05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

104. mál, fækkun ráðherra

Forsætisráðherra (JM):

Till. hv. 1. þm. Árn. (MT) gefur mjer ekki tilefni til þess að lýsa afstöðu stjórnarinnar frekar en þegar hefir verið gert.

Stjórnin er skipuð þremur ráðherrum, og er kominn konungsúrskurður um, að sæti skuli eiga í henni 3 ráðherrar. Mun stjórnin ekki gera neina breytingu á því.

Hv. 5. landsk. (JJ) á mjög bágt með að skilja sum mál. Kom mjer ekki á óvart frásögn hans um afstöðu mína til þessa máls. Jeg sagði í hv. Ed., að jeg teldi það betra stjórnarfyrirkomulag að hafa aðeins einn ráðherra og landritara. Einnig sagði jeg, að jeg kysi heldur að hafa einn ráðherra heldur en tvo, og frekar þrjá en tvo.

Fordæmin, sem sami hv. þm. (JJ) var að tala um, finnast heldur ekki. Þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda, var stjórnin skipuð þremur ráðherrum. Jeg hefi heldur ekki neina trú á valdalystarleysi Framsóknarflokksins. Ef hann hefði náð meirihluta nú, veit jeg, að stjórn hans hefði verið skipuð þremur ráðherrum.

Afstaða Íhaldsflokksins til þessa máls er ekki á neinn hátt dularfull, og ekkert undarlegt, að stjórnin er skipuð þremur ráðherrum, þegar svo ber að gera samkvæmt stjórnarskránni.