22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

92. mál, þegnskylduvinna

Jakob Möller:

Jeg skal ekki lengja umræður úr þessu, en vildi aðeins benda hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á það, að hvað sem hann segir um herþjónustu annara landa, þá er það víst, að herþjónustan dregur úr föðurlandsást, eins og skólaskyldan dregur úr fróðleiksfýsn, og mun jeg ekki vera einn um þá skoðun.

Hv. sami þm. (ÁÁ) sagði ennfremur, að mikinn meirihluta þyrfti til að koma þegnskylduvinnu á í hverju hjeraði. En hverjir skapa þann meirihluta? Ekki mennirnir, sem eiga að vinna, heldur þeir, sem sleppa við það. Ef þetta væri lagt undir atkvæði þeirra manna, er skyldan kemur niður á, þá væri um frjálsa þegnskylduvinnu að ræða, sem jeg gæti verið fylgjandi. (MJ: Hjer er ekki ætlast til neinnar þvingunar.) Hjer er ætlast til, að fólk geti valdboðið hvað öðru, og það óttast jeg í þessu máli.