02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1925

Forseti (BSv):

Þá er komið að tveim liðum, sem nokkuð hafa orkað tvímælis, og get jeg ekki komist hjá því að fara um þá nokkrum orðum og fella úrskurð um, hvort þeir megi koma undir atkvæði eða ekki. Hefir margt verið rætt um þessa tvo liði frá formsins og laganna sjónarmiði, og eru mönnum rök þau í fersku minni, sem færð hafa verið á báðar hliðar. Það hefir komið berlega fram, að hjer er um allmikið vafaatriði að ræða, þar sem ýmsir lögfræðingar í hv. deild og aðrir fleiri hafa haldið fram gagnstæðum skoðunum og skarplega athuguð rök verið borin fram með og móti frá beggja hálfu. Einnig hefir umsagnar manna utan þings verið leitað, eftir því sem fram hefir komið í umræðunum, þar á meðal tveggja háskólakennara í lögum, og hafa þeir báðir látið þá skoðun í ljós um fyrra liðinn, annar afdráttarlaust, að hann sæi ekkert til fyrirstöðu því, að hann mætti koma undir atkvæði, en hinn nokkuð óákveðnari „tilhneiging“ í líka átt. En það er ekki einhlítt að leita út fyrir þingið í þessu efni, því að einnig þar eru skoðanir manna skiftar. Jeg hefi fyrir mjer skoðun tveggja löglærðra háskólakennara, hefi átt tal við annan en lesið á prenti eftir hinn, og er þeirra skoðun gagnstæð hinna tveggja, er áður var frá skýrt. Jeg verð því að hlíta minni eigin skoðun, sem eðlilegt er, þegar svo stenst í odda milli manna um þetta atriði. Jeg verð hjer að tala að nokkru leyti í einu um báða liðina, því að margt af því, sem jeg verð að segja um fyrra liðinn, gildir einnig fyrir þann hinn síðara.

Það mun vera alment viðurkent, að fjárveitingarvaldið geti ekki breytt lögum, sem hið almenna löggjafarvald hefir sett, enda mundi það raska mjög þeim grundvelli, er lögin byggja á, og koma þannig í bága við anda stjórnarskrárinnar. Um þetta mun varla vera deilt, en á hinn bóginn hefir því verið haldið fram, að varla felist lagabreytingar í þessum tillögum. Hefir því verið haldið fram um 4. liðinn, sem ræðir um, að alþingisforsetar megi ákveða í sparnaðarskyni, að niður skuli falla prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna, að þar komi skýrt fram, að ekki sje að ræða um afnám þess atriðis í þingsköpum Alþingis, sem ræðir um þetta. Það sje í gildi eftir sem áður, en þessi athugasemd, verði hún samþykt, gildi einungis fyrir það eina ár, sem fjárlögin fyrir 1925 ná til. Það er að vísu rjett, að þá væri ekki um beint afnám laga að ræða í fjárlögum. En hjer ræðir um að upphefja gildandi lagaákvæði, og þó að vísu aðeins í eitt ár. En þá mætti upphefja ákvæði gildandi laga með fjárlagaákvæðum ár eftir ár, með því að bægja þeim frá að koma til framkvæmda. Nú er það fyrirskipað alveg skýlaust í þingsköpum, að Alþingistíðindin skuli prentuð, og er mjög ríkt kveðið að orði um það. í 52. gr. 1. málsgr. segir svo: „Umræður þingdeildanna og sameinaðs Alþingis, ásamt þingskjölum og atkvæðagreiðslum um þau, skal prenta í Alþingistíðindunum.“ Og enn segir í næstu málsgr.: „í Alþingistíðindunum má ekkert undan fella, það er þar á að standa og fram hefir komið í þinginu og gerðabækur þingsins og handrit af umræðum í þinginu bera með sjer.“ Nú er því að vísu haldið fram, að svo megi líta á, að frestað væri aðeins um sinn prentun umræðupartsins, hún væri dregin en ekki feld niður. En eftir hljóðan orðanna í tillögunni á prentunin beint að falla niður, enda vansjeður sparnaður að því að fresta prentuninni í eitt ár. Má og telja það koma í bága við þingsköpin að draga í eitt ár að prenta nokkurn hluta Alþingistíðindanna, enda hefir það ekki komið fyrir síðan 1845, er þau voru prentuð í fyrsta sinn. Það er tilætlunin með prentun Alþingistíðindanna og hlýtur að vera ósk og krafa þjóðarinnar, að þau komi út svo fljótt sem auðið er, og með bættum tækjum til prentunar og greiðari samgöngum ætti að líða æ skemra þangað til þau koma fyrir almenningssjónir, og er þetta vafalaust í samræmi við tilgang laganna.

Hjer virðist einnig koma glögglega fram munurinn á fjárveitingarvaldinu og hinu almenna löggjafarvaldi. Þó að farið væri að beita fjárveitingarvaldinu til þess að afstýra framkvæmd gildandi laga, þá er það þeim mun máttarminna en hið almenna löggjafarvald, að það gæti ekki komið í veg fyrir hana nema eitt ár í senn, en það gæti þá ítrekað það ár eftir ár, eins lengi og það vildi, og væri þá framkvæmd gildandi laga komið á þennan hátt fyrir kattarnef. Gildir þessi röksemdaleiðsla bæði um þennan lið og alment.

