12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3178)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Frsm. meirihl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 5. landsk. (JJ) talaði mikið um það, að mestur hluti Söfnunarsjóðsins hafi gengið til lána í kaupstöðum, og þá einkum í Reykjavík. Jeg skal ekki vefengja þetta. Jeg hefi ekki, fremur en hann, átt kost á að kynna mjer bækur sjóðsins. Hitt hefir hv. þm. (JJ) ekki borið brigður á — og enginn í nefndinni — að forstjórar sjóðsins færu með rjett mál, þegar þeir segja, að lánsbeiðnir utan af landi hafi að öðru jöfnu verið látnar ganga fyrir lánsbeiðnum úr kaupstöðum. Virðist svo, sem ekki hafi staðið á öðru en því, að bændur færu fram á að fá lán úr sjóðnum, því að undir umr. í fjhn. kom í ljós, að tiltölulega mjög fáar lánsbeiðnir hefðu komið úr sveitum landsins til sjóðsins. Ef hjer er um það að ræða, að bændum sje ekki kunnugt um starfsemi sjóðsins, þá stendur hv. 5. landsk. (JJ) einmitt vel að vígi að bæta úr þeim ágalla.

Svo var að skilja á hv. 5. landsk. (JJ), að honum þættu umbúðir sjóðsins nokkuð reykvískar. En hvað mætti þá segja um fje sjóðsins? Mjer leikur grunur á því, að mikið af peningum sjóðsins sje einmitt úr Reykjavík eða nágrenni hennar.

Að því er snertir þau ummæli hv. 5. landsk. (JJ), að ekki komi til mála, að það sje móðgun við forstjóra sjóðsins að skora með þál. á þá að gera hið sama, sem þeir hafa lýst yfir, að þeir hafi haft að reglu undanfarið, þá lít jeg nokkuð öðruvísi á það atriði. Við þessari yfirlýsingu forstjóranna er ekki nema tvent að segja. Annaðhvort segir þingið: Gott og vel, við trúum ykkur og treystum í þessu efni, eða þá að það segir: Við erum óánægðir með meðferð ykkar á fje Söfnunarsjóðsins, og leggjum fyrir ykkur framvegis að haga útlánum úr sjóðnum á þann hátt, sem þál. fer fram á. Ef þingið tekur þennan kost, þá treystir það ekki forstjórunum, eða því, sem þeir hafa sagt, og það virðist mjer vera móðgun við þá, og það að ósekju.

Jeg sagði ekki, að ekki mætti breyta lögum sjóðsins vegna stofnanda hans, heldur miklu fremur vegna þeirra, sem eiga fje í sjóðnum. Fæ jeg því ekki sjeð, að þeir tveir sjóðir, sem hv. þm. (JJ) nefndi, sjeu sambærilegir við þennan sjóð, því að þeir taka ekki áframhaldandi við fje til ávöxtunar.

Þá spurði hv. 5. landsk. (JJ) mig að því, hvort jeg hjeldi, að maður, sem hefði lagt fje í Söfnunarsjóðinn, t. d. árið 1890, ynni mál, sem hann höfðaði út af þessari breytingu, ef svo færi, að hún yrði samþykt. Jeg skal ekkert fullyrða um þetta atriði, enda býst jeg við því, að við hv. 5. landsk. (JJ) sjeum báðir nokkurnveginn jafnsnjallir „júristar“, eða með öðrum orðum, hvorugur bær um að kryfja það mál til fullnustu. En hitt veit jeg, að ef til slíkra málaferla kæmi, þá myndi það hnekkja áliti og trausti sjóðsins, honum til ómetanlegs tjóns.

Loks má geta þess, að svo er að sjá, sem breytingin ríði í bág við þau ákvæði 19. gr. laga sjóðsins, að þeir, sem eiga fje í sjóðnum, skuli hafa tillögurjett um það, hvernig því sje varið.