12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3343)

98. mál, gullkaup til seðlatryggingar

Fjármálaráðherra (JP):

Þessi till. er bygð á þeim misskilningi, að það losni eitthvað af gullforða Íslandsbanka á þessu ári. Í októberlok næstkomandi má seðlamergð bankans ekki fara fram úr 6 miljónum kr. En með því að málmforði bankans eftir lögum frá 1905 á að vera 37½% eða 3/8 af seðlaupphæðinni, er gull það, sem bankinn hefir í vörslum sínum — 2¼ miljón kr. — aðeins hæfileg trygging fyrir þeim seðlum, sem í umferð mega vera. Það er því ekkert gull afgangs, og bankanum er ekki heimilt að láta neitt af hendi, nema þá að útvega í þess stað aðra tryggingu, sem honum er heimilt að hafa alt að ¼ hluta. Að bankinn hefir nú ekki tryggingu að baki nema sem svarar 6 miljónum kr., stafar af því, að honum varð auðvitað fyrst fyrir, er að krepti, að lóga inneignum sínum í erlendum bönkum, en eftir að þær, sem námu ¼ af tryggingunni, voru burtu teknar, þá var um leið fyrir það bygt, að gull losnaði, þótt seðlafúlgan minkaði úr 8 milj. niður í 6 milj. kr.

Jeg skal svo ekki fara út í önnur atriði viðvíkjandi útgáfu nýrra seðla, þar sem svo er áliðið fundartíma. En jeg skal aðeins enda með því, að jeg veit satt að segja ekki, hvað hv. deild vildi gera með því að samþ. slíka till., þar sem stjórnin, þrátt fyrir það, gæti ekki framfylgt henni.