05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

147. mál, holdsveikraspítalinn

Sigurður Eggerz:

Jeg er ákveðinn á móti þessari till., vil ekki vísa henni til stjórnarinnar, heldur fella hana.

Þegar 25 ára afmæli Oddfellowreglunnar var haldið, leitaði dr. Petrus Bayer samþykkis stjórnarinnar til þess, að breytingar yrðu gerðar á gjafabrjefi fyrir holdsveikraspítalann, sem heimiluðu, að efri hæðin yrði notuð sem gamalmennahæli. Jeg svaraði þessari málaleitun þá ekki strax, með því að jeg vildi leita álits lækna um málið. Landlæknir mælti, ef jeg man rjett, með málaleituninni, en holdsveikralæknirinn lagði ákveðið á móti henni. Og fjelst jeg á hans skoðun, enda var jeg altaf málinu persónulega mótfallinn.

Um líkt leyti reit prófessor Ehlers um málið í erlend blöð og rjeð alvarlega frá því, að þessi ráðstöfun yrði gerð. Í sama streng hafa aðrir merkir sjerfræðingar tekið, eftir því sem prófessor Sæmundur Bjarnhjeðinsson hefir skýrt mjer frá. Annars var mjer að öllu leyti nægur dómur okkar eigin sjerfræðings, sem jeg ber fult traust til.

Mjer virðist það allmikil harðleikni í garð gamalmenna, að ætla þeim bústað á efri árum á stað, þar sem hætta gæti stafað af þessari veiki fyrir þá.