25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

129. mál, klæðaverksmiðja

Sveinn Ólafsson:

Þetta mál sem hjer er um að ræða er óneitanlega stórt og víðtækt, og má sannarlega ekki kasta höndunum að því að afgreiða það.

Jeg tók eftir því hjá hv. flm. (ÞórJ), þótt jeg heyrði annars illa til hans, að hann lýsti samhygð sinni með brtt. á þskj. 377. En það var einmitt sú brtt., sem kom mjer til þess að flytja brtt. á þskj. 421. Mjer þykir tekið nokkuð djúpt í árinni með till. 377, þar sem gert er ráð fyrir því, að væntanleg nefnd ráði stað og starfstilhögun hinnar fyrirhuguðu verksmiðju. Mjer finst hjer of mikið átt undir vali, sem annars er ekki kunnugt um, hvernig falla muni. Jeg hefi því leyft mjer að leggja það til, að í stað orðsins „ákveði“ í 1. og 2. lið brtt. á þskj. 377 komi „áætla“. Þessi nefnd verður vitanlega að miða útreikninga sína við einhvern vissan stað og staðhætti, og það getur hún gert, þótt sá staður sje ekki þar með sjálfsagður að nota. En mjer finst of mikið að fá nefndinni það vald í hendur, sem Alþingi ætti sjálft að hafa, ef til kemur.

Um till. sjálfa verð jeg að öðru leyti að segja það, að mjer virðist hún fremur bera vott um fljótræði og kapp, heldur en hyggindi, sem í hag koma fyrir þjóðfjelagið. Á þetta bendir greinargerðin ótvírætt. Óneitanlega er aukinn ullariðnaður einna sjálfsagðasta leiðin til þess að rjetta við erfiðan efnahag þjóðarinnar, og þá fyrst og fremst heimilisiðnaður, bæði við sjó og í sveitum. Stóriðjurekstur á þessu sviði er ekki aðeins óreyndur og áhættusamur, heldur getur auk þess haft lamandi áhrif á heimilisiðnaðinn.

Fyrsta sporið í ullariðjunni hjer á landi á ekki að vera dúkagerð til útflutnings, heldur til þess að fullnægja dúkaþörf landsbúa. Og það er með öllu ósannað mál, að ein stór dúkaverksmiðja hjer í Reykjavík fullnægi eins vel þeirri þörf og fyrirvinnu heimilisiðnaðarins eins og fleiri og minni verksmiðjur og kembivjelar. Auk þess er hjer á margt að líta, sem er næsta afdrifaríkt og ákvarðandi fyrir slíkt fyrirtæki sem þetta. Og þar er staðarákvörðunin efst á blaði.

Vafalaust hafa aðalforkólfar þessarar verksmiðjuhugmyndar hugsað sjer, að hún skyldi standa í Reykjavík, eða þar sem hún gæti orðið bæjarfjelaginu stuðningur og atvinnubót. Og þetta er mjög eðlilegt, þegar á málið er litið frá sjónarmiði bæjarbúa og þeirra, sem vænta sjer einhvers frama eða álitlegrar stöðu af fyrirtækinu. En sennilega líta aðrir landsbúar nokkuð annan veg á þetta.

Alþjóðarfyrirtækin eiga undir högg að sækja hjer í höfuðstaðnum. Þau eru gerð að mjólkurkúm fyrir bæinn, þegar mögulegt er. Ljós vottur þessa er Samband íslenskra samvinnufjelaga, Eimskipafjelag Íslands og landsverslunin. Alþingi hefir átt í baráttu og á í baráttu um að verja þessar stofnanir fyrir ásælni bæjarins, og það er augljóst, að það getur ekki varið þær nema að nokkru leyti. Bærinn liggur á þeim eins og mara, þótt Alþingi geti takmarkað að nokkru álagningu aukaútsvara á þær. Hafnargjöld, afgreiðslugjöld, húsaleiga og vinna er hjer í afarverði, og þetta bitnar á stofnunum þessum og þeim, sem við þær skifta. Dýrtíð er hjer í algleymingi, þvínær á öllum sviðum. Hásetakaup hjer er um 300 kr. á mánuði, og meira auk heldur, en annarsstaðar er það 150–200 kr.; tímakaup kr. 1,25–2,50, móts við kr. 0,75–1,00 annarsstaðar, o. s. frv. Og alt er þetta í raun og veru ávöxtur af ástandi bæjarins, skuldaþunga hans, taumlausu fjesýslubraski útlendra og innlendra brallkónga og mangara, en eyðslu og iðju leysi þess lausingjalýðs, er í stefnulausri ljettúð veltur um götur þessa bæjar.

