03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

129. mál, klæðaverksmiðja

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Umr. um þetta mál eru nú farnar að fara nokkuð dreift.

Það, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði um stóriðjuna, á hjer alls ekki við. Heimilisiðnaður okkar, eða verksmiðjustarfsemi, eins og hjer er gert ráð fyrir, er alls ekki sambærilegur við erlenda stóriðju. Og jeg er sannfærður um það, að meiri menningarauki er að því að fá eina stóra verksmiðju fyrir alt landið, en að upp þjóti gorkúlur hingað og þangað um sveitirnar, smáverksmiðjur, sem engin von er til, að geti borið sig. Og jeg vil spyrja: Hverju er slept, þó að þetta mál verði rannsakað? Við höfum hingað til komist af með þær verksmiðjur, sem við höfum, og þær ættu að geta dugað okkur það enn, að við ættum ekki að þurfa, okkur til óbætanlegs tjóns, að flana að einhverjum óverulegum kákframkvæmdum í þessum málum.

Jeg hefi aldrei neitað því, að heimilisiðnaðurinn sje menningarmál. En jeg sje ekki, að þetta brjóti að neinu leyti í bága við hann, heldur verði það honum þvert á móti hin besta stoð, að sem mest sje vandað til alls undirbúnings í þessum málum, og sjeð um, að framkvæmdirnar geti orðið til sem mestrar frambúðar. En það er hneyksli hjá sumum hv. þm.

Bæði hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þykjast vita miklu betur um alt það, sem að þessum málum lýtur, en jeg. Og hv. 1. þm. S.-M. brá mjer um trúgirni. En jeg get sagt honum það, að jeg skammast mín ekkert fyrir að játa, að jeg trúi sjerfræðingum, þótt útlendir sjeu, sem kynna sjer málin og athuga þau vandlega. Og falli skoðun þeirra saman við mína, þá verð jeg auðvitað enn frekar að festa trú á það, sem þeir segja.