12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3347)

98. mál, gullkaup til seðlatryggingar

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það er enganveginn rjett hjá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að 4. gr. bankalaganna frá 1921 gefi nokkra bendingu um það, að til þess hafi verið ætlast, að gullforði bankans yrði minni en 37½ af seðlum í umferð, heldur voru þær 6 miljónir kr., sem greinin miðar við, settar sem hámark þeirrar seðlafúlgu, sem bankinn mætti hafa úti, án þess að greiða aukagjald.

Hinsvegar er augljóst, að ekkert þýðir að rekast í þessu ef gullið er ekkert til, svo sem upplýst hefir verið af hæstv. fjrh. (JÞ). En það eru alveg spánnýjar upplýsingar. Allir hafa búist við því, að eitthvað af gullforða bankans væri laust úr tryggingu, þar sem allir seðlar hans áttu að vera gulltrygðir að 3/8, og þeir voru nálægt 9 milj. kr., þegar bankalögin komu út 1921. Menn vissu ekki áður, nema ef til vill þeir, sem handgengnir voru bankanum, að hann ætti 1921 nokkrar verulegar inneignir í útlendum bönkum, sem komið gæti gegn ¼ gulltryggingarinnar. Hitt var kunnugt, að á honum hvíldu skuldir við erlenda banka, og ekki síst þeirra vegna var enska lánið tekið.

En til þess nú að ljetta þeim róðurinn, sem þurfa að skifta sjer milli dagskrárinnar frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og till., leyfi jeg mjer að óska þess, að málið verði tekið út af dagskrá í bili. til frekari athugunar.