12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Guðmundur Ólafsson:

Það er eitt einkennilegt við þessar umræður, og það er, að allir ræðumenn virðast vera að nokkru leyti á sömu skoðun. Og sú skoðun er sú sama og umráðamenn Söfnunarsjóðsins segjast hafa haft, sem sje, að vilja gera alt fyrir landbúnaðinn. Jeg efast ekki um, að stofnandi sjóðsins muni líta hýru auga til landbúnaðarins, eins og hv. 2. þm. G.-K. (BK) sagði, en þrátt fyrir það mun enginn draga í efa, að landbúnaðurinn hefir fengið minna fje úr sjóðnum en kaupstaðirnir. Enda hefir sjóðurinn aðsetur sitt í stærsta kaupstað landsins, og standa íbúar hans því betur að vígi með að ná til sjóðsins en aðrir. Það er líka búið að leiða rök að því, að þeir, sem búa í kaupstað og ætla að fá lán úr Söfnunarsjóði til að koma upp húsi, eiga hægra með að nota þau en bændur, þótt þeir verði að bíða nokkuð eftir að fá lánin, og geta þá fleytt sjer með víxlum í bili.

Þótt því hafi verið haldið fram, að ekki mætti breyta reglugerð sjóðsins sökum þess, að það gæti verið hættulegt fyrir sjóðinn, þá hafa þau rök, sem fram hafa verið færð fyrir því, ekki gert mjer það skiljanlegt, að svo væri. Jeg get ekki skilið, að breytingin geti verið til nokkurs skaða fyrir þá, sem eiga fje í sjóðnum, ef tryggingin fyrir lánunum er jafngóð eða betri. Og það eru allir sammála um, að jarðarveð sje að minsta kosti ekki lakari trygging en veð í húseignum í kaupstöðum, og jeg fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að jarðarveð sje miklu betra. Annars finst mjer þessar umræður ganga svipað því sem svo oft vill verða í þessari hv. deild, þegar rætt er um landbúnaðinn, þá er öllum svo vel við hann, að enginn sjer ráð til að gera neitt fyrir hann.

Hv. 1. landsk. (SE) og hv. 2. þm. G.-K. (BK) vildu láta landbúnaðinn halla sjer að fasteignabankanum til þess að fá rekstrarfje, þótt sá banki vitanlega sje aðeins til á pappírnum.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) mintist ennfremur á 5. veðdeild Landsbankans, sem enginn annar en hann mun vita, að sje til. Þetta hvorttveggja sýnir, að þeim er hlýtt til landbúnaðarins, og ráð þessara hv. þm., honum til styrktar, sanna það ljóslega. Annars finst mjer, að úr því, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) mintist á 5. veðdeild Landsbankans, sem engin er til, þá hefði hann haft alveg eins mikla ástæðu til að minnast á bankann, sem stofnaður var af honum og flokksmönnum hans hjer á þinginu í fyrra.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) virtist ennfremur halda því fram, að jarðarveð væru ekki góð veð. Því hefir nú verið mótmælt áður, en jeg get þó ekki látið vera að taka það fram í því sambandi, að jeg er þeirrar skoðunar, að slík veð sjeu miklu betri og tryggari en veð í húseignum í kaupstöðum.

Jeg skal taka það fram, að jeg er ekki vel kunnugur Söfnunarsjóðnum yfirleitt, og get því ekki fyllilega sagt um, hver áhrif slík breyting sem þessi mundi hafa á hann. En mjer finst þó, að það ætti að vera alveg óhætt að athuga málið á þann hátt, er þáltill. ætlast til, og tel því rjett að samþykkja hana. Væri þá stjórninni skylt að leggja álit sitt um málið fyrir næsta þing.

Þykir mjer velvilji hv. deildar til landbúnaðarins vera af skornum skamti. Er jeg máske næmari af því, að jeg er sveitabóndi. Tel jeg þó, að þingið gæti gert margt, sem því yrði minni heiður að en þótt það samþykti þessa till.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) vísaði til búnaðarlánadeildar. Tel jeg mikinn vinning að fá hana. Býst jeg þó við, að till. um stofnun hennar yrði feld, ef hún kemur frá Nd., alt af velvilja til landbúnaðarins. Þá er að snúa sjer til bankans, sem ennþá er aðeins til á pappírnum, eða þá til veðdeildarinnar, sem eins er farið.