25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

129. mál, klæðaverksmiðja

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg vildi aðeins beina einni athugasemd til hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Hann tók það fram, að væri verksmiðjan rekin sem hlutafjelag, hefðu framleiðendurnir engan íhlutunarrjett. Jeg veit ekki, hvort hann hefir athugað þetta nógu rækilega. Það er gert ráð fyrir því, að ríkið eigi 1/3 og framleiðendur líka 1/3, og virðist því sem þeir gætu haft fylsta íhlutunarrjett, þótt útlendingar ættu 1/3 í verksmiðjunni.

Hann og 1. þm. S.-M. (SvÓ) tóku það fram, að væri verksmiðjan ein á öllu landinu, ætti hún að vera á Austurlandi. Jeg hefi nú aldrei gengið út frá einni verksmiðju, heldur væri og haldið áfram þeirri, sem er á Norðurlandi, og hún aukin. Annars er þessi eltingaleikur út af verksmiðjunni á Austurlandi ósköp einkennilegur; jeg hefi aldrei haft á móti henni. Það er að heyra á hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) eins og jeg vildi hvergi hafa verksmiðjuna nema hjer í Reykjavík. Jeg hefi margsinnis tekið það fram, að við flm. viljum aðeins hafa verksmiðjuna þar, sem hentast verður talið að hún sje.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fór að meta hús og fleira hjer í Reykjavík. Jeg veit ekki, hversu rjett það var gert. Jeg aðeins benti á þetta með verkamannabústaðina, og má vel vera, að þrátt fyrir það yrði hentugra að hafa verksmiðjuna á Álafossi, þar er vatnsafl til rektsrar og hús, sem yrði að auka, en yrði samt sjálfsagt ódýrara en að nýtt væri bygt hjer. En við höfum sem sagt aldrei haldið neinu fram um staðinn, heldur að málið yrði rannsakað enn meir og undirbúningnum haldið áfram.

Hv. þm. (SvÓ) var að tala um, að samgöngurnar við Reykjavík væru ekki betri en við aðra staði. Jeg sagði aðeins, að þeir erfiðleikar, sem að samgöngunum lúta, yrðu ekkert meiri, þótt verksmiðjurnar væru 1 eða 2, enda veit jeg ekki til, að menn hafi neitt kvartað yfir slíku hvað viðvíkur þeim verksmiðjum, sem fyrir eru.

Það má líka geta þess, að ef koma ætti upp smærri tóvinnuvjelum, þá er ekki líklegt, að þær yrðu í kauptúnunum, heldur í sveitunum, og eins og vegirnir eru, þá er ekki fyrir það bygt, að flutningskostnaðurinn til þeirra yrði ekki eins mikill og þótt aðeins væri ein verksmiðja.

Annars hefi jeg þegar bent á dæmi um það, hvernig tóvinnuvjelunum gengur, þegar verksmiðjurnar koma upp, t. d. við Reykjafoss, þegar Álafossverksmiðjan var stofnuð. Jeg get minst á fleiri. Vjelarnar á Rauðamýri urðu að hætta, og hluthafarnir töpuðu öllu; alveg eins fór í Ólafsdal. Og það mætti benda á fleira, til að sýna, hve óheppilegar þessar smærri vjelar eru. Um Halldórsstaði er það að segja, að fyrri vjelarnar voru svo smáar og samsvöruðu miklu betur því, sem vinna varð úr, heldur en nú er völ á. Og þær vjelar, sem nú eru, veit enginn hvernig gefast. Þær voru keyptar gamlar og engin reynsla fengin á þeim.

Þá mintist hv. þm. (SvÓ) á eignir Iðunnarfjelagsins. Jeg hefi aldrei slegið neinu föstu um þær, aðeins sagt, að æskilegt væri, ef auðnast mætti að koma þeim fyrir sem hlutum í verksmiðjunni. Það má vel vera, að það sje ekki hægt.

Þá talaði hv. þm. (SvÓ) um, að ríkið þyrfti sjálfsagt að leggja meira en 1/3 af mörkum. Þetta var aðeins fullyrðing og á engan hátt rökstudd. Það getur vel verið, að við nánari rannsókn finnist fleiri leiðir og betri til að safna fje en við höfum bent á.

Hv. þm. (SvÓ) sagði síðast, að betra væri að hafa 2–3 verksmiðjur en eina. Virðist hann þá horfinn frá smávjelunum. Og jeg hefi ekkert á móti því; jeg hefi þvert á móti haldið fram, að fullkomna ætti verksmiðjuna á Akureyri.

En jeg tek það enn fram, að við flm. höfum ekkert lagt til um þetta eða annað, heldur það eitt, að haldið væri áfram að undirbúa að koma á fót fullkominni verksmiðju, sem stæði á þeim stað, sem hentast væri fyrir þjóðina.

Það, sem hv. þm. (SvÓ) sagði um að jeg hefði snúið út úr orðum sínum, var alt rangt. Jeg skrifaði þau niður og snjeri ekki út úr neinu, en hann tók þetta í munn sjer til þess að fá tækifæri til að snúa út úr mínum orðum.

Jeg ætla ekki að tala meira um málið, enda er jeg nú dauður og mun ekki hugsa til athugasemdar, hvað þá meira.