03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

129. mál, klæðaverksmiðja

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki að sinni tefja mikið umr. þessa máls, enda er jeg fyrir löngu ákveðinn í því, hvernig jeg haga mínu atkvæði og aðgerðum eftirleiðis. Jeg tel, að hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hafi farið í þessu máli nokkuð aðra leið en rjett er. Hann hefir heldur ekki hermt rjett úr nál., að hjer sje ekki um annað að ræða en að halda máli þessu vakandi. Það er vakandi, og till. mun fremur svæfa en vekja. Það er heldur ekki í samræmi við till. nefndarinnar frá 1922 að fresta þessu, því að ætlun hennar var sú, að strax kæmi til framkvæmda, og um leið yrði tekið fyrir kverkar allra smáfyrirtækja í þessari grein. Það er því alveg nýtt atriði í þessu máli, að hv. flm. (ÞórJ) og hv. þm. Dala. (BJ) tala um það, að jafnhliða hinni stóru verksmiðju eigi að koma litlar tóvinnuvjelar, að mjer skildist, hingað og þangað um landið. Þetta er því út í hött sagt hjá þeim. Þegar á að koma upp svo stórri og dýrri stofnun sem þessari umræddu allsherjarklæðaverksmiðju, þá verða sjálfsagt lítil efni á því að koma upp mörgum smáum til sveita. Það er því gersamlega tilgangslaust að tala um þessi tvennskonar fyrirtæki hvort við annars hlið.

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) kom að nýju með þá fullyrðingu, að hinar minni vjelar borguðu sig ekki. Nú veit hv. þm. fullvel, að a. m. k. ein þessi litla verksmiðja, Gefjun, borgar sig vel. Í öðru lagi veit hann, að kembingarvjelar þær, sem nýlega voru settar upp á Húsavík, voru fengnar vegna þess, að vjelarnar, sem áður voru á Halldórsstöðum, þóttu borga sig, ella hefði ekki verið kostað þarna til miklu fje.

Það er ekki til neins fyrir hv. flm. (ÞórJ) að veifa því, að við, sem erum á móti till. á þskj. 451, berum ekki skyn á þessa hluti. Með því gefur hv. þm. það í skyn, að hann einn sje dómhæfur og viti betur; kennir þar allmikilla drýginda, sem fer því lakar á sem gildari ástæða er til þess að efast um, að hann hafi nokkra þekkingu í þessu efni. Hjer er sífelt verið að skírskóta til álits ensks sjerfræðings, sem hingað kom snögt næstliðið sumar. Þótt jeg enganveginn vilji draga í efa sjerþekkingu hans, þá veit jeg fyrir víst, að hans staðlega þekking nægir alls ekki. Það er hreint og beint hlægilegt, að bygt er á athugunum hans, eins og þær væri óskeikul vjefrjett.

Yfirleitt hefi jeg það á móti þessari málsmeðferð, að með samþykt till. á þskj. 451 er hnekt þeim áhuga, sem víða er vaknaður hjer fyrir ullariðnaði, og loku skotið fyrir það með öfgakenningum, að styrkur fáist af opinberu fje til framkvæmda í þá átt. Ennfremur er hjer ætlast til, að tekið verði mikið fje úr ríkissjóði og lagt í hættu, sem engin þörf er á nje efni til. Reynsla undanfarinna ára hefir leitt það í ljós, að talsverð áhætta fylgir ríkisrekstri, og ekki minkar hún í sameign við útlendinga. En fyrirsjáanlegt er, að ríkið verður að leggja fram mest fjeð, ef nokkuð á að gera, þótt fagurlega sje um það talað í greinargerð till. að safna fje til fyrirtækisins úr öllum landsfjórðungum. Er engin von til þess, að almenningur úti um land leggi fje í slíka verksmiðju hjer í Reykjavík. (Flm. ÞórJ: Hún getur alveg eins orðið á Austurlandi). Hv. þm. (ÞórJ) þýðir ekki að tefla þessu fram, því að allir vita, að hugmyndin er alt önnur. Jeg er yfirleitt algerlega mótfallinn því, að slík verksmiðja verði rekin af ríkinu. Það hefir alls engin efni á að koma henni upp. Og meðan svona gengur, er aðeins tafið fyrir framkvæmdum þeirra manna úti um land, sem hafa áhuga á að gera eitthvað í þessu máli.