07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

64. mál, skrifstofur landsins í Reykjavík

Jón Magnússon:

Hv. flm. (JJ) var að tala um, að eldur hefði einhverntíma komið upp í bæjarfógetaskrifstofunni, en jeg veit ekki til þess; það var í það minsta ekki í minni tíð. Ef átt er við enn miklu eldri tíma, var lítið um steinhús í Reykjavík fyrir 30–40 árum, svo að ekki eru miklar líkur til, að skrifstofan hefði verið í steinhúsi þá. Annars eiga peningaskápar að geta staðist eldsvoða þótt í timburhúsum sje, ef vel er um búið. Einnig getur verið um eldshættu að ræða í steinhúsum, eins og hefir sýnt sig, því að t. d. brann Landsbankinn, þótt steinhús væri.

Flm. till. (JJ) sagði um lögreglustjóra, að hann hefði keypt hús sitt á 8–12 þús. kr., og ef svo væri, þá er það rjett, að 6000 kr. leiga mundi borga húsið upp á 2 árum. Jeg held, að húsið hafi verið keypt fyrir miklu meira, að minsta kosti kostaði hann einum 10000 kr. til þess að útbúa herbergi í húsinu fyrir skrifstofur, án endurgreiðslu úr ríkissjóði.