12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3344)

98. mál, gullkaup til seðlatryggingar

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Þessar upplýsingar, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú komið með, eru allsendis nýjar fyrir mig, og jeg býst við, að svo megi segja um fleiri. Jeg hefi til þessa litið svo á, að bankinn hafi átt að hafa alla sína seðla trygða með gulli að 3/8, eftir lögunum frá 1905, og í þá áttina benda líka lögin frá 1921. Að því er snertir þær inneignir í erlendum bönkum, sem hæstv. fjrh. (JÞ) kveður síðan hafa verið fargað, en til hafi verið 1921, þá vil jeg geta þess, að mjer þykir næsta ólíklegt, að þær hafi getað numið 1/4 af málmforðanum, sem þá átti að vera nokkuð á fjórðu milj. kr., af því að seðlar voru þá í umferð fyrir meira en 9 milj., og einkum þó er ólíklegt, að svo hafi verið, er taka varð enska lánið handa honum til lúkningar útlendum skuldum og til yfirfærslu fjár. Hitt þykir mjer trúlegra, að inneignin í erlendum bönkum hafi þá verið talsvert minni en 1/4 áskilins málmforða, og hefði bankinn þá, eftir lögunum frá 1905, átt að hafa þeim mun meira af gullinu. Annars er auðvitað mál, að ef ekkert er nú laust af gullinu, laust úr seðlatryggingu, þá getur stjórnin ekki heldur keypt það. Samt tel jeg rjett að samþ. þessa till., því að hún er þá áminning um það, að gullið verði keypt, þegar er það losnar. Annars verð jeg að endurtaka það, að næsta undarlegt er, að þetta gulltryggingarmál hefir ekki verið upplýst betur á undanförnum þingum, einkum á síðasta þingi, þegar þá er vitað, að gullið var ekki geymt hjer á staðnum og auk þess líklega miklu minna en það átti að vera.