Það má vera, að út af þessu hafi verið brugðið áður, með því að ákveða í fjárlögum fyrir 1920 og 1921, að hækka skyldi meðlag með sjúklingum á Kleppi, sem fastákveðið er í lögunum um geðveikrahælið frá 1905. Var þetta gert á þingi 1919, og kveðið þannig á í stjórnarfrv. Það er rjett, að þetta ákvæði fjárlaganna fyrir 1920 og 1921 kemur í bága við gildandi lög. En það má fullkomlega líta svo á, að þetta hafi í athugaleysi gert verið, enda finn jeg eigi, að frekara hafi verið um það rætt, og verður ekki sjeð, að það hafi þá sætt mótmælum, meðan frv. var til umræðu, eins og menn hafi ekki tekið eftir þessu. En eins og tekið hefir verið fram í dag og sýna má í þingtíðindunum 1923, hefir framsögumaður fjárveitinganefndar þá bent á þetta sem lögleysu og talið, að þeir, sem hlut ættu að máli, væru ekki skyldir að hlíta þessu ákvæði fjárlaganna. Sami skilningur kemur fram í Stjórnlagafræði eftir háskólakennara einn í lögum, segir þar, að ekki sje rjett að gera breytingu á gildandi lögum með fjárlögum og stranglega varað við því.

Um fyrri tillöguna, sem hjer ræðir um, kemur það enn til greina, að hún mundi tæplega geta gengið fram, þar sem hún kveður á um atriði, sem þegar hefir verið felt hjer í hv. deild, sem er frv. til laga um að fella niður prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna, þó að tillagan nái að vísu ekki nema til eins þings, sem leiðir af því, að um lengri tíma getur ekki verið að ræða í lögum, sem gilda ekki nema um eitt ár.

Um það, hvort síðari tillagan fari í bága við lög um stofnun landhelgissjóðs Íslands, verð jeg einnig að fara nokkrum orðum, þó að málið hafi verið rætt svo mikið, að jeg muni fátt annað segja en einhver kann að hafa sagt áður. Sem kunnugt er, voru þau lög sett fyrst 1913, og tekur 4. gr. fram um tilgang þeirra, hversu sjóðnum skuli varið. Þar segir svo:

„Sjóðnum skal á sínum tíma varið til eflingar landhelgisvörnum Íslands fyrir ólöglegum veiðum, og ákveður löggjafarvaldið, hvenær hann tekur til starfa og hve miklu af fje hans skal til þessara varna varið.“

Samkvæmt þessari grein í upphaflegu lögunum mætti verja fjenu á þann hátt, er tillagan fer fram á, en þó virðist það eiga að vera ákveðið af hinu almenna löggjafarvaldi, en ekki af fjárveitingarvaldinu. En þessi 4. gr. er úr gildi numin með breytingu á nefndum lögum frá 1915, og er þar ákveðið, að greinin orðist svo:

„Sjóðnum skal á sínum tíma varið til að koma upp einu eða tveimur nýjum strandgæsluskipum, er notuð verði til að verja landhelgina fyrir ólöglegum veiðum, og ákveður löggjafarvaldið, hvenær sjóðurinn tekur til starfa og hve miklu af fje hans skuli varið til þessara varna.“

Hjer eru sett ákveðnari skilyrði en áður um það, til hvers sjóðnum skuli varið. Tilgangurinn er sá að safna fje til þess að kaupa eitt eða tvö ný strandvarnarskip, áður en tekið sje af fje hans til annars. Nú eru þau skilyrði ekki fyrir hendi, hvorki keypt eitt og því síður tvö ný strandvarnarskip, og þó að gert sje ráð fyrir að leigja gamalt skip, sem er eign einstaks fjelags, þá er það annars eðlis. Hitt er rjett, að þegar þessi skilyrði eru fyrir hendi, má ákveða, hve miklu af fje sjóðsins skuli varið til landhelgisgæslu. En skilyrðin eru þau, að fyrst sje til eitt skip eða tvö, og ný ákvæði fyrir hendi af hálfu löggjafarvaldsins, áður en taka megi fje úr sjóðnum til almennra landvarna. Þetta er skilningur minn. Nú eru komnar fram brtt., er miða að því að koma í framkvæmd sömu hugsun, sem vakað hefir fyrir flm. þessarar tillögu, og einn hv. deildarmaður hefir komið með frv. í sömu átt, og virðist þá þessi hugmynd komin á heppilegri rekspöl og geta gengið fram á fullkomlega löglegan hátt.

Úrskurður minn verður þá á þessa leið:

Sakir þess, að margnefndar tillögur ganga að mínu áliti út fyrir valdsvið fjárveitingarvaldsins, yfir á svið hins almenna löggjafarvalds, og koma þannig í bága við anda stjórnarskrárinnar, mun það verða úrskurður minn, að þeim verði vísað frá.

Nær þetta nú þegar til fyrri tillögunnar undir 3. tölulið, en formsins vegna kveð jeg þennan úrskurð ekki upp um tillöguna undir 4. tölulið, fyrr en greidd hafa verið atkvæði um breytingartillögurnar við hana, og er það fyrir þá sök, að þeir, sem kynnu að vilja hanga fast í lagastafnum, gætu haldið fram, að þær mættu ekki koma undir atkvæði, ef tillögu þeirri hefði verið áður vísað frá, sem þær eiga við. En þá togun laga mætti firrast með því að bera upp brtt. áður en úrskurður er uppkveðinn um aðaltillöguna. En þessar brtt. eru brtt. á þskj. 292, en við hana hefir aftur verið afhent skrifleg brtt., og vil jeg nú leyfa mjer að leita afbrigða um þær báðar.