02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3213)

104. mál, fækkun ráðherra

Hákon Kristófersson:

Jeg lít svo á, eftir því sem talað hefir verið fyrir þessari till., að í henni felist bæði traust og vantraust — traust á hæstv. fjrh. (JÞ), en vantraust á hæstv. atvrh. (MG).

Af því að jeg átti minn þátt í þessari stjórnarmyndun, sem einn af Íhaldsmönnum, þá vildi jeg lýsa yfir því, að það er mjög svo tilhæfulaus flugufregn, sem hv. flm. (MT) hefir borist um það, að Íhaldsflokkurinn hafi ekki treyst hæstv. atvrh. (MG) til þess að taka að sjer fjármálastjórnina. Yfirleitt býst jeg við, að enginn flokksmanna hafi vantreyst honum í því efni. Annað mál er það, að þó að eitthvað hafi borið á milli í skoðunum, þá felst ekki neitt vantraust í því. Fregnin er því alveg gripin úr lausu lofti. Jeg vil benda hv. 1. þm. Árn. (MT) á það, að mjög varasamt er að fara eftir fregnum þeim, er berast hjer um bæinn, því ekki man jeg betur en að það hafi gengið um eitt skeið staflaust, að hv. flm. (MT) væri reiðubúinn til þess að taka að sjer stjórn í ráðuneyti ásamt hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem hann þó taldi alóstarfhæfan mann. Af þessu mun það ljóst, að ekki munu það sannar fregnir, að hv. þm. hafi viljað vera í stjórn með manni, er hann telur lítt starfhæfan.

Jeg var einn þeirra, er hjelt því fram nú á þessu þingi, þegar það var rætt hjer í hv. deild, að ráðherrarnir ættu að vera þrír, og jeg hefi enn þá skoðun, að samkvæmt stjórnarskránni sje erfitt að komast hjá því, að þeir sjeu þrír, Til þess að fækka þeim þarf, að mínu viti, stjórnarskrárbreytingu. Jeg sat á þingi, þegar hún var samþ., og jeg get ekki betur sjeð, en að það felist í greinum hennar, að ráðherrarnir eigi að vera þrír. Og óhætt mun að fullyrða, að sú hugsun hafi þá verið efst á baugi, að það væri framtíðarráðstöfun. Hv. flm. (MT) sagði, að það lægi fyrir krafa frá mörgum þingmálafundum um fækkun ráðherranna niður í tvo eða jafnvel einn ráðherra. En við vitum það nú báðir, að þær eru misjafnlega tilkomnar margar hverjar kröfurnar frá þingmálafundunum, því vitanlegt er það, að margar af þeim grundvallast á tillögum þingmanna, og á þingmálafundum láta þær oft vel í eyrum kjósenda, sjerstaklega þegar um það er að ræða, hvað spara ætti. Það skortir nú þá ekki loforðin, þó að oft vilji verða minna um efndirnar. Tala jeg hjer ekki til hv. flm. (MT) sjerstaklega, heldur til okkar allra, sem á þingbekkjum sitja hjer inni í hv. deild, með því lofa jeg ekki eða lasta einn frekar en annan. Jeg man ekki til þess, að neitt væri ákveðið um það, að ráðherrarnir skyldu vera þrír aðeins meðan að ófriðurinn stæði yfir. Menn gerðu alment ráð fyrir því, að svo yrði einnig á friðartímum. Hv. flm. benti á það, með hliðsjón af því, sem á undan væri gengið, að Íhaldsflokkurinn ætti ilt með að manna stjórnina, ef hún ætti ekki hægt með að missa einn mann. Hæstv. forsrh. (JM) svaraði því svo ítarlega, að ekki er þörf við það að bæta. En jeg vil taka það fram, að jeg tel engu síður þörf á því að hafa nú sem fyr starfshæfa og dugandi menn í stjórn landsins. Mjer dettur ekki í hug, og mjer mundi koma það mjög á óvart, ef tíminn leiddi það í ljós, að sundrung væri á milli ráðherranna innbyrðis, eins og hv. flm. (MT) vildi gefa í skyn. Með tilliti til hinna mörgu og erfiðu viðfangsefna, sem nú eru uppi á baugi með þjóðinni, þá má minna á þann gamla og góða málshátt, að betur sjá augu en auga, og því ríður ekki lítið á því, að stjórn landsins sje nú skipuð vitrum og dugandi mönnum. Jeg þykist mega segja það með nokkurnveginn vissu um núverandi hæstv. atvrh. (MG), að hann hafi, er hann var fjármálaráðherra, verið talinn mjög afkastamikill sem slíkur, og á því sviði engu síður en sá ráðherra, sem hv. þm. virtist benda til, að honum ólöstuðum. Og jeg er viss um það, að einhver hefir gert sjer leik að því að skrökva að hv. flm. (MT), að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi látið sjer það um munn fara, er myndun þessa ráðuneytis var á döfinni, að hann vildi ekki vera atvrh. af því, að í þeirri stjórnardeild væri ekkert að gera. Að hann tók fjármálastjórnina að sjer frekar en atvinnumálastjórnina, hygg jeg, að hafi aðeins stafað af því, að hugur hans hafi staðið nær því starfi, og að það hafi því orðið að samkomulagi á milli ráðherranna að skifta þannig með sjer störfum. Og jeg get fullvissað hv. flm. um það, að Íhaldsflokkurinn er ánægður með þá verkaskiftingu.

