02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Síðan ein umr. um fjárlagafrv. fór fram í hv. Nd. hefir fjvn. átt fund með sjer og athugað þær breytingar, sem hv. Nd. hefir gert við frv., og hefir orðið ásátt um að koma ekki fram með neinar brtt. við það, heldur leggur nefndin til, að hv. deild samþykki það óbreytt. Nefndinni er ekki kunnugt um, að neinar brtt. komi frá einstökum þm., en ef svo væri, mundi nefndin leggja á móti þeim.

Jeg vil svo skýra hv. deild frá þeim breytingum, sem gerðar hafa verið við frv. í hv. Nd.

Tekjuafgangur á fjárlagafrv. var 170- 662,95 kr., þegar það fór frá þessari hv. deild, en nú er hann aðeins 14704,61 kr. eftir breytingar þær, sem hv. Nd. hefir gert við frv. Tekjuafgangurinn hefir því lækkað mikið, en það er alls ekki af því, að það hafi verið bætt við ónauðsynlegum liðum, heldur hafa ýmsir áætlunarliðir verið hækkaðir af rjettmætum ástæðum, þó að fjvn. þessarar hv. deildar sæi ekki ástæðu til að hækka þá eftir þeim upplýsingum, sem fyrir henni lágu.

Hv. Nd. hefir eftir tillögu hæstv. fjrh. hækkað upphæð þá, sem ætluð er til hækkunar á dýrtíðaruppbót embættismanna, upp í 168 þús. kr. úr 100 þús. kr., og hefir nefndin ekkert við þá breytingu að athuga.

Hv. Nd. hefir gert þá breytingu við 12. gr. 4. lið, að hún hefir hækkað laun aðstoðarlæknisins á Ísafirði úr 1500 kr. upp í 1800 kr. Fjvn. Ed. lætur sjer fátt um þessa breytingu finnast, en vill þó ekki fara að hleypa fjárlögunum í Sþ. vegna hennar, einkum þar eð um svo lítilfjörlega upphæð er að ræða.

Þá hefir hv. Nd. gert breytingu við 12. gr. 12. lið. Hún hefir hækkað styrkinn til berklalækninga upp í 300 þús. kr. Það hefir verið útbýtt hjer í deildinni skjali frá nefnd þeirri, sem hefir berklavarnalögin til athugunar, þar sem hún leggur til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar. Fjvn. Ed. vissi, að liður þessi mundi vera of lágur eins og hann var þegar hún hafði fjárlögin fyrst til meðferðar, en hún sá ekki ástæðu til þess að hækka hann, sökum þess, að þá voru líkur til þess, að frv. um breytingu á berklavarnalögunum yrði að lögum, og þá hefði þurft miklu minna fje í þessu skyni. En eins og nú standa sakir telur nefndin hækkun þessa rjettmæta. Jeg skal geta þess, að upphæð þessi var í stjórnarfrv. áætluð aðeins 100 þús. kr., og var það sökum þess, að gert var ráð fyrir breytingu á berklalöggjöfinni.

Þá hefir hv. Nd. felt niður úr 12. gr. styrk til hjúkrunarnema. Nefndin hafði ekki lagt til, að sá liður væri tekinn upp í fjárlögin, en það var þó samþykt; og nefndin telur það illa farið, að styrkur þessi skyldi feldur niður, því það er einmitt mjög nauðsynlegt að styrkja hjúkrunarnema hjer heima, því þeir hafa engin hlunnindi eins og þeir hjúkrunarnemar, sem læra utan lands, en hinsvegar mjög mikil nauðsyn, að einhverjar hjúkrunarkonur fái fræðslu, sem á við íslenska staðhætti. Einnig hefir hv. Nd. felt í burtu sjúkrastyrk til Elínar Sigurðardóttur, sem hafði verið samþyktur hjer í þessari deild.

Þá hefir hv. Nd. tekið upp í fjárlögin styrk til Skúla Guðjónssonar læknis, til heilbrigðisfræðináms erlendis, og telur nefndin það eðlilega afleiðingu af því, að Ed. samþykti viðbótarstyrk handa Guðmundi Guðfinnssyni lækni, til augnlækninganáms erlendis. Þetta er líka lokastyrkur, svo það er alls ekki ætlast til þess, að hann haldi áfram.

Þá hefir Nd. lækkað styrk til bifreiðaferða austur um sveitir um helming, úr 2000 kr. niður í 1000 kr., og getur nefndin ekki átalið það neitt sjerstaklega.

