22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

92. mál, þegnskylduvinna

Flm. (Magnús Jónsson):

Það getur vel verið, að þetta mál komi aldrei til framkvæmda, að ekkert sýslufjelag vildi nota sjer þá heimild, sem hjer ræðir um. En þá er heldur enginn skaði skeður. Þá hefir þetta verið reynt, og þarf ekki að tefja sig á því aftur. Starf nefndarinnar væri að vísu ónýtt, en það á heldur ekki að kosta svo mikið.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það hagaði alt öðruvísi til suður í löndum, þar sem þegnskylduvinna væri, en hjer. En jeg hefi aldrei heyrt, að nokkur þjóð hafi hætt við herskylduna vegna þess, að hún byggi í norðlægu og erfiðu landi. Jeg get líka hugsað mjer þann möguleika, að sýslufjelög hlaupi undir bagga með þeim, sem erfiðast eiga, t. d. ekkjum. Jeg veit, að þetta mál er hægt að framkvæma, hvar sem er. Allir sjá, hvað hjer er hægt farið af stað. Tuttugu menn í einni sýslu er ekkert stórkostlegt bákn, ef menn fá svo þar að auki að draga vinnuna um þriggja ára skeið. Það gæti verið heppilegt að hafa lengri tímann, sem menn gætu leyst af hendi vinnuna á, jafnvel frá 17 til 25 ára aldurs, sem var tillaga Hermanns Jónassonar, en það verð jeg þó að telja of langt.

Mjer þykir vænt um, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir ekkert á móti því, að þetta mál sje rækilega athugað. En það er einmitt það, sem till. okkar fer fram á. Jeg sje því ekki betur en að ef þessi hv. þm. (JakM) vill láta athuga málið, þá verði hann að samþykkja till. Jeg vona því, að hvernig sem menn annars líta á framkvæmd þessa máls, þá hafi þeir ekki á móti því, að það gangi fram í hv. deild.