Að binda allsherjar dúkaverksmiðju við Reykjavík er því vissasta leiðin til að firra landsmenn afnotum af henni, og að skattskylda þá við Reykjavík, er skifta við hana. En hjer er reyndar meira í húfi, því að þetta gæti leitt til viðskiftaþverrunar, er sligaði síðan fyrirtækið í samkepni við útlendar verksmiðjur, og það má jafnvel telja víst, að hluttaka annara landsmanna í stofnun slíks fyrirtækis hjer í Reykjavík verði torfengin. Reynsla síðustu ára, og þá ekki síst stríðsáranna, hefir skapað þá skoðun víða, að Reykjavík sje alt annað en heppileg viðskiftamiðstöð landsmönnum.

Í máli sem þessu er að sjálfsögðu mikil áhersla lögð á kostnaðarhliðina. Tillögumenn halda mjög á lofti áætlunum ullariðnaðarnefndarinnar frá 1922, og Englendingsins, Mr. Brook’s, er áætlaði, að fyrirtækið myndi kosta 50 þús. sterlingspund, eða 16–18 hundruð þúsundir króna. Þetta er nú reyndar fullstór upphæð, ef alt eða mest alt þarf að taka að láni og ríkið að bera bróðurhlutann. En leyfilegt mun að setja spurningarmerki við áætlunina, einkum ef fyrirtækið verður bundið við Reykjavík. Mig minnir, að hús Eimskipafjelagsins — þriðjungi stærra en nú er — væri áætlað 5–600 þús. krónur, þegar stjórn fjelagsins var að berja fram samþykt til byggingarinnar. Húsið varð tveir þriðjuhlutar þess, sem áætlað var og kostaði, ef mig minnir rjett, um eina miljón, og þar fóru feitu kýrnar, sem áttu að bjarga fjelaginu í harðærunum. Mig minnir líka, að rafveita bæjarins væri fyrst áætluð neðan við 2 miljónir og síðan röskar 2 miljónir, en jeg hefi fyrir satt, að hún muni nú vera komin á fimtu miljón, auk allra innlagninga. Að þeirri áætlun stóðu þó bæði útlendir og innlendir sjerfræðingar, eins og reyndar að þessari ullarverksmiðjuáætlun. Svipað má segja um hafnarbygginguna og ýms önnur mannvirki hjer. Regla má heita, að þau fari langt fram úr áætlun. Jeg mundi því fyrir varúðarsakir vilja gera ráð fyrir svo sem 3 milj. kr. stofnkostnaði fyrir verksmiðju þessa, ef hjer ætti að vera, og ríflegum rekstrarkostnaði, með hliðsjón af dýrtíðarvinnulaunum í Reykjavík og rekstrarafli frá rafveitunni, sem varla yrði mjög ódýrt, þar sem auka þyrfti rafveituna. Auk þess væri líklegt, að gera mætti ráð fyrir ofurlitlu skattgjaldi eða aukaútsvari, sem hæfa þætti miljónafyrirtæki.

þá segja flm., að von muni á 1/3 stofnkostnaðar frá Englandi eða £ 17.000. En hvað segir Jón Boli um það, ef stofnkostnaður fer svo sem um 1/3 eða ½ fram úr áætlun? Veit jeg vel, að hann gæti lánað og mun líklega fáanlegur til að lána gegn ríkisábyrgð, en í guðsþakkaskyni býst jeg ekki við að hann styðji þetta fyrirtæki, og ríkið, sem ábyrgðarþunginn hvílir á og ærið hefir fyrir af því tæi, hefir öllu lakari aðstöðu til að tryggja hagsmuni sína í slíku fyrirtæki en einstaklingur. En það er skoðun mín, að hjer lendi mest fjárframlögin á ríkinu, að minsta kosti fyrst í stað.

Í sjálfu sjer hefi jeg enga ótrú á ríkisrekstri, ef vel er um búið og hann er ríkinu ekki ofraun, en jeg hefi litla trú á samvinnufjelagsskap ríkisins við síngjarna einstaklinga, og held, að hlutur þess verði þar miður fram dreginn en sameiganda.