Hv. Nd. hefir gert breytingu við 14. gr. B. I. b., lækkað launin til hjeraðslæknisins í Reykjavík fyrir kenslu við háskólann úr 1500 kr. niður í 1000, og tel jeg það mjög illa farið. Hjeraðslæknirinn á því að kenna erfiðustu námsgreinina við læknadeild háskólans fyrir einar 1000 kr. Hann vinnur því fullkomið prófessorsstarf við háskólann, og þó eru embættislaun þessa manns og styrkur sá, sem hann fær til háskólakenslunnar samanlögð ekki eins hár og lægstu prófessorslaun við háskólann. Jeg tel þetta líka mjög ómaklegt, því þessi maður er mjög vel hæfur til síns starfs og starfið er vandasamt, en hann hefir altaf gegnt því með frábærri alúð. Og að klípa af þessum litla styrk er sama og að neyða hann til þess að hafa þeim mun meiri „praksis“. En auðvitað verður það á kostnað háskólans, sem mun bíða tjón af því. Þess vegna tel jeg mjög illa farið, að upphæðin var lækkuð. Við 14. gr. II. a. hefir hv. Nd. gert þá aths., að stúdentar þeir, sem hafa stundað nám í 1–3 ár, í staðinn fyrir 2–3 ár. skuli ganga fyrir. Álít jeg þessa breytingu til bóta. Þessi fjárlög koma í gildi árið 1925. Þeir, sem sigldu í fyrra, hafa ekki hugmynd um þá breytingu, sem nú á sjer stað. Þess vegna er ekki rjett að útiloka þá.

Þá hefir Nd. fært niður upphæðina til tímakenslu og prófdómenda úr 15 þús. kr. niður í 13 þús. Þetta er áætlunarupphæð, svo að það er mikið spursmál, hvort um nokkurn sparnað er að ræða. Auðvitað vill hv. Ed., að sparað verði það, sem hægt er á þessum liðum, en hinsvegar verður að greiða þessi gjöld, hvort sem þau standa í fjárlögum eða ekki.

Hv. Nd. hefir felt niður liðinn um styrkinn til útgáfu veraldarsögu handa mentaskólanum, sem var till. frá fjvn. þessarar hv. deildar. Verður hún að telja þetta illa farið. Verður það til þess, að kenslubók á íslensku í þessum fræðum kemur seinna út en ella, og verður þá að notast við kenslubækur á erlendum málum. Auk þess mun höfundunum hafa verið veittur talsverður ádráttur um styrk til þessa á árinu 1924.

Næsta breyting á frv. er við 14. gr. XVIII; feldur niður styrkurinn til frk. Ingibjargar Guðbrandsdóttur. Sú upphæð var sett inn hjer í hv. deild, en ekki eftir till. fjvn., svo að nefndin fer ekki að fjargviðrast út af því.

Þá er lækkuð borgunin til sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar og Þórbergs Þórðarsonar, hins fyrnefnda í 5 þús. kr., en hins síðarnefnda niður í 1000 kr. Hvað snertir sjera Jóhannes, er þetta sama upphæðin og hv. Ed. lagði til að skyldi vera; hefir hún því ekkert út á breytinguna að setja, og sættir sig eftir atvikum við styrk Þórbergs. Hinsvegar þykir nefndinni meira máli skifta, að styrkur Hannesar Þorsteinssonar til að semja æfisögur var færður niður úr 2 þús. kr. í 500 kr. í hv. Nd. Hv. Ed. vill engan þátt eiga í því að kasta skugga á starfsemi þessa manns, sem hún veit, að er hverjum manni iðnari og betur fallinn til að semja æfisögur lærðra manna; og þótt honum verði veitt þjóðskjalavarðarembættið, mun hann samt verja meiri tíma en sem svarar þessum 500 kr. til þeirra starfa. Nefndin vill láta það í ljós, að það er ómaklegt, að maðurinn fjekk ekki að halda þeim 1500 kr., sem hv. Ed. ætlaði honum. Þá er dr. Hjelgi Pjeturss. Styrkurinn til hans er færður niður. Er það nokkuð í samræmi við Jóh. L. L. Jóh. Styrkurinn var ekki hækkaður eftir till. fjvn. Ed., svo að hún sá ekki ástæðu til að koma með brtt. Hún setur sig ekkert á móti því að gefa frjálst, hvernig styrknum sje varið. Till. í 36. lið, upphæð til frjettastofu blaðamannafjelagsins, hefir verið hækkuð aftur. Það var lækkað í hv. Ed. Jeg átti ekki þátt í till. um niðurfærslu styrksins og hefi þess vegna ekki meira um þetta að segja. Styrkurinn, sem var veittur hjer til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, var að upphæð 6 þús. kr., en hv. Nd hefir lækkað hann niður í 5200 kr., eða um 800 kr. Þeirri upphæð hefir hún bætt við Halldóru Bjarnadóttur, til að vinna að útbreiðslu og eflingu heimilisiðnaðar. Nefndin lítur svo á, að hv. Nd. hefði ekki þurft að klípa af styrknum til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, þó að hún hefði viljað gera betur til frk. Halldóru Bjarnadóttur en hv. Ed., sjerstaklega þegar þess er gætt, að búið var að hnýta við styrkinn því ákvæði, að af honum skyldi greiða 1200 kr. styrk til að halda uppi kenslu í vefnaði í Reykjavík ekki skemur en 6 mánuði. Ekki taldi þó nefndin ástæðu til að setja fjárlögin í Sþ. fyrir þessa breytingu. Þá er feld burt fjárveiting til skipulags þorpa og kauptúna, sem sett var inn í hv. Ed. eftir brtt. frá hæstv. atvrh. (MG). Loks feldi hv. Nd. niður tvo liði af þessari gr., 1 þús. til hjónanna í Hítardal og 800 kr. til Bjarna Magnússonar, sem hvorttveggja var sett inn í fjárlög í hv. Ed. Nefndinni þykir leitt, að hv. Nd. skyldi hafa í fjárlögum ráðist á Hítardalshjónin með sína tíu sonu, og álítur sig hafa betri málstað, þó að hinsvegar telji hún það ekki næga ástæðu til að setja fjárlögin í Sþ.

