12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (3297)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Árni Jónsson:

Jeg vil ekki láta það dragast að frelsa samvisku mína í þessu máli, þó að jeg geti hinsvegar búist við, að sumir hv. þm. kunni að telja sparnaðarhug minn nokkuð á villigötum. Jeg skal lýsa skoðun minni í fám orðum, enda býst jeg við því, eftir þeim stuttu kynnum, sem jeg hefi af hv. deildarmönnum, að fleiri langi til að láta ljós sitt skína í þessu máli, ekki síður en öðrum.

Jeg verð að hrella menn með því að draga fjárhagsatriði þessa máls inn í umræðurnar, því að í mínum augum er þetta fyrst og fremst fjárhagsmál. Jeg tel aðalhlutverk þessa þings að reyna að rjetta við fjárhaginn. Að jeg er ekki einn um þá skoðun, sýna þau mörgu sparnaðar frv. og niðurskurðar, sem fram eru komin. En þessi þáltill. stingur nokkuð í stúf við þau frv. Jeg skal aðeins nefna, að flutt hefir verið frv. um afnám sendiherra í Kaupmannahöfn, sem mörgum Íslendingum mun mjög sárt um, og ennfremur frv. um gagngerða breytingu á háskólalögunum, þar sem farið er fram á, að margir starfsbræður þess manns, sem hjer á hlut að máli, verði látnir fara frá þeirri stofnun.

Áður en jeg fjölyrði frekar um málið, skal jeg taka fram, að jeg er sömu skoðunar sem hv. flm. (JakM), að háskólanum sje mikil eftirsjá í þessum manni, því að jeg álít hann einn af glæsilegustu gáfumönnum vorum og bæði sem rithöfund og vísindamann háskólanum til gagns og sóma. En svipað má segja um fleiri þá menn, sem komið hefir til orða að láta víkja sæti sem kennara við háskólann. Svo er um kennarann í hagnýtri sálarfræði. Það eru ekki mörg ár síðan stjarna hans stóð jafnhátt hjer í Reykjavík sem þessa manns nú. Grískudósentinn hefir einnig margt til síns ágætis, og ætti þjóðin að dæma milli þessara þriggja manna, skal jeg láta alveg ósagt, hver þeirra yrði þar efstur. Jeg skal ekki fara út í þann mannjöfnuð, enda skiftir það engu máli í mínum augum.

Þegar menn athuga núverandi fjárhagsástand, sem öllum kemur saman um, að sje mjög bágborið, mun aðalorsökin til þess vera sú, að kröfur vorar hafa vaxið örar en getan til að fullnægja þeim. Ef þjóðin á að geta lifað í þessu landi sem sjálfstæð þjóð og menningarþjóð, verður hún fyrst og fremst að sníða kröfur sínar eftir því, sem landið getur í tje látið. Jeg er ekki mótfallinn því, að kröfurnar vaxi, en vjer verðum að sníða oss stakk eftir vexti vorum, en ekki stærri og auðugri nágranna, því að þá er hætt við, að sá stakkur verði of stór. Það eru ekki mörg ár síðan talsverð togstreita varð hjer á þingi um laun embættismanna, og þótti ein stjett þá ganga nokkuð freklega fram í að ota sínum tota, og var þá stöðugt vitnað í, hvaða laun stjettarbræður þeirra í öðrum löndum hefðu. Þessir menn ljetu í ljós, að ef þeir fengju ekki sínu máli framgengt, væri ekki annað fyrir höndum en að þeir yrðu að víkja hjeðan. En það er annað mikilsvert atriði í þessu máli, sem þá var alveg látið liggja niðri, hversu mikið stjettarbræður íslenskra bænda og annara gjaldþegna í öðrum löndum bæru úr býtum. Ef farið væri út í þann samanburð, hygg jeg, að vjer Íslendingar þyrftum ekki að bera kinnroða fyrir, hvernig oss hefir farist við starfsmenn landsins. Hvað Danir eða Norðmenn hafa efni á að borga mönnum í sambærilegum stöðum, getur ekki komið við oss, nema vjer sníðum beinlínis launalöggjöf vora eftir þeim.

Jeg tel hjer vera farið út á mjög óheppilega braut, þar sem tekinn er einn embættismaður út úr sínum flokki og skotið til Alþingis að hækka laun hans. Það vill alt af brenna við, að Alþingi er fyrst og fremst pólitísk stofnun, og fari þetta að tíðkast, er hætt við, að meirihlutanum verði gjarnt til að ota skjólstæðingum sínum fram. Jeg gæti hugsað mjer, að þetta kæmist út í þær öfgar, að farið væri að meta einstaka starfsmenn eftir skoðunum þeirra, og er þá hætt við, að minnihlutinn þættist bera skarðan hlut frá borði.

Þó að einhverjir aðrir sjái sjer fært að bjóða þessum ágæta manni hærri laun en hann fær hjer, getum vjer ekki hlaupið eftir því. Þó að ekki verði sagt nema gott eitt um þennan mann, munu þó vera til fleiri menn í opinberum stöðum, sem útlendingar mundu áreiðanlega líta hýru auga, ef þeir ættu kost á að fá þá. Mætti sjálfsagt nefna nokkur nöfn þessu til sönnunar.

Þó að þessi maður fari til frændþjóðar vorrar, Norðmanna, tel jeg það ekki sjerstaklega mikið sorgarefni fyrir oss. Það hefir lengstaf verið viðleitni vor að breiða út menningu vora með öðrum þjóðum, og býst jeg ekki við, að vjer eigum völ á heppilegri fulltrúa í Noregi, og jeg er í engum vafa um, að hann muni rækja starf sitt þar þjóðinni til gagns og sóma.

Það er eitt atriði í þessu máli, sem jeg vildi gjarnan fá nánari upplýsingar um. Hv. flm. (JakM) mintist ekki á það í ræðu sinni, hver launakjör þessum manni væru boðin í Noregi. Jeg hefi heyrt, að þau væru 4000 kr. hærri en þau, sem hann hefir nú. En það má ekki líta á upphæðina eina, heldur hitt, hvað keypt verður fyrir hverja krónu. Jeg er ókunnugur í Kristjaníu, en kunnugur maður hefir skýrt mjer frá, að þessi kjör væru ekki mikið betri, svo miklu dýrara er að lifa þar en hjer.

Jeg fæ ekki sjeð, að vjer getum sætt oss við að halda einskonar uppboð á bestu mönnum vorum, á hvaða sviði sem er. Ef vjer ættum að fara á slíkt uppboðsþing, hygg jeg, að vjer mundum verða neyddir til að slá útlendingum mörg af glæsilegustu númerunum. Vjer verðum að halda oss við fasta prísa, og þeir verða að vera íslenskir.

Einmitt á þessum krepputímum, þegar grípa verður til þeirra örþrifaráða að gera hvern mann í landinu ófrjálsan um það, hvað hann etur og drekkur og klæðist í, er farið fram á að halda uppboð á einum af mætustu mönnum þjóðarinnar. Ef hann er sjálfur samþykkur þessu, tel jeg virðing hans hafa beðið alvarlegan hnekki. Nú er gengið svo nálægt mönnum með skatta og önnur gjöld, að lengra verður varla komist, og ef kaupa á bestu sonu þjóðarinnar með þeim blóðpeningum til þess að gera skyldu sína gagnvart móður sinni, við hverju mun þá mega búast af þeim, sem lakari eru?