25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

129. mál, klæðaverksmiðja

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir gefið sjer góðan tíma til þess að „krítísera“ greinargerð þessarar till., eins og. till. sjálfa, og kom mjer það alls ekki á óvart. En mjer kom niðurstaða þessa hv. þm. (SvÓ) samt nokkuð á óvart. Hann hefir jafnan tekið þeim höndum á þessu máli, að hann hefir aldrei mátt heyra annan stað nefndan fyrir verksmiðjuna en Suður- Múlasýslu, annarsstaðar hefir hvergi mátt nærri koma. En þegar hann kom fram með brtt. sínar, bjóst jeg samt við því hálft í hvoru, að hann mundi verða þessu máli fylgjandi, ef þær hefðu orðið samþyktar. En svo er þó alls ekki. Í rauninni virtist mjer hann ætla að verða með till. okkar flm., eins og hún kom fram í fyrstu, því að allar aðfinslur hans stefndu að brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) og þm. Str. (TrÞ), enda væri það undarlegt, ef hann vildi ekki, að undirbúningur þessa máls hjeldi áfram, nema hann vilji slá því föstu, að hann álíti engan undirbúning í þessu máli rjettan annarsstaðar en í Suður-Múlasýslu, því að það er vitanlegt, að enginn maður, sem nokkurt skyn hefir borið á þetta mál, hefir þar nærri komið. En ef þetta er ekki skoðun þessa hv. þm. (SvÓ), hlýtur hann að fylgja till. okkar hv. þm. Borgf.

Þá skal jeg minnast á örfá atriði úr ræðu hans, hin helstu. Það er þá fyrst, að hann taldi, að heimilisiðnaðinum gæti staðið hætta af þessari stóriðju; en það er síður en svo, að þetta geti orðið heimilisiðnaðinum hættulegt. Jeg álít þvert á móti, að þetta verði hin mesta lyftistöng fyrir heimilisiðnaðinn, þar sem alveg er tvímælalaust og full reynsla fyrir hjá öllum þjóðum, að mikið ódýrari verður kembing og lypping í fullkominni verksmiðju, eins og rökstutt er í greinargerð tillögunnar. Þá áleit þm. (SvÓ), að það yrði of seinlegt að senda ullina til einnar verksmiðju, t. d. í Reykjavík. En hann hefir þá ekki athugað það jafnframt, að samgöngur innan hjeraða eru óvíða eins tíðar eða tíðari en skipaferðir til Reykjavíkur, eða jafnvel Eskifjarðar. Það er mjög óvíða, sem stöðugar bátaferðir eru innan hjeraða, nema máske á einstaka stað innan fjarða. Þá er og enn óathuguð sú ástæðan, að það er aðeins á vissum tíma árs, sem þess þarf með að senda ullina, og ef hann álítur eina stóra verksmiðju, sem gæti unnið fyrir alt landið, mundu verða dýrari en margar smáverksmiðjur sína í hverju hjeraði, þá er það annaðhvort alls ekkert hugsað hjá hv. þm. (SvÓ), eða þá að það er mjög illa hugsað. Svo áætlaði hann t. d., að þessi eina stóra verksmiðja yrði helmingi dýrari en ráð hefir verið gert fyrir, þ. e. um 3 milj. kr., en taldi aftur á móti, að smærri verksmiðjur, eins og t. d. Gefjun á Akureyri, mundu reynast miklu ódýrari. Nefndin hafði áætlað þær um 600 þús. kr., og vildi hann ekki hækka þá áætlun nema lítið eitt. Af hverju? Af því það fjell betur saman við hans eigin skoðanir. Jeg skal nú viðhafa hans eigin reikningsaðferð, og mundu þá þessar verksmiðjur, á stærð við Gefjuni, kosta um 1 miljón og 200 þús. kr. Ef við nú gerum ráð fyrir, að reistar yrðu 10 verksmiðjur, sín í hverju hjeraði, eða hjer og þar um landið, yrði allur kostnaðurinn samanlagður um 12 milj. kr., en þessi eina stóra verksmiðja, sem duga mundi fyrir alt landið, kostaði þó ekki nema 3 milj. með þessari hækkuðu áætlun hans. Hver er nú munurinn? Nei, það er ekki hægt að velta þessu svo, að ekki verði sama niðurstaðan, að 1 eða 2 stórar verksmiðjur verða tvímælalaust miklu ódýrari en margar smáar. Flutningskostnaðurinn með skipum verður og svipaður, hvort sent er lengri eða skemri leið. En þetta hefir hv. þm. (SvÓ) aldrei getað hugsað sjer, vegna þess, að inn í hans höfuð hefir aldrei komist nema eitthvert smákríli af verksmiðju, sem standa ætti á Eskifirði. Jú, hv. þm. (SvÓ) gat þess, að Þingeyingar hefðu keypt sjer aftur kembivjelar, en hann hefir ekki sannað, að þær borgi sig betur heldur en ef sótt hefði verið til Gefjunar-verksmiðjunnar á Akureyri. Gömlu vjelarnar þingeysku voru litlar og ódýrar, en nú er hvergi hægt að fá svo litlar vjelar. Nú er aðeins hægt að fá stórar vjelar, sem vinna miklu meira en sem svarar vinnuþörf lítils sveitahjeraðs. Hann hefir heldur engin rök fært fram fyrir því, að minni vjelarnar verði ódýrari, en segir það aðeins ósannað mál, að stórar verksmiðjur verði ódýrari; en reynsla okkar og allra annara hefir þó einmitt sannað það.