Loks hefir hv. Nd. sett Guðmund Björnsson kennara með 150 kr. eftirlaun; sá liður var feldur hjer við 3. umr. Getur orkað tvímælis, hvort sá liður sje heppilegur, en hjer er um smáupphæð að ræða.

Eins og jeg gat um, hækkaði hv. Nd. dýrtíðaruppbótina úr 100 þús. kr. í 168 þús. kr., eða eins og hagstofan hefir reiknað hana út, ef ástand hjeldist það sama í Reykjavík og hefir verið það sem af er þessu ári. Voru skiftar skoðanir um það í fjvn. hv. Ed.

Þá hefir hv. Nd. bætt inn í 21. gr. 2000 kr. láni til Tómasar Kristjánssonar, bónda á Höskuldsstöðum í Laxárdal, til að leita sjer heilsubótar erlendis, gegn þeirri tryggingu, sem ríkisstjórnin metur gilda. Lánið er veitt til 12 ára, gegn 6% vöxtum og er afborgunarlaust fyrstu tvö árin. Það getur orkað tvímælis, hvort rjett sje að taka þennan eina mann út úr fjöldanum og veita lán úr ríkissjóði. En ástæður hans eru mjög bágar, og vill nefndin því ekki deila á hv. Nd. út af þessu. Liðurinn um greiðslufrest á afborgunum af viðlagasjóðsláni Ólafs Hvanndals var feldur niður. — Hv. Nd. gat ekki fallist á, hvernig reikna skyldi vexti af skuld Guðmundar Björnssonar sýslumanns í Borgarnesi. Jeg lít svo á, að báðar þessar breytingar í hv. Nd. hafi verið órjettmætar. Þegar sýslumanninum var veitt viðlagasjóðslánið, var gengið út frá því, að hann skyldi borga 2% lægri vexti en útlánsvexti bankanna. Prentmyndastofa Ólafs Hvanndals er talin nauðsynleg. Hann mun eiga fyrst um sinn erfitt með að greiða afborganir af láninu; tel jeg því ekki rjett gert að neita honum um þessa ívilnun.

Þegar litið er á fjárlagafrv. í heild, held jeg, að megi óhætt treysta því, að það sje svo úr garði gert, að komi ekki nein ófyrirsjáanleg óhöpp fyrir, muni landsreikningurinn fyrir árið 1925 ekki sýna neinn tekjuhalla. Gert er ráð fyrir, að tekjurnar sjeu svo varlega áætlaðar, að þær muni síst reynast rýrari en áætlað er. Hinsvegar eru útgjöldin svo ríflega áætluð, að varla má búast við, að þau fari að mun fram úr áætlun. Tel jeg, að þetta þing hafi stigið hið heppilegasta og nauðsynlegasta spor með því að samþykkja fjárlagafrv. sem ábyggilegast, þannig, að ríkisbúskapurinn beri sig á því ári, sem fjárlögin gilda fyrir.