05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

104. mál, fækkun ráðherra

Sigurður Eggerz:

Hv. flm. till. þessarar (MT) hefir marglýst því yfir, að í henni fælist hvorki traust eða vantraust. Mun því óhætt að slá því föstu, að hún sje laus við alla pólitík. Hefði því hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) getað sparað sjer allar þessar fjölskylduhugleiðingar. Annars var mjög ánægjulegt fyrir hæstv. atvrh. (MG) að fá hinar vingjarnlegu yfirlýsingar frá þessum hv. þm. (SvÓ) og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) um hið hlýja hugarfar í garð ráðherrans. Má því án efa vænta þess, að sjeu þeir ekki nú þegar komnir inn í fjölskylduna, þá verði þess ekki langt að bíða. (Atvrh. MG: Er þingmaðurinn afbrýðissamur?) Já, það er rjett, jeg er dálítið afbrýðissamur, en þrátt fyrir það óska jeg hæstv. atvrh. (MG) til hamingju með þá ástúð og hlýju, sem andar gegn honum frá þessum hv. þm. og gömlu vinum hans.

Jeg skal ekki að þessu sinni fara inn á skýringu á stjórnarskránni. Jeg hygg þó, að það verði ekki talið í bága við stjórnarskrána, þótt ráðherrar sjeu aðeins tveir. Undir öðrum kringumstæðum virðast allir sammála um — og það hefir einnig hæstv. forsrh. (JM) látið í ljós — að það geti ekki verið í stríði við stjórnarskrána, þótt ráðherrar í bili sjeu aðeins tveir, en þetta hefir komið fyrir, bæði í stjórnartíð hans og í minni stjórnartíð, þó auðvitað lengur í minni stjórnartíð. Samkvæmt þessu get jeg því, hvernig sem tillagan fer, ekki sjeð, að í henni felist nokkur dómur um, að jeg hafi gert rangt með því að hafa aðeins tvo ráðherra síðasta ár, þar sem þetta var aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Annars ber, eftir því sem hv. flm. (MT) hefir lýst till., að skoða hana sem sparnaðarráðstöfun, sem einn lið í sparnaðarviðleitni þessa þings. Jeg hefi lagt áherslu á sparnaðinn, og fjárlagafrumvarp fyrv. stjórnar sýndi þetta rækilega. Sama þykist jeg hvað eftir annað hafa sýnt, er jeg var fjármálaráðherra áður fyr. En jeg hefi lagt áherslu á það og legg áherslu á, að raska ekki þeim hyrningarsteinum, sem þjóðfjelagið hvílir á. Ef sparsemin reynir að velta þeim, þá er hún komin út fyrir sitt verksvið. Meðal þeirra er hæstirjettur. Mun það verða mitt verk og fleiri manna að fá skipulagi hans breytt aftur til þess, sem verið hefir. Ekki má heldur ganga of nærri háskólanum. Jafnvel þær þjóðir, sem við mesta fjárhagsörðugleika hafa átt að stríða, hafa ekki látið sjer til hugar koma að ráðast á hæstarjett sinn og háskóla. Þriðja málið er sendiherrastaðan. Ef við sleppum þeim tökum, sem við nú höfum náð á utanríkismálum vorum, þá erum við á hraðri leið niður á við. Jeg hygg, að ekkert sparist, þótt það embætti verði lagt niður. Sendiherra sá, sem vjer höfum haft, hefir þegar unnið landinu stórmikið gagn; verður það ekki metið til fjár. Fulltrúar landbúnaðarins hafa sjerstaka ástæðu til þess að vera honum þakklátir.

Jeg held því fram, að tala ráðherra ætti að vera 3. Og hefði jeg farið áfram með stjórn, mundi jeg hafa bætt við mig þriðja ráðherranum. (MT: Var samverkamaður hv. 1. landsk. (SE) í stjórninni samþykkur því?) Ástæða mín er ekki sú, að einn maður gæti ekki annað stjórnarstörfunum, heldur hitt, að þær ákvarðanir, sem stjórnin verður að taka, eru svo mikilvægar, að jeg vil ekki leggja þær í hendur eins manns. Dettur engum í hug að fela einum manni æðsta dómsvald í landinu. Og þó gæti einn maður vel annað þeim störfum. En af hverju er þá maðurinn ekki hafður einn? Minna fje kostar það. Ástæðan er sú, að trygging borgaranna, sem eiga úrskurð velferðarmála sinna undir rjettinum, heimtar, að mennirnir sjeu fleiri. Sama gildir um æðstu stjórn landsins. Það er rangt að leggja svo mikla ábyrgð á einn mann. Það liggur því í hlutarins eðli, að þar sem jeg óska, að ráðherrar sjeu þrír, get jeg ekki óskað þess, að í núverandi stjórn eigi sæti aðeins tveir ráðherrar. Breytir það ekki skoðun minni, þó að andstæðingar mínir eigi í hlut, nje heldur þótt það væru meðhaldsmenn mínir eða jafnvel fjölskyldumenn mínir.

Vildi jeg óska þess, að augu hins háa Alþingis mættu opnast fyrir því, að það á að vera vörður um æðstu stofnanir vorar, það á að styrkja þær og vaka yfir þeim, en ekki að gera þær að eilífu þrætuepli og veikja þær, þótt það kunni að skapa samúð hjá þeim, sem styst sjá.