12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil taka undir með hæstv. forsrh. (SE) um það, að þetta mál hafi komist út á óheppilega braut með þeim deilum, sem hjer hafa orðið. Og jeg beini því til hv. flm., að það sje þeirra sök, að hafa ekki búið málið betur undir. Annaðhvort á slíkt mál ekki að koma fram, eða það sje trygt, að ekki þurfi slíkur styr að standa um það. En ástæðan til þess, að jeg stend upp, er sú, að jeg vil gera grein fyrir afstöðu minni til till.

Jeg hefi sýnt það á þessu þingi, og vonast eftir að geta sýnt það ekki síður á næstu þingum, að jeg vil ganga hart fram í því að fækka starfsmönnum þessa lands á sem allra flestum sviðum, vegna þess erfiða fjárhagsástands, sem nú ríkir hjer. En jeg vil minna þingmenn á það, að þessi þjóð hefir fyr átt við erfiðleika að stríða og orðið að leggja hart að sjer. En hún hefir samt altaf gætt eins, sem er hennar heiður og hrósunarefni, að varðveita fornar bókmentir sínar og innlendar fræðaiðkanir. Það eina, sem þjóð vor hefir að hrósa sjer af gagnvart umheiminum. Hjer dreg jeg merkjalínu, hvar skera skuli niður, og hvar ekki. Jeg vil ekki láta sparnaðar- eða íhaldshnífinn skera jafnt hið græna og hið visna.

Mjer dettur í hug að enda þessi orð með frægum orðum, sem höfð eru eftir Þórði kakala, eftir Örlygsstaðafund: Fleiru slátra Íslendingar en baulum einum, ef þetta er satt.

Jeg segi þetta af því, að tillögu um að fækka starfskröftum á þessu sviði eða hrekja burtu þá menn, sem eru sjálfkjörnir forgangsmenn um iðkun hinna þjóðlegu fræða, koma fram á sömu stundu og hinn ágætasti forvígismaður þeirra fræða fellur í valinn, þjóðskjalavörður dr. Jón Þorkelsson. Ef þetta fær fram að ganga, þá gengur meiri afturhalsalda yfir okkar land en jafnvel á hinum verstu tímum þjóðaræfinnar.