22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

74. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Eins og sjest af nál., leggur fjvn. til, að frv. verði samþykt óbreytt, en gerir þó smávegis athugasemdir við einstöku liði.

Á þinginu í fyrra fjekk fjvn. aðkast fyrir það, að hún átti hlut að því, að fjáraukalög komu fram. Hún vildi, að sem allra minstu fje væri eytt án heimildar í fjárlögum, þó að hún játi, að það geti stundum verið óumflýjanlega nauðsynlegt. Á þinginu 1922 komu engin fjáraukalög fyrir það ár, en þó greiddi stjórnin yfir 200 þús. kr. utan fjárlaga. Það kann að vera, að það hlaðist altaf mikið utan á fjáraukalagafrv., sem koma fram í þinginu, og því hafi þetta verið heppilegra. En þó vill nefndin taka fram, að stjórnin ætti sem allra sjaldnast, og helst aldrei, að greiða fje í heimildarleysi, heldur fresta þeim greiðslum þangað til þeim verður komið í fjáraukalög.

Í þessu frv. eru aðeins 2 liðir, sem nefndin vill gera sjerstaka athugasemd við, auk þeirrar heildaraðfinslu, að ekkert hefði átt að greiða.

Fyrri liðurinn er greiðsla til landlæknis upp í ferðakostnað, 1225 kr. Svo stendur á um þennan lið, að þá sat berklavarnanefndin að störfum, og fóru þá 2 nefndarmenn til útlanda, landlæknir og núverandi bæjarlæknir í Reykjavík, og eru þetta eftirstöðvar af ferðakostnaði þeirra til Svíþjóðar. Ástæður stjórnarinnar fyrir þessari greiðslu eru þær, að þáverandi dómsmálaráðherra hafi veitt ádrátt um, að þetta skyldi endurgreitt úr ríkissjóði, og í öðru lagi hafi þetta verið borið undir fjárveitinganefndir þingsins og þær ekki lagt á móti greiðslunni. Þetta telur fjvn. einskisnýta heimild. En vegna þess, að hjer virðist engin stjórn vera til andsvara, skal jeg geta þess, henni til málsbóta, að töluverð ástæða virtist vera til þess, að landlæknir færi þessa för. Þá var sem sje allsherjarberklalæknafundur fyrir Norðurlönd, og sótti landlæknir hann af hálfu nefndarinnar. Heilsuhælisfjelagið hafði lofað honum einhverri upphæð í ferðakostnað, en þetta voru eftirstöðvarnar. Hafa þær staðið þangað til nú nýlega, að upphæðin var greidd, en stöðugt verið ítrekað af landlækni um greiðslu. Þó að fjvn. telji stjórnina hafa brostið heimild til þessarar greiðslu, leggur hún þó ekki til, að upphæðin verði endurgreidd, en gerir þessa athugasemd stjórninni til eftirbreytni síðar.

Hinn liðurinn, sem nefndin víkur að, er skrifstofukostnaður húsameistara ríkisins. Á þingi 1922 var aðstoðarmaður hans feldur af fjárlögum. En í fjáraukalög fyrir 1922 setur stjórnin án heimildar skrifstofukostnað húsameistara, kr. 2549,28, en nú í þessum fjáraukalögum er sá liður kominn upp í kr. 5780,11. Með því að fella niður laun aðstoðarmanns af fjárlögum hefir þingið látið það ótvírætt í ljós, að það telji enga þörf hans. Að vísu hefir fjvn. fengið skýrslu frá húsameistara ríkisins, sem sýnir, að störf hans eru feikilega mikil. En nefndin álítur, að mikið af þessum störfum sje ekki beinlínis í þarfir ríkisins og þannig vaxin, að ríkissjóði beri engin skylda til að kosta þau, heldur þeim, sem þar eiga hlut að máli. Það eru aðallega uppdrættir að barnaskólum, fimleikahúsum, læknisbústöðum og þessháttar, sem ekki hefir áður tíðkast, að ríkið kostaði. Það er víst, að í þessum störfum liggur meira fje en ríkissjóður hefir greitt í skrifstofukostnað, og ef það verður innheimt hjá rjettum aðiljum, ætti það að hrökkva fyrir honum. Nefndin telur enga þörf á að greiða lengur aðstoðarmanni, þar sem nú hefir verið unnið að því, sem brýnust þörf var á, og meira ætti ekki að vera eftir en húsameistari getur annað einn, Nefndin telur þessa greiðslu því óþarfa, jafnframt því, sem heimild vantar fyrir henni. Jeg skal þó taka það fram, að mjer hefir verið sagt alveg nýlega, að búast megi við, að Landsbankinn endurgreiði þessa upphæð, og mun eiga að skilja þetta svo, að uppdrættirnir að Landsbankahúsinu hafi aukið svo störf húsameistara, að hann hafi ekki getað verið án aðstoðarmanns. Ef nefndinni hefði verið kunnugt um þetta, mundi hún ekki hafa gert athugasemd við þennan lið.

Mjer hafði verið falið af fjvn. að bera upp fyrirspurn fyrir hæstv. stjórn, en jeg veit ekki hvort unt er að gera það eins og nú stendur. Hjer virðist enginn vera til andsvara, stólarnir auðir, eins og vjer sjeum nú stjórnarlausir, og tel jeg því rjett að geyma þessa fyrirspurn til 3. umr. Hún snertir erindi, sem legið hefir fyrir fjvn. og ætti að vera tekið upp í fjáraukalög fyrir 1924. Það mun því rjettast að fresta henni til 3. umr., ef þá kynni einhver að vera til andsvara. Það er leitt, að svo skuli takast til, að vjer sjeum eins og stjórnlausir nú, en vonandi raknar úr því síðar.