05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

104. mál, fækkun ráðherra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er áreiðanlega ekki meining hæstv. fjrh. (JÞ), að svo há upphæð, sem hann nefndi, hefði verið í peningum í sjóði hinn 1. jan. 1922. Flestum mun kunnugt um, hvernig sá sjóður er fenginn út. Hann er fenginn þannig, að frá samanlögðum sjóði síðasta árs og tekjum öllum, sem innborgaðar hafa verið á árinu, hvort heldur með lánum eða reglulegum tekjum, eru dregin öll gjöld ársins og afgangurinn er sjóður til næsta árs. Þetta ætti 1. landsk. (SE), sem sjálfur hefir verið fjármálaráðherra, að vita. En hann veit það sjáanlega ekki. Hann er svo mikið barn í þessum efnum, að hann heldur, að öll þessi fúlga liggi einhvern ákveðinn dag í sjóði. Hann veit það ekki, að tekjur ríkissjóðs frá umliðnu ári, eru að koma inn framundir mitt næsta ár, og svo er þetta fje talið reikningslega í sjóði 31. des. næsta á undan, af því, að það er tilfallið á þeim tíma og reikningum yfir tekjur og gjöld hvers árs er haldið nákvæmlega aðskildum. Allir, sem skyn bera á þetta mál, vita, að þetta er rjett, enda hefði Alþingi samþ. falsaðan reikning fyrir árið 1921 og öll önnur ár, ef þetta er ekki rjett. Þessu mun þingið seint halda fram. (SE: Má jeg benda á það, að 31. des. 1922 voru 2 milj. í sjóði, þegar M. J. fór frá þetta er viðhaft um þennan mann (M. J.), sem hefir verið ofsóttur mjög fyrir sína fjármálastjórn, en þetta er skollaleikur, sem jeg skal fletta ofan af síðar, ef jeg fæ tækifæri til!) (KlJ: Þetta er hreinasta blekking!) Þetta er hvorki skollaleikur nje blekkingar, og það er næsta undarlegt að halda því fram, að landsreikningar, sem þingið hefir samþykt með öllum atkvæðum, sjeu blekkingar, og síst ætti hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem sjálfur hefir skrifað undir landsr. 1922, að telja þar í falda blekkingu. Annars ætti hv. 1. landsk. (SE) að fyrirverða sig fyrir að lesa rangt upp töluna, er sýnir, hvað var í sjóði 31. des. 1922. Hann sagði, að það væru um 2 milj. kr., en hjer er landsr. fyrir það ár, jeg held á honum hjer í hendinni, og skora á alla að líta eftir, hvort jeg fer ekki með rjett mál, er jeg segi, að sjóðurinn var 31. des. 1922 rúml. 1,2 milj., en í árslok 1921 var hann nærri 2,5 milj.

Út af því, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði í ræðu sinni, að jeg hefði breytt um skoðun síðan jeg hjelt því fram að hafa aðeins einn ráðherra, þá er það alls ekki rjett hjá þessum hv. þm. Hann heldur því fram, sem jeg hygg rjett vera, að stjórnarskráin geri ráð fyrir því, að ráðherrar sjeu þrír. Þessvegna vildi jeg fá þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar breytt. En það er, eins og hv. þm. Ak. (BL) tók fram, sitthvað að koma í gegnum þingið breytingu á stjórnarskránni eða beinlínis að brjóta hana. Þetta hefir og ávalt verið svo í framkvæmdinni, að ráðherrar hafa verið þrír, þó að um stundarsakir hafi þeir aðeins verið tveir. Hefir jafnan öðrum þeirra verið greidd hálf önnur ráðherralaun, sem sýnir það, að hann hefir verið settur til að gegna því embætti, sem laust var.