Yfirleitt álít jeg ullariðnaðarmálinu best borgið með því að áhugi og framtakssemi landsmanna sje notað á hverjum stað, eftir því sem hann kemur í ljós, en ríkið veiti honum sjerfróða aðstoð og leiðbeiningar og ábyrgist, ekki of mikinn, en þó nokkurn hluta af lánum til framkvæmda. Það er fyrirsláttur einn, að minni verksmiðjurnar, t. d. fjórðungaverksmiðjurnar á borð við Gefjuni, sem eftir áætlun ullariðnaðarnefndar frá 1922 eiga að kosta alt að 600 þús. kr., geti ekki unnið útgengilega dúka, þegar efnið er til þess hæft. Það hefir Gefjun sýnt þessi síðustu ár. Það er alkunna, að tilraunir hennar með að vinna dúka úr erlendu, smágjörvu hráefni og völdu innlendu efni, hafa tekist vel, en allir hljóta að sjá, að stór verksmiðja getur engin áhrif haft fremur en lítil á tæsluhæfileika íslensku ullarinnar.

Um þetta, og þá teknisku hlið málsins, þýðir annars lítið að þrátta. En jeg fullyrði, að margt er miður athugað en skyldi í þessu sambandi, og hv. flm. hafa tekið ýmislegt eins og óvefengjanlegan sannleika í áliti ullariðnaðarnefndar, t. d. það, að ein stór verksmiðja geri heimilisiðnaðinum sama gagn og fyrirvinna á mörgum stöðum í landinu, af því að farmgjald skipanna með ströndum fram sje jafnhátt, hvort sem sent er langt eða skamt. En þetta er einstök fjarstæða. Með þessu er sem sje gert ráð fyrir því, að engu skifti, hvort eigandi þarf að bíða fáa daga eða margar vikur eftir lopa eða ullarsendingu og sæta stopulum skipsferðum.

Ennfremur segja hv. flm., að kembingar- og lopavjelar borgi sig ekki, reknar út af fyrir sig. Þessi staðhæfing er með öllu órökstudd, enda er ekki hægt að staðhæfa slíkt án samanburðar við eitthvert þekt fordæmi. þessi fullyrðing hv. flm. kemur heldur ekki vel heim við reynslu Þingeyinga, sem lengi hafa haft kembivjelar, er nýlega hafa verið reistar úr rústum með ærnum kostnaði eftir bruna, líklega þó með það fyrir augum, að fyrirtækið borgaði sig, eins og reyslan hafði sýnt, og þó eiga Þingeyingar tiltölulega ljetta sókn til Gefjunar.

Annað mál er það, að fyrirvinna ætti að geta orðið ódýrari í fullkominn klæðaverksmiðju, þar sem mikið er unnið, fyrir þá, sem auðveldlega ná til hennar. Flm. taka það fram, eins og sjerstök meðmæli með fyrirtækinu, að Englendingurinn Mr. Brook álíti, að það geti orðið arðvænlegt. Hann lítur vitanlega á þetta sem fjárgróðafyrirtæki og miðar arðsvonina fyrir ensku þriðjungseigendurna við öryggið, sem ríkiseignin veitir. Hann lítur á þetta frá sjónarhóli hins hagsýna Breta, en líklega ekki þjóðfjelagsins, enda skortir hann vissulega staðlega þekkingu til að dæma um þetta.

Hv. flm. vilja tengja fyrirtækið við aðstandendur Iðunnarfjelagsins gamla, sem ennþá á leifar af gömlu verksmiðjunni. Þeir ætlast til, að þessir Iðunnareigendur beini fyrirtækinu inn á rjettar brautir. Það liggur því nærri að ætla, að sú nýja allsherjarverksmiðja eigi þá að eignast átuna af Iðunni. Á síðasta þingi og í nál. ullariðnaðarnefndar skaut líka upp þeirri hugmynd, að Álafosseignin gæti fallið inn í stóru verksmiðjuna. Það er þá ekki heldur ósennilegt, að þessi allsherjarverksmiðja geti á þægilegan hátt breytt í peninga slátrinu af þessum gömlu, úreltu verksmiðjum, þótt hún hafi líklega lítil not af því. Engum mundi koma það á óvart, þegar aðstandendur þessara aflóa fyrirtækja ættu að ráða, að þeir reyndu að gera sjer mat úr reitunum og ríkisábyrgðinni á þeirri stóru verksmiðju.

