05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

147. mál, holdsveikraspítalinn

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hygg, að því hafi verið hreyft af hálfu einhvers meðal forgöngumanna þeirra, er komu holdsveikrahælinu á fót, að nota mætti eitthvað af afgangs húsnæði þar nú fyrir gamalmenni. En flestum, sem til þekkja, mun þykja varhugavert að flytja þangað gamalmenni, sem ekki eru holdsveik. Og mjer kemur það undarlega fyrir sjónir, þegar holdsveikt fólk er tekið nauðugt af heimilum sínum, til þess að stía því frá öðrum, vegna sýkingarhættunnar, að þá skuli vera talað um að flytja heilbrigt fólk saman við sjúklingana. Auk sýkingarhættu mundi það valda örðugleikum fyrir hjúkrunarfólkið á hælinu og við hjúkrunina yfirleitt.

Sjúklingar á spítalanum eru 42 nú sem stendur, en það er ekki gott að segja, nema þeim kunni að fjölga töluvert nú á næstunni. Veikin getur komið upp víðar en nokkum grunar nú. T. d. veit jeg um 2 nýja sjúklinga í Eyjafirði, og víðar eru sjúklingar, sem enn eru ekki komnir á spítalann. Sjúklingar munu því vera um 60 á landinu í alt.

Annars get jeg ekkert gert í þessu máli nema í samráði við holdsveikralækninn og landlækni. Og mjer er kunnugt um, að holdsveikralæknirinn, prófessor Sæmundur Bjarnhjeðinsson, telur þetta ófært, og hann kveðst hafa talað um þetta við kunna sjerfræðinga í Danmörku og Noregi, og þeir sjeu á sama máli. — Annars er till. þessi mjög hóflega orðuð, og ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta mál til athugunar.