Jeg ætla ekki að fara langt út í ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT), en jeg gæti trúað, að þó hann vildi láta líta svo út, að hann hafi, hinn 22. mars í vetur, enga hugmynd haft um, hvernig stjórnin yrði mynduð, þá hafi hann þó vitað það vel, og sje því hjer enn nýtt dæmi um króka þessa hv. þm. og yfirdrepsskap. Nú hefir hann margoft lýst því yfir, að hann ætlist ekki til þess, að till. hans verði skilin sem vantraustsyfirlýsing. En nú gat jeg ekki fremur en aðrir, sem hlustuðu á 1. ræðu hans, skilið hann öðruvísi en að hann væri að flytja fram formála fyrir vantraustsyfirlýsingu. Hann hefir þá hagað orðum sínum svo óheppilega, að enginn hefir skilið hann, nema líklega hann sjálfur. Nú lýsir hann því hátíðlega yfir, að hann hafi þó eitthvert traust á mjer, og telur það firru, að skilja till. hans sem vantraustsyfirlýsingu.(MT: þetta hefir þá líklega verið einn krókurinn?) Já, efalaust. En samkvæmt áðurnefndum yfirlýsingum hans, skoða jeg það sem víst, að hann hafi vottað mjer traust sitt. (MT: Jæja, en það er þá ekki nema ofurlítið brot úr milligrammi það traust!) Jeg tel mig ánægðan með það; jeg geri yfir höfuð ekki ráð fyrir miklu úr þeirri átt, en þetta er þó traust, en ekki vantraust, þótt lítið sje, en því miður get jeg ekki goldið hv. þm. (MT) í sömu mynt, því að traust mitt til hans er langt fyrir neðan núll. Hann segist ekki hafa mælt neitt orð mjer til hnjóðs, en jeg skildi hann þó á hinn veginn, en úr því að hann segir, að svo hafi ekki verið, er ekki um það lengur að ræða, að þessu sinni, en komi ræður hans í þingtíðindunum eins og hann hefir flutt þær, þá mun best sjást, hvílíkur yfirdrepsskapur er falinn í þessum orðum. Þá sagði sami hv. þm., að jeg væri að reyna að útvega mjer traust vegna þessarar till. Jeg hefði ekkert á móti því, þó hann kæmi nú þegar fram með vantraustsyfirlýsingu á mig, og sjáum svo til, hvernig fer. Hann fór og að atyrða blað eitt, sem jeg er við riðinn, en það eru nú fleiri menn en jeg, sem að því standa, og jeg man ekki heldur til, að neitt hafi að honum verið veist í því blaði, umfram það, sem rjettmætt er, nema síður sje.(MT: Máske Berlimurinn sje einn af þeim, sem standa að blaðinu?) Jeg þekki engan mann, sem svo heitir. — Þá brá hann mjer um ódrengskap. Jeg veit alls ekki til þess, að jeg hafi beitt hann nje neinn annan slíku, og veit því ekkert, við hvað þm. á í þessum orðum sínum. Máske þetta sje einn krókurinn? (MT: Jeg átti við viðskifti hæstv. ráðh. og þm. Str.) Það hefir nú svo margt farið á milli mín og hv. þm. Str. (TrÞ), að það yrði of langt að fara að rekja það hjer, enda kemur það þessu ekkert við, og hefir heldur ekki neitt það orðið okkar í milli, sem gefi hv. 1. þm. Árn. (MT) ástæðu til að draga það inn í þessar umr. — Enn sagði hv. 1. þm. Árn. (MT), að jeg hefði ekkert verið við Flóaáveituna riðinn, og hefir hæstv. fjrh. (JÞ) tekið af mjer ómakið að svara því, en þó að ákveðið væri 1920 að taka lán til þessa verks, var þar með ekkert ákveðið, hvenær ætti að byrja á verkinu. Hótanir hans, um að koma í heimsókn til mín, óttast jeg ekki. Jeg segi honum þvert á móti, að hann er velkominn, hvenær sem honum þóknast að koma að heimsækja mig.

Að svo mæltu hygg jeg tíma til kominn að leggja mál þetta undir atkvæði hv. Alþ., og hefi jeg gaman af að sjá, hve þjettskipaðar og fjölmennar fylkingar hv. þm. (MT) verða við atkvæðagreiðsluna.