30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

127. mál, sala sjávarafurða

Frsm. minnihl. (Ingvar Pálmason):

Jeg ætla að byrja á því að víkja fáum orðum að ræðu hv. 1. landsk. (SE). Hann hjelt því fram, að framleiðendur sjálfir hefðu gert of lítið fyrir þetta mál, og jeg er honum fullkomlega sammála, og jeg veit, að sjávarútvegsmenn hafa gert mikið minna til þess að koma góðu lagi á afurðasölu sína en bændur. En sjávarútvegurinn er líka mikið ver settur í því tilliti heldur en landbúnaðurinn. Bændur eru þegar búnir að koma á hjá sjer ýmiskonar fjelagsskap, en sjávarútvegsmenn ekki. Til þess liggja ýmsar orsakir, en aðalorsökin er þó, hve ósamstæður sjávarútvegurinn er.

Jeg sýndi fram á, við fyrrihluta þessarar umr., að alt að helmingur af fiskframleiðslunni er veiddur á róðrarbáta og smærri vjelbáta hringinn í kringum land, jafnvel víða á útkjálkum. Sjá allir, að hjer er erfið aðstaða með skipulegan fjelagsskap. Fiskifjelagið mun hafa verið stofnað með það fyrir augum að koma á slíkum fjelagsskap meðal útvegsmanna. Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg álít, að þing og stjórn hafi ekki skilið nægilega tilgang Fiskifjelagsins. Síst af öllu ætla jeg að ámæla þessu þingi, þó það hafi ekki sjeð sjer fært, að veita Fiskifjelaginu hærri fjárstyrk að þessu sinni, en jeg get ekki varist því, að álykta, að Fiskifjelagið og sjávarútvegurinn hafi að undanförnu verið olnbogabarn þingsins, ekki síður en að þessu sinni. Jeg veit ekki til, að Alþingi hafi gert mikið til að koma á slíkum fjelagsskap, sem þó er afarmikilsvert. Meðan svo er ástatt, er ekki til neins að vitna í það, að útvegsmenn hafi sjálfir verið aðgerðalausir. Jeg játa það, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, að hjer hefði alt of mikið tómlæti átt sjer stað, bæði af hendi þingsins og útvegsmanna sjálfra.

Svo vil jeg fara fáum orðum um ræðu hv. þm. Vestm. (JJós). Hann taldi, að í ræðu sinni hefði ekki legið nein renging á skýrslu erindrekans; en þegar hann heldur fram, að niðurstaðan sje ekki rjett, þá er það renging. Skýrslan er ekki rjett, sje niðurstaðan að einhverju leyti röng. Hann gat þess, að þegar hann veitti því stuðning að auka fjárveitingu til erindreksturs í Miðjarðarhafslöndum, þá hefði hann ekki haft neinn sjerstakan mann fyrir augum. Þetta kemur í sama stað niður, því að úr því að hann rengir þær ályktanir, sem erindreki sá, er jeg hefi minst á, hefir komist að, þá virðist, að hann muni einnig geta rengt þær niðurstöður, sem slíkur starfsmaður kynni að finna, þó annar væri, ef hv. þm. ekki líkuðu þær.

Þá kvaðst hann ekki vera stórútflytjandi. Jeg get ekki verið að krefja hann um skýrslur um slíkt hjer á þessum stað, en það mun óhætt að telja hann með stærri útflytjendum þessa lands. Hv. þm. gat þess, að það hefði ekki komið fram í ræðu sinni vantraust á hæstv. stjórn. Með því að óttast, að henni mundi ekki takast að skipa óhlutdræga menn í nefndina, álít jeg, að hann vantreysti stjórninni. Jeg ber engan kvíðboga fyrir því, að þessari hæstv. stjórn geti ekki tekist að skipa sæmilega í nefndina, og þó er jeg ekki stuðningsmaður hennar, eins og hv. þm. (JJós). Enginn vafi leikur á því, og meira að segja var það viðurkent af hv. þm. Vestm. (JJós), að við höfum beðið tjón af skipulagsleysi á fisksölunni. Þá mintist hv. þm. á steinolíueinkasöluna í sambandi við þetta mál, og vildi sanna, að með einkasölunni væri ekki hægt að halda verðinu uppi fram yfir markaðsverð. Mjer hefir aldrei dottið í hug, að þær ráðstafanir, sem jeg ætlast til að gerðar verði, geti spornað við því, að fiskurinn fjelli á markaðinum, en jeg hefi haldið því fram og held því enn fram, að fastbundið skipulag á fisksölunni geti komið í veg fyrir, að við fáum 1/6 minna fyrir fiskinn hjer heima en vera bæri, eftir markaðsverði í þeim löndum, þar sem hann er notaður. Mjer hefir heldur ekki dottið í hug, að við getum heimtað vist verð fyrir hvert kg. af okkar fiski.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, því jeg býst við, að hv. deild sje búin að athuga það og verði að fara um það sem auðið er. Jeg hefi þá trú, að málinu sje betur borgið að vísa því til stjórnarinnar með þáltilll. minni, heldur en með hinni óákveðnu dagskrá hv. meirihluta. Tel hana óákveðna, vegna þess, að hún gerir ekki ráð fyrir, að neitt sje breytt um fyrirkomulag á fisksölunni, sem jeg legg aðaláhersluna á. Jeg er því algerlega mótfallinn að vísa málinu til stjórnarinnar með einhverjum loðnum forsendum.