02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (3218)

104. mál, fækkun ráðherra

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get verið fáorður. Tel jeg þingið hafa annað þarfara að leysa af hendi en að hafa um þetta langar umræður að þessu sinni.

Hv. flm. (MT) sagði, að lagaskilningur minn hefði breyst síðan 1922. En jeg sagði þá ekki annað um lagahlið málsins en jeg segi ennþá. Jeg sagði, að jeg hefði talið forsvaranlegt að hafa 2 ráðherra, að minsta kosti í bili. Það segi jeg enn. Hitt sagði jeg og, að ýmsir góðir lögfræðingar hefðu þá skoðun, að það væri beint brot á stjórnarskránni að hafa ráðherra færri en 3.

Það er alls ekki rjett, að jeg hafi talið till. fela í sjer vantraust til ráðuneytisins. En jeg lít svo á sem till. geti ekki náð til þessa ráðuneytis, sem nú situr að völdum, þar sem í því hefir þegar verið ákveðið að sitji 3 ráðherrar, og þeir tekið við embættum sínum.

Ef það er rjett, að valdalystarleysið sje jafnlítið í hinum flokkunum og sagt hefir verið, þá er það gleðilegur vottur um pólitískan þroska, því að samkvæmt því, sem venja er til þar, er þingræði er rjett framkvæmt, átti Íhaldsflokkurinn að mynda stjórn á þessu þingi, þar sem hann var fjölmennastur, hafði áður verið í andstöðu við fyrv. stjórn og vann á við kosningamar.

Jeg sagði, að þingið hefði annað við tímann að gera en að ræða þetta mál. En það var ekki vegna þess, að jeg líti svo á sem það sje í raun og veru svo ómerkilegt, heldur af því, að það er tilgangslaust, eins og nú standa sakir, þar sem þriggja ráðherra stjórn hefir þegar verið skipuð.