninn 14. maí þessa árs. Jeg fór því til stjórnarinnar og spurðist fyrir hjá dómsmálaráðherra um þetta, og benti honum jafnframt á, að jeg teldi ekki heppilegt að hafa skrifstofuna svona ofarlega í húsi, sem ekki væri nein lyftivjel í, og sagði, að bæjarbúar mundu kunna því illa að þurfa að prika upp á þriðja sal í jafnháu húsi og Landsbankahúsið er, í hvert skifti, sem þeir þyrftu að koma á bæjarfógetaskrifstofurnar, því að þangað eiga bæjarbúar mjög oft erindi, og sumir, eins og t. d. málaflutningsmenn, oft á dag. Jeg fjekk það svar hjá ráðherra, að ekki mundi verða heimtað, að jeg flytti mínar skrifstofur í Landsbankahúsið, enda væri þar ekki hæfilegt pláss fyrir þær. Jeg spurðist ennfremur fyrir um það, hvort stjórnin ætlaði að sjá skrifstofunni fyrir húsnæði, eða hvort jeg ætti að gera það, og fjekk það svar, að rjett væri, að jeg gerði það.

Jeg skal annars geta þess, að jeg tel það rjett vera, að brunahættan er mikilsvert atriði í þessu máli, en það mun líka verða gert alt, sem hægt er, til þess að draga úr henni og fyrirbyggja hana sem best í væntanlegum húsakynnum skrifstofunnar.