12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Magnús Jónsson:

Það væri ástæða til þess að minnast á ýmislegt, sem hjer hefir verið sagt. Málið lítur ekki út fyrir að vera alveg þrauthugsað, á hvoruga hlið. Jeg heyri nú fyrst, að málinu eigi að vísa til nefndar. Það hefir ekki fyr komið till. um það, en það er eðlilegt og sjálfsagt, að það sje athugað af nefnd.

Allir hv. þm., sem talað hafa um málið, hafa talið æskilegt, að Sigurður Nordal yrði kyr. En þá greinir á um fjárhagsatriði málsins. Og það er ómögulegt að neita því, að í raun og veru er þetta deila um keisarans skegg. Það atriði geta menn ekki gert upp hjer. Það hefir verið sagt, að ekki sje sennilegt, að erlendar þjóðir færu að sækjast eftir prestum eða sýslumönnum hjeðan. En það getur verið um fleiri leiðir að ræða. það er ekki langt síðan, að afburðakennari við mentaskólann gerðist kaupsýslumaður. Ef á að borga manni til að vera hjer kyrrum, enda þó hann ætti að halda áfram samskonar fræðistarfi annarsstaðar, þá er ekki minni ástæða til þess, þegar maðurinn ætlar að yfirgefa það að öðrum kosti alveg. Það má vel búast við því, að meðan ekki er gert betur við starfsmenn ríkisins, þá verði ýmsum fyrir að leita annað, og það munu ekki ætíð verða lakari mennirnir. Það er augljóst, að það muni fleiri gera. Hjer er um fjárhagsatriði að ræða, sem gera verður upp sjer.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir ef til vill átt við það, er hann mintist á að setja málið í nefnd. Það er ómögulegt fyrir þingmenn að gera sjer það atriði nægilega ljóst, án þess að fá álit nefndar. Þá er ekki síður nauðsynlegt að fá að vita tillögur fjárveitinganefndar áður málinu er ráðið til lykta. Ef hæstv. stjórn á nokkuð að geta samið um málið, þá verður hún að hafa ráð á einhverju fje. En jeg álít, að það sje gott, að komið sje í veg fyrir, að stjórnin hafi mikil völd til fjárveitinga milli þinga.

Jeg ætlaði að leggja það til, að málinu væri vísað til nefndar. En nú þarf þess ekki, þar sem flm. hefir gert það sjálfur. En annars álít jeg, af því þetta er till. til þál., en ekki lagafrv., að það sje óþægilegt að ganga nú til atkvæða, áður en nefnd hefir athugað málið, af því þessi atkvgr. verður aðalatkvgr., því einhverjir kynnu að greiða atkvæði nú á annan veg en þeir vildu gert hafa, er nefndin hefir komið með sitt álit. Jeg legg því til, að málinu sje nú vísað til nefndar, en umr. frestað.