Hann dvaldi einna mest í ræðu sinni við hagsmuni Reykjavíkur í sambandi við þetta fyrirtæki. Jeg veit ekki, hvað hann hefir meint með því, en því var hvíslað að mjer áðan, að hann mundi halda, að við flm. þessarar till. mundum hafa verið keyptir til þess af einhverjum, sem væntu þess að fá störf við verksmiðjuna, ef hún yrði sett í Rvík. Þetta held jeg að við förum ekki að setja fyrir okkur. En mjer finst það hálfskrítið af hv. þm. (SvÓ) að ætla að fara að mála grýlur á vegginn um það, hverjir muni fá atvinnu við þetta fyrirtæki. Á þessu stigi málsins er það of snemt að hugsa um þá hluti; en það er óheiðarlegt að gera ráð fyrir því, að þetta mál verði misnotað í þágu einstakra manna.

Það er rjett hjá hv. þm. (SvÓ), að kaupgjald er hærra í Reykjavík en víðast hvar annarsstaðar, og dýrtíð þar einna mest á landinu, en það hefir heldur aldrei verið gengið beint út frá því, að verksmiðjan yrði reist hjer í Reykjavík. Jeg hafði hugsað mjer t. d., að Álafoss væri líklegri staður fyrir verksmiðjuna, að minsta kosti verður það atriði tekið til athugunar. En heldur t. d. hv. þm. (SvÓ), að verkamenn vildu fara hjeðan til Eskifjarðar, ef verksmiðjan væri þar, og vinna þar fyrir lægra kaup en hjer tíðkast? Það hefir heyrst nú nýlega, og er engin stóriðja komin á fót hjer ennþá, að verkamenn úti um land sjeu að reyna að færa sjer í nyt þá kauphækkun, sem hjer hefir orðið, til þess að fá kaup sitt hækkað líka. Kaupgjald í svona verksmiðju yrði líklega ætíð að vera hærra en venjulegt kaup algengra verkamanna, enda þótt líklegt sje, að mætti halda því eitthvað lægra en hægt er í Reykjavík. En það er skylda nefndarinnar að taka þetta alt með í reikningum sínum, ella gæti hún ekki sagt hið sanna um það, hvaða staður yrði heppilegastur og ódýrastur; en þar á verksmiðjan að vera. Það er síður en svo, að þetta eigi ekki að takast til greina. En hv. þm. (SvÓ) taldi Rvík óheppilegan stað, aðallega af þessum ástæðum; en þótt kaupið þyrfti ef til vill að vera eitthvað hærra hjer en annarsstaðar, gæti það þó unnist upp af ýmsum öðrum hlutum. Reykjavík er t. d. ekki óheppilegasti staðurinn að því er samgöngur snertir. Það gæti jafnvel hugsast, að Reykjavík reyndist ódýrasti staðurinn, þegar öllu væri á botninn hvolft, þrátt fyrir alt það svartasta, sem þm. (SvÓ) hefir talið upp. Það er ýmislegt, sem athuga verður í þessu sambandi. Hjer í Reykjavík mundi ekki þurfa að byggja sjerstök verkamannaskýli; þess mundi þurfa víðast hvar annarsstaðar, t. d. á Álafossi. En hvernig þessu hagar til á Eskifirði, er mjer alveg ókunnugt. Þetta er eitt með mörgu fleira, sem þarf að taka til ítarlegrar athugunar.

Hann (SvÓ) talaði um það, eins og jeg mintist á áðan, að það þyrfti að hækka þá áætlun, sem þegar hefir verið gerð, en það skiftir litlu máli. Það þarf jafnan að hækka allar áætlanir; en hitt má vel vera, að þetta verði nokkru dýrara en ætlað hefir verið, vegna þess, að eftir því sem málið verður betur rannsakað, komast menn nær því rjetta. Þetta er algengt með allar áætlanir.

Ennfremur taldi hv. þm. (SvÓ), að þetta mundi aldrei verða fært, nema ríkið tæki alt stofnfjeð að láni. Hann gekk sem sje út frá því, að þetta yrði ríkisrekstur. Þetta hefir aldrei verið tilgangur okkar flm. Við höfum ætlast til, að þetta yrði hlutafjelag. Landsmenn mundu t. d. leggja fram minst 1 /3 hluta fjárins. en ríkissjóður ]/3 hluta. Ef landsmenn gætu þetta ekki af eigin ramleik, mætti og taka lán til þess, og væri það þá ekki óhugsandi, að ríkissjóður tæki ábyrgð á því, og er það engin nýjung, þótt það kæmi fyrir. En hitt hefir mjer aldrei komið til hugar, að ríkissjóður tæki lán til þess að koma þessu á fót.

