22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

95. mál, launauppbætur til þriggja yfirfiskimatsmanna

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Það er sjútvn., sem kemur fram með till. þessa, sem er í því fólgin að greiða yfirfiskimatsmönnunum í Reykjavík, á Vestfjörðum og Austfjörðum sömu launauppbót og þeir fengu í fyrra, en gleymdist að setja á fjárlögin 1924. Þetta byggist á fylstu sanngirni, þar sem menn þessir hafa laun í lægsta lagi, en miklum skyldum að gegna, og eru svo ómissandi, að ekki má hrekja þá úr stöðum sínum vegna óviðunandi launakjara. Yfirfiskimatsmaðurinn í Reykjavík hefir nú 3000 kr. laun á ári og hinir 2400 kr. hvor um sig. Hjer er farið fram á 1000 kr. launauppbót til hins fyrsttalda og 600 kr. til hvors hinna. Fiskimatsmannsins í Vestmannaeyjum er ekki getið í till., af þeirri ástæðu, að starf hans og starfssvið er miklu minna en hinna. Uppbótin í fyrra náði ekki til yfirfiskimatsmannsins á Austfjörðum, af einhverri vangá, en sjálfsagt er, að hann njóti sömu kjara og stjettarbræður hans, og það því fremur, er hann er miklum störfum hlaðinn og gegnir þeim prýðilega. Jeg vona, að þingið bregðist vel við till. þessari. Yfirfiskimatsmennirnir hafa treyst því, að þeir fengju þessa uppbót, og mundu ella vera búnir að segja upp stöðum sínum, ef þeir ekki treystu því, að þessi litla uppbót yrði veitt. Jeg tel það alveg ósamboðið þinginu að hreyfa mótmælum gegn þessari tillögu.