05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3264)

147. mál, holdsveikraspítalinn

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er eins og álög á hæstv. forsrh. (JM), að ef hann sjer glitta í embættismisfellur hjá einhverjum embættismanni hjer á landi, þá fer hann strax í herklæði og grípur sverð sitt til að verjast. Hann sýnist velja sjer það óþakkláta hlutverk að vera hlífiskjöldur þeirra, sem að einhverju leyti standa höllum fæti í starfi sínu gagnvart þjóðfjelaginu. Röksemdaleiðsla hans er furðuleg. Um leið og hann ver það, að sjúklingar sjeu hafðir úti um land alt, ályktar hann, að gamalmenni muni sýkjast, ef þeim er komið fyrir í spítalanum. Reynir hann svo með fúkyrðum að verja aðgerðir og dóm holdsveikralæknisins. En um þann mann hefi jeg ekkert sagt, nema þann sannleika, sem ekki verður hrakinn, að hann hefir marga af þeim sjúklingum, sem hann á að gæta, innan um heilbrigt fólk, en meinar hinsvegar að nota hið auða húsrúm til gagns fyrir þjóðfjelagið.