Hv. þm. (SvÓ) sagði, að Englendingar gætu ekki gert áætlanir um þetta, og að þeir mundu ekki vilja leggja fram fje í þetta fyrirtæki. (SvÓ: Þetta er útúrsnúningur). Nei, hv. þm. sagði, að þeir mundu kippa að sjer hendinni vegna þess, að þetta færi fram úr áætlun, og veit jeg ekki, hvað hann hefir fyrir sjer í þessu, því að önnur áætlunin var eftir Englendinginn, sem hjer var síðatsliðið sumar. Þá fór hann út í það, sem hann hefði sjálfs sín vegna átt að láta ógert, þar sem hann slær því föstu, að við flm. ætlumst til þess, að gömlu vjelarnar úr Iðunni ættu að renna til þessarar verksmiðju og verða þar notaðar. Þessar vjelar, sem hann talar um, eru ýmist seldar eða urðu með öllu ónýtar í brunanum. En það eru alt aðrar eignir en vjelar, sem þetta fjelag á. Það á hús og lóðir stórar, sem það hefir leigt út fyrir fiskverkunarreiti. Þessar eignir eru ávalt í miklu verði. Jeg skal láta það alveg ósagt, hvort fjelagið vill leggja þessar eignir sínar í þetta fyrirtæki, en ef það vildi gera það, gæti það orðið þessu máli feikimikill stuðningur. Þarna mundu fást sem svarar yfir 200 þús. kr., auk skulda, sem á þessu hvíla. Það er enginn vafi á því, að fjelagið getur gert sjer þetta fje úr þessum eignum sínum.

Enn taldi þm. (SvÓ), að Englendingar mundu ekki geta gert sjer von um arð af þessu, og mundu því alls ekki leggja í þetta fyrirtæki. Þessar fullyrðingar eru þvert ofan í yfirlýsingu þessa þaulæfða enska fagmanns, sem hjer var, og eru því ekki sæmandi hv. þm. (SvÓ), ef hann vill láta nokkurn hugsandimann trúa sjer. Og þegar við berum kostnaðinn við að koma upp verksmiðjunni saman við það fje, sem fer út úr landinu fyrir ullarvörur, þá sjáum við brátt, að kostnaðurinn yrði borgaður á fáum árum.

Þá talaði hv. þm. (SvÓ) enn um stopular ferðir. Það er ekki heldur nein ástæða, eins og jeg hefi áður sýnt fram á. Það mun nú varla vera nokkur staður á landinu, sem ekki sjeu nægilega fljótar ferðir til, þessa vegna.

Hv. þm. (SvÓ) lagði í fyrstu áherslu á það, að þetta mál ætti ekkert að vera við riðið flokkapólitík. Hann hefir og síðan breytt samkvæmt því. Alt, sem hann hefir til þessa haldið fram í málinu, hefir ekki verið blandað flokkapólitík, heldur hreppapólitík. En mín skoðun er nú sú, að hún eigi ekki heldur hjer við. Hv. þm. hefir, að því er virðist, ekki ennþá getað komið auga á neinn verulega heppilegan stað, nema þarna fyrir austan. Það er ekki svo að skilja, að jeg hafi neitt sjerstakt á móti honum; þvert á móti. Jeg vil láta rannsaka hann sem aðra líklega staði, og taka hann, ef hann virðist ákjósanlegur.

Hann kvað ekkert happ mundu vera að fá Englendinga til að koma verksmiðjunni á stofn. Vildi hann fult eins vel taka Dani eða Norðmenn til þessa. Það má vera, að verða kunni skiftar skoðanir um þetta, en jeg þykist þess fullviss, að Englendingar standi einna fremst í þessum efnum. Sá maður hjer að heiman, sem er að stunda þessa námsgrein, gerir það í Englandi. Er það mjög efnilegur maður, og verður hann fullnuma bráðlega. Mun það því aldrei skifta mörgum árum, sem við þurfum að búa við forstöðu erlends manns.

Það er annars þýðingarlaust að vera að þrátta um þetta mál, og allra helst við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann hefir nú einu sinni bitið sig fastan í þessa skoðun sína, og hún verður ekki frá honum tekin, hversu rangt sem hann hefir fyrir sjer; að því er hann alþektur. En það fyndist mjer, að hv. þm. ætti þó að ganga inn á, að ekki sje rjett að fella nú niður áframhaldandi undirbúning í þessu máli. Einkum kom mjer á óvart, er hv. þm. lýsti yfir því í lok ræðu sinnar, að hann mundi greiða atkv. á móti málinu, eftir að hann hafði bent á sjerstakan stað, sem heppilegur myndi vera til þessa, og sem hann kvað ekkert á móti, að væri rannsakaður. Sú rannsókn fer þá aldrei fram, ef málið er nú látið niður falla. Hlýtur hv. þm. því að hafa verið að gera að gamni sínu í annaðhvort skiftið.