02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (3219)

104. mál, fækkun ráðherra

Þorleifur Jónsson:

Jeg ætla aðeins með nokkrum orðum að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Í fyrra, þegar stjórnarskrárbreytingin var til umr. í Nd., var jeg á móti fækkun ráðherra, þar sem mjer fanst of mikið skertir starfskraftar stjórnarinnar, að fækka ráðherrum úr 3 niður í 1. En aftur á móti gat jeg vel sætt mig við, að ráðherrar væru 2, og taldi það heppilegra en að hafa einn ráðherra og landritara. Nú hafa heilt ár aðeins verið 2 ráðherrar, og hefir reynslan sýnt, að það fyrirkomulag er vel viðunandi. Og með tilliti til þessa og sparnaðaráhuga Framsóknarflokksins, fylgdi hann því fram í stjórnarskrárbreytingu þeirri, er hann bar fram í Ed. á þessu þingi, að ráðherrar yrðu aðeins 2.

Aftur á móti hefir Íhaldsflokkurinn haldið því fram, bæði í fyrra og aftur nú, að kappnóg væri að hafa einn ráðherra og landritara. Bjuggust menn því við, að flokkurinn mundi halda sjer við reynsluna og skipa aðeins 2 ráðherra.

Samkvæmt því, sem jeg hefi sagt, lýsi jeg því yfir, að jeg get vel fylgt svona till., þó að hún kunni ekki að hafa áhrif í bráð. En jeg vil taka það fram, að röksemdafærslu hv. flm. (MT) get jeg alls ekki skrifað undir, síst þar sem hann vill ákveða, að hæstv. atvrh. eigi sjerstaklega að fara úr stjórninni. Má nærri geta, að Framsóknarflokkurinn vill ekki fyrst og fremst losna við hann úr stjórninni, þar sem hann hefir sýnt, að hann vill þó styðja ýms áhugamál flokksins. Hann hefir t. d. lofað að beita innflutningshöftum og sýnt það í málum, sem flokkurinn hefir litið á sem stórmál, að hann er bændum og búaliði þessa lands velviljaður. Ef till. verður samþykt og kemur til framkvæmda strax, viljum við, að stjórnin ráði því sjálf, hver ráðherranna víkur.

Hefi jeg þá með nokkrum orðum tekið fram mína afstöðu og ýmsra fleiri, sem líta líkt á þetta og jeg, og hefi ekki meira um málið að segja að þessu sinni