Ef till. þessi hefði átt að koma að fullum notum, þá hefði verið rjett, að hún kæmi fram í þingbyrjun, áður en að stjórnin var mynduð. En eins og hæstv. forsrh. (JM) tók fram í ræðu sinni, þá kemur það ekki til nokkurra mála, að till. geti náð til þessa ráðuneytis, sem nú situr að völdum. Jeg geri ráð fyrir, að hv. flm. (MT) gangi það tvent til með till. sinni, að verða að vilja kjósenda sinna og að spara. En ef á að spara í þessu efni, þá fæst það best með því, að hæstv. fjrh. (JÞ) fari, þar sem báðir hinir hæstv. ráðherrarnir eru á eftirlaunum. Segi jeg þetta ekki, eins og jeg hefi margtekið fram, af því, að jeg vilji missa hæstv. fjrh. (JÞ) úr stjórninni, heldur vildi jeg aðeins benda hv. flm. (MT) á, að ef farið er eftir vilja hans, þá er spámaðurinn svo að segja enginn og till. tilgangslaus.

Hv. flm. (MT) sagði, að hæstv. fjrh. (JÞ) mundi hafa staðbetri þekkingu á atvinnumálum en hæstv. atvrh. (MG). Jeg vil lýsa því yfir, að jeg vil á hvorugan þeirra halla; jeg virði þá báða mikils á þessum sviðum eins og öðrum. En þessu er jeg alls ekki sammála. Jeg verð að telja, að það sjeu til atvinnugreinar, sem hæstv. atvrh. (MG) er fult svo vel kunnugur sem hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg á við atvinnugreinar okkar búandmanna. Þetta er alls ekki mælt til þess að kasta skugga á það álit, sem hæstv. fjrh. (JÞ) á skilið frá mjer og öðrum. Jeg get sagt hið sama og hv. þm. Ak. (BL), að sakir kurteisi, sem jeg vil sýna vini mínum, hv. flm. (MT), vil jeg leggja til, að till. hans verði ekki feld á annan hátt en að vísa henni til hæstv. stjórnar. Jeg býst við, að hún hafi ekkert á móti því að taka við henni og geyma hana í venjulegri ruslaskrínu, þar sem þær till. eru látnar í, sem menn álíta, að eigi ekki sjerstaklega mikinn rjett á sjer.