12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Bernharð Stefánsson:

Af því að það fyrsta, sem jeg lagði hjer til mála, var það að afnema embætti hjer við háskólann, en jeg er nú ráðinn í að stuðla að því, að þessum háskólakennara verði gerður kostur á því að starfa hjer áfram, og sumum kann að þykja sem hjer kenni ósamræmi, þá þykir mjer hlýða að gera stutta grein fyrir afstöðu minni, og mun það sjást, að hjer er ekki um ósamræmi að ræða.

Jeg gat þess, þegar rætt var um kennarann í hagnýtri sálarfræði, að jeg áliti, að við Íslendingar hefðum ekki efni á að halda uppi háskóla í þeim stíl, sem tíðkast í auðugri löndum, þar sem kend eru allskonar vísindi. Við yrðum að halda okkur við þær 3 greinir, sem þarf til nauðsynlegs embættisundirbúnings, og íslensk og norræn fræði. Jeg tók það fram, að einmitt í þeim fræðum ættum við að hafa kensluna sem fullkomnasta, svo að við í þeirri grein a. m. k. stæðum fyllilega jafnfætis háskólum annara þjóða, og þó nokkru framar. Jeg álít, að hver þjóð, sem vill vera menningarþjóð, verði að telja það skyldu sína að geta lagt einhvern skerf til heimsmenningarinnar. Og þegar við athugum það, hvað við Íslendingar getum til hennar lagt, þá verður sá uppi, að það sje fátt. Jeg hugsa, að eins og enn horfir við, þá sje varla um annað að gera en að þau fræði, sem við á liðnum tíma höfum staðið fremstir í, þ. e. norræn fræði. Í þeim fræðum stöndum við jafn vel að vígi öðrum þjóðum, nema betur sje. En í öllu öðru svo miklu ver, að um samkepni getur ekki verið að ræða. Nú heyri jeg öllum koma saman um það, að þessi maður, sem nú kennir íslensk fræði við háskólann, standi svo vel í sinni stöðu, að ekki muni völ á betri eða jafngóðum. Jeg álít, að maður, sem svo vel skipar þessa stöðu, heldur uppi kenslu og vísindastarfsemi á þessu sviði, því einu sviði, þar sem íslensk vísindi geta skarað fram úr, sje okkur svo mikils virði, að við verðum að reyna að halda í hann og sleppa honum ekki fyrir litla fjárupphæð.

Jeg held það hafi verið hv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem talaði um það, að ef þessi þáltill. yrði samþykt, þá væri hjer skapað hættulegt fordæmi. Jeg álít, að hjer standi svo sjerstaklega á, að fordæmi sje ekki skapað með þessu.

Því miður held jeg, að því sje svo varið, að erlendar þjóðir sækist ekki eftir því að fá menn hjeðan í virðingarstöður hjá sjer. Það mun ekki koma oft fyrir, en sömu ástæður yrðu að vera fyrir hendi, ef þetta ætti að teljast fordæmi. Jeg álít, að þó einhver annar háskólakennari vilji fara fram á sömu laun og Nordal mundi eftir þessu fá, þá komi það ekki til mála, nema eins stæði á með hann, að önnur þjóð byði honum betri kjör og við mættum ekki missa hann.

Eitt er það í þessu máli, sem vert er að leggja ríka áherslu á. Það hefir verið tekið fram, að þessi maður væri ekki að öllu leyti tapaður landinu, þó hann flyttist til útlanda. Jeg veit, að margir Íslendingar hafa unnið þjóð sinni gagn og sóma, þó þeir dveldu erlendis. Og mundi svo einnig verða hvað snertir prófessor Sigurð Nordal. En að einu leyti yrði hjer um algert tap að ræða. Hans hlyti að missa við sem rithöfundar fyrir íslenska alþýðu. En líklega á enginn núlifandi rithöfundur meiri ítök meðal íslenskrar alþýðu en hann.

Sá maður, sem vinnur fult verk, á skilið að fá full laun, og sá, sem hálft verk vinnur, hálf laun. En þá er líka rjett, að sá, sem vinnur tvöfalt verk, fái tvöföld laun. Nú vinnur prófessorinn fult verk við háskólann. En hann er líka afkastamikill rithöfundur, vinnur á því sviði eins mikið og betra verk en sumir þeir, sem hafa styrk til ritstarfa og lifa af honum. Mjer virðist því rjett að semja svo við hann, að laun hans sjeu aukin sæmilega, svo hann sjái sjer fært að halda áfram að rita og starfa fyrir þjóð vora, en verði ekki neyddur til þess að ganga í þjónustu erlendrar þjóðar.

Það er mikið talað um sparnað nú. En sparnaður hefir fyr ráðið hjer á þingi, ekki síst á fyrstu þingum eftir að vjer vorum nýbúnir að fá innlenda fjárstjórn. Þó kom það þá fyrir, að mönnum var veittur styrkur til vísindastarfsemi, svo sem Þorvaldi Thoroddsen, og mun enginn óska nú, að það hefði verið látið ógert. Nú veit jeg, að einhver segir, að Þ. Th. hafi dvalið í öðru landi, og það er líka alveg rjett. En starfi hans var líka þannig háttað, að þótt hann viðaði til rannsókna sinna hjer á landi, þá gat hann einmitt unnið betur úr þeim erlendis en hjer.

En vísindastarfi prófessors Sigurðar Nordals er svo háttað, að hvergi í heimi er eins góð aðstaða til þess að vinna að henni og hjer heima.

Jeg ætla ekki að gefa mig í þær deilur, sem hjer hafa orðið. En jeg hefi hjer lýst minni afstöðu til málsins og mun greiða till. atkv. mitt.