Hv. flm. hafa varað við því, að gera mál þetta að flokkspólitísku máli. Þetta er nú sjálfsagt í einlægni sagt. En jeg held, því miður, að þetta mál sje fyrir löngu orðið að flokkspólitísku máli, og auk þess komin inn í það hreppapólitík stærsta hreppsfjelagsins á landinu. Jeg þóttist verða þess var fyrir ári liðnu, og hefi jeg því síðan verið á þeirri skoðun, að frá því þetta ullariðnaðarmál kom fram, hafi það verið flutt með það eitt fyrir augum, að það gæti orðið stoð og stytta fyrir þennan bæ og einstaka borgara hans, og ekki horfir vænlegar, að mínu viti, ef gömlu ullariðnaðarfjelögin, Iðunn sáluga og Álafossverksmiðjan, eiga að sameinast þeirri „stóru“. Jeg geri því ráð fyrir, að það geti orðið erfitt að losa þetta mál við alla flokkspólitík.

Það er auðvitað af umhyggjusemi fyrir góðu og þörfu máli, þótt jeg efist um, að það takist að fá því framgengt, sem hv. flm. (ÞórJ) gerir ráð fyrir, að væntanleg nefnd vinni kauplaust. En mjer finst þó, þegar um jafnvandasöm störf er að ræða sem þau, er nefndin á að fá í hendur að vinna, að það sje til of mikils mælst af nefndarmönnunum, að þeir vinni fyrir alls ekkert kaup. Jeg sje aðeins örfáa menn, sem gætu staðið sig við það, sem sje aðstandendur Iðunnar og Álafoss. Þeir gætu þá, í von um hagkvæma sölu gömlu vjelanna, lagt á sig slíka vinnu. En það leiddi þá til þess, að nefndin yrði skipuð mönnum úr Reykjavík.

Hv. flm. (ÞórJ) gerir mikið úr því hagræði, sem leiða mundi af sjerfræðilegri aðstoð Englendinga við þetta fyrirtæki, ef þeir fengjust til að taka þátt í stofnun þess. En jeg get ekki gert svo mikið úr þessu. Jeg get ekki talið það neitt aðalatriði í þessu máli, að sótt verði eftir reynslu og þekkingu Englendinga um þessa hluti. Jeg held meira að segja, að það verði alls ekkert heppilegt að tengja þetta fyrirtæki við enskt fjármagn og forystu. Jeg veit ekki betur en að ullariðnaður sje kominn á alveg eins hátt stig á Norðurlöndum, t. d. í Danmörku og Noregi, að því er kemur til nýtingar á norrænni ull, og við gætum alveg eins sótt okkar þekkingu og fyrirmyndir þangað. Ýmsir telja náin mök við Dani og Norðmenn í samstarfi og atvinnuháttum okkur hættuleg, af því að þeir sjeu okkur ofjarlar í öllu. En jeg hefi ekki síður ótrú á samvinnu við Englendinga, og hygg það súrdeigið ekki hollara.

Það er auðvitað mál, að ullariðjumálinu verður að sinna, eins og hv. flm. (ÞórJ) sagði, og jeg mun ekki láta á mjer standa að styðja það mál, þegar jeg er orðinn sannfærður um, að því sje stefnt á rjetta leið. Jeg veit fyrir víst, að allur almenningur mun fúslega leggja á sig talsverðar byrðar til þess að ná því takmarki, að hjer komi upp innlend dúkagerð, ef fyrirtækin eru við hans hæfi og ekki háð annmörkum þessarar reykvísku braskarahugmyndar.

Það getur vel verið, að hjer á þingi sjeu fáir eða engir, sem líta á þetta mál eins og jeg, en það skiftir engu fyrir mig. Mjer er þetta sannfæringarmál, og læt ekki á mig fá, hvort fleiri eða færri verða mjer samferða. Ef svo fer, sem nú virðist einna líklegast, að Alþingi fallist á þessa allsherjarhugmynd, og falið verði nefnd manna hjer úr Reykjavík það vandaverk að undirbúa tóvinnumálið, þá vænti jeg þó þess, að Alþingi geymi sjer að minsta kosti til næsta þings að ákveða nánar stað og fyrirkomulag þessarar verksmiðju, og að brtt. mín á þskj. 421 verði samþykt. Læt jeg hjer svo staðar numið að sinni, en vil aðeins geta þess að lokum, að þótt þessar brtt. mínar verði samþyktar, sje jeg mjer þó ekki fært að fylgja þessu máli út úr deildinni í þeim búningi, sem það nú hefir, en frá mínu sjónarmiði getur það verið tiltækilegt að láta þetta mál fara til síðari umr., til þess að málið upplýsist betur, og mætti það verða því ávinningur að verða rætt hjer tvisvar, þótt ekki verði það afgreitt að þessu sinni.